Innheimtuaðgerðir

Innheimtukostnaður

Innheimtukostnaður getur oft verið stór hluti af fjárhæð kröfu sé krafa gjaldfallin og komin í innheimtu. Um kostnað vegna innheimtu gilda lög nr. 95/2008

Í lögunum er kveðið á um að innheimtu skuli framkvæma í samræmi við góða viðskiptahætti. Í því tilliti er tekið fram að það teljist brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi, tjóni eða óþægindum. Þá er í lögunum jafnframt kveðið á um að ef krafa hefur ekki verið greidd á gjalddaga þá skuli senda skuldara eina skriflega viðvörun þar sem bent er á að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa ekki greidd innan tíu daga frá sendingu viðvörunar.

Innheimtulög gilda ekki um innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og löginnheimtu.

Með löginnheimtu er átt við innheimtumeðferð á grundvelli 24. gr. a laga um lögmenn, nr. 77/1998.

Í reglugerð nr. 37/2009 sem sett var á grundvelli laganna er kveðið á um þann hámarkskostnað sem heimilt er að leggja á kröfu vegna innheimtu. Reglugerðin tekur til fruminnheimtu og milliinnheimtu en ekki til löginnheimtu.

Til þess að koma í veg fyrir að innheimtukostnaður leggist á kröfu er mikilvægt að haft sé samband við kröfuhafa til að semja um greiðslu kröfunnar ef ekki er hægt að greiða hana að fullu á gjalddaga. 

Innheimtufyrirtæki

Þegar kröfur gjaldfalla geta kröfuhafar sent kröfur sínar til innheimtuaðila sem sjá um að innheimta kröfurnar fyrir þeirra hönd. Þegar kröfur eru komnar í innheimtu hjá innheimtufyrirtæki er mikilvægt að bregðast við strax og semja um greiðslu á kröfunni til þess að koma í veg fyrir innheimtukostnað og frekari innheimtuaðgerðir. Þá er einnig hægt að hafa samband við eiganda kröfunnar til þess að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að semja um greiðslu á kröfunni við hann.

Fjárnám

Þegar krafa er komin í vanskil geta kröfuhafar leitað ákveðinna lögbundinna leiða til þess að fá kröfu sína efnda. Ein þeirra leiða er að gera fjárnám í þeim eignum skuldara sem hafa fjárhagslegt gildi og tryggja með því rétt sinn til þess að ganga að eignum skuldara fyrir greiðslu kröfunnar. Veð myndast þannig í viðkomandi eign sem kröfuhafi getur nýtt til þess að krefjast nauðungarsölu á viðkomandi eign. Kröfuhafi getur gert fjárnám í eignum skuldara að þeim skilyrðum uppfylltum sem nefnd eru í 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Kröfuhafa ber að gæta þess að krafa hans sé í því formi að hún teljist aðfararheimild, þ.e. dómur eða úrskurðir íslenskra dómstóla, skuldabréf með beinni aðfararheimild, víxlar, kröfur vegna skatta og annarra ógreiddra gjaldfallinna gjalda ríkis og sveitarfélaga, dómssátt og úrskurðir yfirvalda.

Fjárnám er gert að tilstuðlan sýslumanns og fer það að jafnaði fram í því umdæmi sem viðkomandi býr. Fullnægi beiðni kröfuhafa um aðför skilyrðum laga þá boðar sýslumaður gerðarþola (skuldara) og gerðarbeiðanda (kröfuhafa) til fyrirtöku og er gerðarþoli að jafnaði boðaður með kvaðningu þar um sem birt er af stefnuvotti eða af starfsmanni póstsins.

Mæti gerðarþoli eða einhver fyrir hans hönd þá er farið yfir gögn málsins og er báðum aðilum gefinn kostur á að tjá sig um málið. Ef engar athugasemdir eru gerðar af hálfu gerðarþola skorar sýslumaður á hann að greiða kröfuna. Geti hann ekki greitt kröfuna er honum gefinn kostur á að benda á þær eignir sínar sem nægja til tryggingar á kröfunni. Séu eignir til staðar þá lýkur fyrirtökunni með fjárnámi í þeim eignum eða eign. Séu engar eignir til staðar eða eignir eru ekki nægjanlegar til að tryggja kröfuna þá lýkur fyrirtökunni með árangurslausu fjárnámi. Sé fyrirtöku lokið með þeim hætti hefur gerðarbeiðandi og aðrir kröfuhafar sem eiga gjaldfallnar kröfur á hendur skuldara heimild til að óska eftir gjaldþrotaskiptum hjá gerðarþola fyrir dómi. Sú heimild gildir í þrjá mánuði frá því bókun um árangurslaust fjárnám var gerð.

