Ábyrgðarskuldbindingar

Hvað er ábyrgðarskuldbinding?

Ábyrgðarskuldbindingum má skipta upp í sjálfskuldarábyrgðir annars vegar og lánsveð hins vegar. Algengast hefur verið að veita sjálfskuldarábyrgðir til tryggingar skuldabréfum eða yfirdráttarlánum aðalskuldara. Þegar fjallað er um lánsveð er hér átt við þegar veð í eign þriðja aðila er veitt til tryggingar kröfu.

Gild eða ógild ábyrgðarskuldbinding

Við mat á gildi ábyrgðarskuldbindinga er mikilvægt að kanna hvenær stofnað var til ábyrgðarinnar. Hafi stofnast til ábyrgðar á tímabilinu 1. maí 1998 til 31. október 2001 gildir  samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða frá 1. maí 1998. Hafi stofnast til ábyrgðar á tímabilinu 1. nóvember 2001 til 3. apríl 2009 gildir  samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1.nóvember 2001 . Hafi stofnast til ábyrgðar eftir 3. apríl 2009 gilda  lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.

Tekið skal fram að lífeyrissjóðir og Lánasjóður íslenskra námsmanna voru ekki aðilar að samkomulaginu frá árinu 1998 og 2001 og bar því ekki að fylgja þeim. Þá er misjafnt hvenær fjármögnunarfyrirtæki urðu aðilar að síðara samkomulaginu. Lögin taka hins vegar til allra þessara aðila.

Hvað er hægt að gera?

Ábyrgðarmenn og/eða aðalskuldari eru hvattir til að fara í það útibú þar sem lánið var veitt og óska eftir eftirtöldum gögnum og afstöðu fjármálafyrirtækis til ábyrgðarinnar:

Eftirfarandi gögn geta skipt mál við könnun á gildi ábyrgðar:

  • Skuldaskjalið sjálft
  • Sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsing (í tilfelli yfirdráttarlána)
  • Greiðslumat
  • Niðurstöðu greiðslumats
  • Dagsstaða láns
  • Lánsumsókn
  • Skilmálabreytingar (ef við á)
  • Önnur skjöl sem tengjast lánveitingum

Ágreiningur um ábyrgðarskuldbindingu

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Ábyrgðarmaður getur leitað til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki með ágreining um ábyrgðarskuldbindingar. Kostnaður við að leggja mál fyrir úrskurðarnefndina er 5.000 kr. Nánari upplýsingar og eyðublað má finna á  heimasíðu fjármálaeftirlitsins.

Einstaklingar geta fengið upplýsingar í síma 520 3700 á þriðjudögum milli kl. 10-11 og á fimmtudögum milli kl. 14-15. Einnig er hægt að senda tölvupóst á  urskfjarm@fme.is.

Dómstólar

Það er ekki skilyrði fyrir því að fara í dómsmál, að hafa leitað til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Ábyrgðarmanni er því heimilt hvenær sem er að leita sér aðstoðar lögmanns og fara með ágreining um ábyrgðarskuldbindingu fyrir dómstóla.

Umboðsmaður skuldara kemur ekki að málarekstri fyrir dómstólum. Þá veitir embættið ekki lögfræðilega ráðgjöf um gildi ábyrgðarskuldbindinga.