Að forðast greiðsluvanda

Óvænt lækkun á tekjum, veikindi, atvinnumissir og ábyrgðarskuldbindingar eru einnig m.a. orsakavaldar greiðsluerfiðleika. Markmið hvers heimilis ætti því að vera að skila tekjuafgangi og leggja fyrir í varasjóð þannig að hægt sé að mæta óvæntum aðstæðum þegar þær koma upp. Besta leiðin er alltaf sú að fyrirbyggja vandann áður en í óefni er komið. Til að forðast greiðsluerfiðleika eða byggja upp fjármálin eftir greiðsluerfiðleikaaðstoð er gott að hafa eftirfarandi ráð í huga.  

Fáðu raunverulega yfirsýn yfir útgjöld og tekjur 

Hvað kostar raunverulega að reka heimilið? Hversu mikið er greitt af lánum, í húsaleigu, dagvistun og aðra fasta liði? Hverjar eru útborgaðar tekjur? Að þekkja útgjöldin veitir fjárhagslegt öryggi og raunútgjöld vegna framfærslu heimilisins er best að finna með því að færa heimilisbókhald. Grunn að einföldu heimilisbókhaldi í Excel má nálgast hér. Eftir að framfærslukostnaður liggur fyrir er síðan hægt að finna þá liði sem má lækka og setja sér framfærslumarkmið fyrir næsta mánuð. Margir of- eða vanáætla tekjur sínar en best er að taka saman tekjur síðastliðinna 12 mánaða og finna meðaltal útborgaðra launa. Ekki má gleyma  að bæta meðlagsgreiðslum, barna-, vaxta- og húsaleigubótum við tekjurnar, eftir því sem við á.

Settu þér markmið og fylgdu þeim eftir

Þegar útgjöldin og tekjurnar liggja fyrir er gott að fylla út fjárhagsyfirlit til að fá mynd af stöðunni eins og hún er. Grunn að fjárhagsyfirliti í Excel má nálgast hér. Þegar staðan liggur fyrir er hægt að setja sér markmið og ákveða hvenær staða er tekin aftur með nýju fjárhagsyfirliti til að meta árangurinn. Gott getur verið að raða útgjaldaliðum eftir því hve auðvelt er að vera án þeirra eða lækka þá. Það getur t.d. verið erfitt að lækka liði eins og húsaleigu eða fasteignagjöld meðan auðveldara er að lækka orkureikninga eða áskriftarkostnað.

Með góðu fjárhagsyfirliti er einnig auðvelt að raða lánum upp eftir því hve mikla vexti þarf að greiða af þeim með það að markmiði að greiða inn á höfuðstól þeirra sem bera hæstu vextina. Sem dæmi má nefna að dráttarvextir vegna vanskila námu 12,75% í janúar 2017 og því er skynsamlegast að greiða niður vanskil fyrst. Vextir af rað- og fjölgreiðslum eru oft mjög háir og í sumum tilfellum geta þeir jafnvel verið hærri en vanskilavextir. Vextir af yfirdráttarlánum eru jafnaði  milli 11% - 13%. Þessi lán ættu því að fara efst á skuldalistann á undan öðrum lánum sem bera lægri vexti og vera þau fyrstu sem þú greiðir niður þegar þú átt afgang.

Semdu strax við kröfuhafa ef greiðslubyrði er of há miðað við tekjur

Þegar vanskil byrja að hlaðast upp er erfitt að snúa við. Útgjöld þurfa því að vera lægri en greiðslugetan þannig að hægt sé að standa í skilum. Mikilvægt er að semja um frestun greiðslna af lánum eða skilmálabreytingar sem fyrst því vanskil eru kostnaðarsöm. Hægt er að sækja um frestun á afborgunum vegna greiðsluerfiðleika, t.d. hjá LÍN og Íbúðalánasjóði. 

Þegar greiðsluvandi er viðvarandi er hægt að fá ráðgjöf hjá umboðsmanni skuldara og getur það leitt til tillagna að úrlausnum. Jafnframt má fá aðstoð við samninga við kröfuhafa, að undangengnu greiðsluerfiðleikamati.

Kynntu þér rétt þinn og skyldur

Ertu að fara á mis við eitthvað sem þú átt rétt á? Hægt er að nálgast allar upplýsingar og eyðublöð vegna umsókna um lækkanir og vaxta- og barnabætur inni á skattur.is. Margs ber að gæta að þegar talið er fram til skatts, t.d. ef skattframtali er ekki skilað á réttum tíma þá hefur skattstjóri heimild til að beita álagi á tekjur og ef gjöld eru ekki rétt ákvörðuð er hægt að kæra álagningu til skattstjóra. Eftirstöðvum álagðra gjalda er jafnað á sex gjalddaga, 1. júlí - 1. desember. Þó er útvarpsgjaldi jafnað á þrjá gjalddaga, 1. júlí, 1. ágúst og 1. september. Gjalddagaskipting miðast þó við að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en 5.000 kr. á hverjum gjalddaga. Þegar gjaldandi á inneign til útborgunar, eftir álagningu, stafar það oftast af ákvörðun vaxtabóta og barnabóta. Inneign getur einnig myndast vegna ofgreiddrar staðgreiðslu. Inneign er greidd út 1. júlí en barnabætur eru greiddar út 1. júlí og 30. september (heimild, www.rsk.is). Hægt er kynna sér reglur um fyrirframgreiddar barnabætur o.fl. á heimasíðu ríkisskattstjóra. Upplýsingar um húsnæðisbætur má finna á vefsíðunni, husbot.is en þar má jafnframt nálgast reiknivél húsnæðisbóta.