Fréttir

Hæstaréttardómar um fyrningarslit í kjölfar gjaldþrotaskipta.

9.11.2017

Í öllum málunum krafðist Lánasjóður Íslenskra námsmanna (LÍN) að viðurkennd yrðu fyrningslit krafna sjóðsins, í kjölfar gjaldþrotaskipta hjá skuldara, og reyndi því á túlkun 3. mgr. 165. gr. gþl. sem segir að slíka viðurkenningu skuli aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma.

Í öllum dómunum var rökstuðningur Hæstiréttar sá sami. Að því er varðar fyrra skilyrði framangreinds ákvæðis, vísaði Hæstiréttur til þess að líta yrði svo á að í tilvikum þar sem krafa hefði ekki orðið til út af ólögmætri háttsemi skuldara, fæli skilyrðið einkum í sér að kröfuhafi þyrfti vegna sinna eigin aðstæðna að hafa svo að teljandi væri hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að tiltekin krafa yrði ekki látin falla niður fyrir fyrningu. Taldi Hæstiréttur aðstæður LÍN ekki sérstakar í samanburði við aðra lánveitendur. Þá taldi Hæstiréttur að ekki yrði framhjá því litið að LÍN væri ríkisstofnun, sem fengi fé til að standa undir starfsemi sinni m.a. með framlögum ríkisins, þess sama og hefði í skjóli löggjafarvalds síns sett 3. mgr.  165. gr. gþl., án þess að undanþiggja LÍN eða aðra tiltekna lánardrottna frá því að þurfa að hlíta reglum ákvæðisins. Þar sem því hefði ekki verið borið við að skuldari hefði með ólögmætri háttsemi stofnað til skuldar við LÍN taldi Hæstiréttur að skilyrði 3. mgr. 165. gr. gþl., væru ekki uppfyllt og þurfti þá ekki að líta frekar til þess að LÍN hefði á engan hátt leitt í ljós að líkur væru á að fullnusta kröfunnar gæti fengist á nýjum fyrningartíma.

Þessir dómar sýna að það er mjög erfitt fyrir kröfuhafa að fá viðurkenningardóm um fyrningarslit.

Málsnúmer dómana eru eftirfarandi: 645/2016, 731/2016, 644/2016, 643/2016 og 730/2016.