Dráttarvextir í greiðsluskjóli

Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun hefst svokallað greiðsluskjól á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Á meðan greiðsluskjóli stendur er kröfuhöfum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum. Þess er að gæta að þeir einstaklingar sem lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun fyrir 1. júlí 2011 nutu greiðsluskjóls allt frá því umboðsmaður skuldara móttók umsóknir þeirra, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Í 2. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er mælt fyrir um að kröfur skulu bera vexti í greiðsluskjóli. Ákvæðið er svohljóðandi:

Vextir falla á skuldir meðan á frestun greiðslna stendur en þeir eru ekki gjaldkræfir."

Embættið hefur ávallt verið þeirrar skoðunar að túlka beri framangreint ákvæði á þann veg að átt sé við samningsvexti en ekki dráttarvexti. Að áliti embættisins samrýmist álagning dráttarvaxta hvorki markmiði greiðsluaðlögunar né tilgangi greiðsluskjólsins. Í greiðsluskjóli er einstaklingi óheimilt að greiða af skuldum sem hann stofnaði til áður en tímabil greiðsluskjóls hófst, óháð greiðslugetu eða greiðsluvilja. Greiðsluskjólið á að veita einstaklingi, í verulegum greiðsluerfiðleikum, ráðrúm til þess að endurskipuleggja fjárhag sinn í ferli greiðsluaðlögunar.

Sumir kröfuhafar hafa lagt dráttarvexti á kröfur sínar á tímabili greiðsluskjóls ef máli lýkur án samnings, t.d. í kjölfar afturköllunar, niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana eða niðurstöðu kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefndar velferðarmála). Þeir kröfuhafar sem hafa ekki innheimt dráttarvexti vegna þessa tímabils, þegar máli lýkur með framangreindum hætti, hafa eftir atvikum látið kröfurnar bera almenna samningsvexti.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 26. október sl. í máli nr. E-203/2016 var ekki fallist á að Arion banka væri heimilt að leggja dráttarvexti á kröfur vegna þess tímabils sem skuldari naut tímabundinnar frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls.

Stefnandi málsins sótti um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara árið 2011 og komst í greiðsluskjól strax við móttöku umsóknar, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Umsókn hlutaðeigandi var synjað og kærði hann ákvörðun embættisins til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Nefndin staðfesti svo ákvörðun embættisins með úrskurði árið 2013 og lauk þá greiðsluskjóli.

Stefnandi krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að Arion banka hafi verið óheimilt að krefja stefnanda um dráttarvexti á kröfur bankans, meðan greiðsluskjólið stóð yfir. Í málinu var deilt um skýringu á vaxtahugtaki í 2. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Með vísan til lögskýringarsjónarmiða og lögskýringargagna var það niðurstaða dómsins að rétt væri að skýra vaxtahugtakið í 2. mgr. 11. gr. laganna á þann veg að það nái eingöngu til almennra vaxta en ekki dráttarvaxta. Var því fallist á að Arion banka hefði verið óheimilt að krefja stefnanda um dráttarvexti vegna tímabils greiðsluskjóls.

Arion banki hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar og því liggur endanleg niðurstaða ekki fyrir.