Mikilvægt er að gerðarþoli mæti við fyrirtöku á fjárnámsbeiðni ef hann hefur fengið boðun þar um þar sem hægt er að gera fjárnám í eignum hans að honum fjarstöddum. Þá er einnig mikilvægt að mæta við fyrirtöku þar sem hægt er að reyna að semja við gerðarbeiðanda um greiðslu á kröfu sem leiðir til þess að fjárnám verður ekki gert í eignum gerðarþola. 

Á vef sýslumanna er hægt að fá nánari upplýsingar um fjárnám, hvernig fjárnám fer fram og hvernig hægt er að fá fyrirtöku fjárnáms frestað. 

Nauðungarsala

Á vef sýslumanna er hægt að fá nánari upplýsingar um ferli nauðungarsölu. 

  • Gerðarþoli er sá sem á þá eign sem krafist er nauðungarsölu á.
  • Gerðarbeiðandi er sá sem fer fram á nauðungarsölu.
  • Aðrir aðilar eru t.d. þeir sem eiga þinglýst réttindi svo sem veðhafar.

Beiðni og framkvæmd nauðungarsölu

Nauðungarsala felur í sér að eign er seld á uppboði eða með sölu á almennum markaði. Um er að ræða sölu á eign til greiðslu á skuldum sem á henni hvíla í samræmi við ákvæði laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 (nsl.). Áður en nauðungarsölu verður krafist til fullnustu peningakröfu á grundvelli heimildar skv. 2.-6. tl. 1. mgr. 6. gr. nsl. (þ.e. á grundvelli samningsveðs, lögveðs eða handveðs), og eftir að krafan er komin í gjalddaga, skal gerðarbeiðandi beina greiðsluáskorun til gerðarþola með minnst fimmtán daga fyrirvara. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 6. gr. nsl., er jafnframt hægt að krefjast nauðungarsölu á grundvelli fjárnáms í eigninni.

Hvernig hefst nauðungarsala?

Beiðni um nauðungarsölu skal vera skrifleg. Með henni skulu fylgja gögn um heimild til að krefjast nauðungarsölu og að áskorun hafi verið beint til gerðarþola ef við á. Beiðni um nauðungarsölu skal beint til sýslumannsins í því umdæmi sem á við hverju sinni eftir reglum þar um. Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra fara með framkvæmd nauðungarsölu.

Hvernig fer nauðungarsala á lausafjármunum fram?

Þegar uppboð hefur verið ákveðið fær sýslumaður auglýsingu um það birta í dagblaði, á vef sýslumanna eða með öðrum samsvarandi hætti minnst einu sinni með viku fyrirvara.

Þegar krafist er nauðungarsölu á eign sem gerðarþoli hefur umráð yfir eða þriðji maður fyrir hans atbeina, má gerðarbeiðandi óska í beiðni um nauðungarsöluna eftir heimild sýslumanns til að taka vörslur eignarinnar í því skyni að fá henni ráðstafað. Telji sýslumaður að skilyrðum vörslusviptingar sé fullnægt ritar hann þá ákvörðun á beiðnina. Eiganda er skylt að afhenda gerðarbeiðanda eignina skv. 60. gr. sömu laga ef framvísað er heimild til vörslusviptingar skv. 2. mgr. 59. gr. laganna.

Almennir söluskilmálar fyrir uppboðssölu á lausafé eru settir af innanríkisráðuneytinu og eru að finna í auglýsingu nr. 42/1992 um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum o.fl. Uppboðskaupandi þarf yfirleitt að staðgreiða boð sitt í eignina, en andvirðinu er síðan ráðstafað til kröfuhafa eftir rétthæð krafna þeirra.

