Fréttir

Sértæk skuldaaðlögun fellur niður

13.12.2012

Sértæk skuldaaðlögun er úrræði ætlað einstaklingum sem eiga  í verulegum greiðsluerfiðleikum og ljóst er að vægari úrræði eru ekki fyrir hendi til að leysa vandann. Miðað er við að skuldir séu umfram eignir en jafnframt að greiðslugeta lántaka til að greiða af veðlánum nemi a.m.k. 70-100% af verðmæti eigna. Úrræðið byggir á lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Samkvæmt lögunum voru settar verklagsreglur en að þeim stóðu Samtök fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóður,  Landssamtök lífeyrissjóða, Samband íslenskra sparisjóða og slitastjórn SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans .

 

Sótt er um sértæka skuldaaðlögun hjá aðalviðskiptabanka umsækjanda fyrir 31. desember 2012 en nú um  áramót rennur úrræðið sitt skeið á enda. Vakin er athygli á því að sértæk skuldaaðlögun er ekki það sama og greiðsluaðlögun einstaklinga skv. lögum nr. 101/2010 og mun það úrræði standa þeim sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum áfram til boða . Umboðsmaður skuldara tekur á móti umsóknum um greiðsluaðlögun.

Sértæk skuldaaðlögun er samningur til þriggja ára um greiðslu af lánum samkvæmt greiðslumati. Ef ekki er greiðslugeta fyrir 100% af verðmæti eigna eru skuldir sem nema frá 70-100% veðhlutfalls sett í vaxta- og verðbótalaust biðlán til þriggja ára. Greiðslur af þessu biðláni hefjast að samningstíma loknum. Skuldir sem eru umfram 100% af verðmæti eigna og utan greiðslugetu falla niður í lok samningstíma, ef staðið er við samninginn. Úrræðið nær ekki til þeirra sem eru með óuppgerðar skuldir gagnvart aðilum utan viðkomandi samningsaðila, sem ekki eru aðilar að samkomulaginu. 

Upplýsingar um sértæka skuldaaðlögun hjá viðskiptabönkum:

Arion banki (sjá aðlögun að greiðslugetu)

Íslandsbanki

Landsbankinn