Hvernig fer nauðungarsala á fasteignum fram?

Ferill nauðungarsölu fasteigna er þessi:

  1. Fyrirtaka máls
  2. Byrjun uppboðs
  3. Framhald uppboðs (lokasala)

Fyrsta fyrirtaka nauðungarsölu fer fram hjá sýslumanni að undangenginni tilkynningu til eiganda og gerðarbeiðanda og auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu. Auglýsing um nauðungarsöluna skal birt í Lögbirtingablaði minnst fjórum vikum áður en beiðnin verður tekin fyrir. Við fyrstu fyrirtöku er ákveðið hvenær byrjun uppboðs á eign fari fram. Að jafnaði skulu mótmæli af hendi gerðarþola eða þriðja manns ekki stöðva nauðungarsölu nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaður telur þau annars valda því að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi rétt á að nauðungarsalan fari fram.

Byrjun uppboðs. Hafi uppboð verið ákveðið á eign, og ekki var mætt af hálfu gerðarþola þegar sú ákvörðun var tekin, tilkynnir sýslumaður honum svo fljótt sem verða má bréflega um það hvar og hvenær uppboðið byrji. Sýslumaður skal fá birta auglýsingu um byrjun uppboðs á eign með minnst þriggja daga fyrirvara í dagblaði, á vef sýslumanna eða á annan samsvarandi hátt. Sýslumaður byrjar uppboð á starfstofu sinni á þeim tíma sem auglýst var ef því hefur ekki áður verið frestað eða nauðungarsalan fallið niður. Leitað er eftir boðum í eignina og ákveðið hvenær framhaldssala á eigninni skuli fara fram, en hún skal fara fram innan fjögurra vikna frá byrjun uppboðs. Hafi uppboð ekki byrjað á eigninni innan árs frá fyrstu fyrirtöku, teljast framkomnar beiðnir um nauðungarsöluna sjálfkrafa fallnar niður, sbr. 27. gr. nsl.

Framhald uppboðs er haldið á eigninni sjálfri innan fjögurra vikna frá því að byrjun uppboðs fór fram. Framhaldi uppboðs verður ekki frestað nema óviðráðanleg atvik komi í veg fyrir framkvæmd þess. Þegar ákvörðun hefur verið tekin um framhald uppboðs skal sýslumaður svo fljótt sem verða má tilkynna öllum aðilum að nauðungarsölunni sem verður náð til um hana. Sýslumaður skal jafnframt fá birta auglýsingu um framhald uppboðs með minnst þriggja daga fyrirvara í dagblaði, á vef sýslumanna eða á annan samsvarandi hátt. Þegar uppboði er fram haldið á eigninni sjálfri eða við hana er umráðamanni hennar skylt að veita þeim sem eru við uppboðið aðgang að henni til skoðunar áður en leitað er boða í hana. Jafnan skal taka því boði sem kom hæst fram ef sýslumaður telur ekki sérstaka ástæðu til að draga í efa að það verði efnt.

Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi atriðum!

Með lögum nr. 60/2010 um breytingu á lögum um nauðungarsölu o.fl. er kveðið á um undantekningu frá reglum um tímamörk afhendingu sem fram kemur í 8. gr. auglýsingar um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á fasteignum o.fl., sbr. auglýsingu nr. 572/2010, dags. 6. júlí 2010.  

Í 6. tl. 1. mgr. 28. gr. nsl., er kveðið á um að við nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði, sem gerðarþoli hefur til eigin nota, skuli hann njóta réttar til að halda notum af því í tiltekinn tíma, allt að tólf mánuði frá samþykki boðs gegn greiðslu sem rennur til kaupanda og svarar að mati sýslumanns til hæfilegrar húsaleigu. Sýslumanni er heimilt að áskilja að gerðarþoli setji tryggingu fyrir spjöllum sem kunna að verða á íbúðarhúsnæði.

Þá segir í 57. gr. nsl. : ,,Nú hefur sá sem notið hefur réttinda yfir eigninni ekki fengið þeim fullnægt með öllu af söluverðinu og getur hann þá aðeins krafið gerðarþola eða annan um greiðslu þess sem eftir stendur af skuldbindingunni að því leyti sem hann sýnir fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfunnar".