Spurt og svarað

Fyrning krafna

Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár. Meginregla þessi gildir um kröfuréttindi nema annað komi sérstaklega fram í lögum og tekur hún til langflestra krafna. Vakin skal athygli á því að kröfur samkvæmt skuldabréfi eða kröfur sem byggjast á peningalánum fyrnast almennt á tíu árum. Sá fyrningarfrestur gildir þó ekki um vexti og verðbætur. Upphaf fyrningarfrests miðast almennt við þann dag þegar kröfuhafi átti fyrst rétt á því að skuldari efndi skuld sína en það er yfirleitt á gjalddaga.

Slit fyrningar

Kröfuhafi getur rofið fyrningarfrest með því að leggja inn fjárnáms- eða nauðungarsölubeiðni hjá sýslumanni, beiðni um gjaldþrotaskipti, kröfulýsingu í þrotabú eða með málsókn. Hefst þá nýr fyrningarfrestur. Þá getur skuldari rofið fyrningu kröfu með viðurkenningu á henni en það getur gerst með greiðslu inn á kröfuna eða með gerð samkomulags um greiðslur af kröfunni. Greiðslur með skuldajöfnuði og launaafdrætti rjúfa hins vegar ekki fyrningu kröfu. (Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Tollstjóra: http://www.tollur.is/) Fyrning verður heldur ekki rofin með því einu að senda skuldara greiðsluáskorun eða með innheimtutilkynningu frá innheimtufyrirtækjum. 

Fyrning eftir gjaldþrot

Kröfur sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast á tveimur árum frá lokum skiptanna. Þá gildir sú sérregla í tengslum við gjaldþrotaskipti að kröfuhafi getur aðeins slitið fyrningunni með viðurkenningardómi. Til að fá slíkan dóm þarf kröfuhafi að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu og að líklegt megi telja að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Ef skuldari eignast eitthvað á þessu tveggja ára tímabili getur kröfuhafi gert fjárnám í viðkomandi eign á tveggja ára tímabilinu og fyrnist þá skuldin ekki að því leyti sem eignin dugar fyrir greiðslu hennar. ATH. Skuldari getur hins vegar slitið sjálfur fyrningu krafna eftir gjaldþrot samkvæmt almennum reglum, sjá nánar í umfjöllun um stöðu skuldara eftir gjaldþrot .

Hver er munurinn á jafngreiðsluláni (annuitet) og láni með jöfnum afborgunum?

Greiðslubyrði jafngreiðsluláns er jöfn allan lánstímann, þ.e. vaxtahlutfall er hærra til að byrja með og hlutfall afborgunar er lægra. Þetta snýst síðan við þegar líða tekur á lánstímann. Þetta lán er því hagstæðara í byrjun fyrir þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Lán með jöfnum afborgunum er með jafn háar afborganir allan tímann og vextir reiknast af eftirstöðvum hverju sinni. Þar sem afborgun er hærri í byrjun heldur en á jafngreiðsluláni lækkar höfuðstóllinn hraðar þannig að vaxtagreiðslur lækka eftir því sem líður á lánstímann. Athugið að verðbólgan hækkar þessar greiðslur ef um verðtryggt lán er að ræða.

Hvað er sjálfskuldarábyrgð?

Sjálfskuldarábyrgð er ábyrgð sem gerir ábyrgðarmanni skylt að greiða skuld sem ábyrgð er fyrir strax og í ljós kemur að aðalskuldari hefur ekki staðið við skyldu sína. Ekki er nauðsynlegt að gera sérstakar tilraunir til að fá skuldina greidda hjá aðalskuldara eftir að greiðslufall verður. Í raun ábyrgist ábyrgðarmaður greiðslu skuldar sem hún væri hans eigin. Ef ábyrgðarmenn eru fleiri en einn ábyrgist hver um sig fulla greiðslu. Þetta samband ábyrgðarmanna er kallað óskipt ábyrgð (in solidum).

Er hægt að fá kröfur í vanskilum lækkaðar?

Þegar þú sérð fram á að þú getir ekki staðið í skilum með fjárhagslegar skuldbindingar þínar og vanskil hlaðast upp er skynsamlegast fyrir þig að hafa strax samband við kröfuhafa þína. Hægt er að kanna möguleika á lækkun kröfunnar þannig að þú getir samið um lægri greiðslur og komist hjá vanskilakostnaði.

Á ég að breyta yfirdráttarskuldinni í skuldabréf?

Þegar þú tekur skuldabréfalán þá getur bæst við lántökukostnaður, stimpilgjald, þinglýsingargjald og gjald vegna skjalagerðar. Einnig þarft þú að borga innheimtukostnað (seðilgjald) við hverja greiðslu. Gott er að fá upplýsingar hjá fjármálastofnunum um hvað lánið muni kosta og hvað heimildin muni kosta ef þú greiðir hana niður með reglulegum greiðslum. Hægt er að meta út frá því hvort það borgi sig að breyta yfirdráttarskuldinni í skuldabréf.

Hvernig er háttað ábyrgð hjóna á skattskuldum hvors annars?

Í lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 er kveðið á um ábyrgð á skattgreiðslum. Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laganna bera hjón, sbr. 62. og 80. gr., óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að því hjóna, er skattgreiðslur annast, sé rétt að krefjast endurgreiðslu af hinu hjóna á þeim hluta skatts er það hefur greitt umfram það sem að réttum hlutföllum kemur í þess hlut miðað við tekjur og eign hvors hjóna. Sömu reglur um ábyrgð hjóna gilda um samskattað sambúðarfólk. Hjón bera ekki sameiginlega ábyrgð á skilum á vörsluskatti.

Hvað getur launagreiðandi haldið miklum hluta launa minna eftir vegna skuldar opinberra gjalda?

Launagreiðandi getur aldrei haldið hærri fjárhæð eftir en sem nemur 75% af heildarlaunagreiðslum hverju sinni að viðbættum lögbundnum iðgjöldum og meðlögum. Lífeyrissjóðsiðgjöld umfram 4% af iðgjaldsstofni falla ekki undir þessa reglu. Afdráttur af launum vegna staðgreiðslu skal ávallt ganga fyrir afdrætti vegna annarra eldri skattskulda. Innheimtumanni ríkissjóðs er heimilt að semja um lækkun launaafdráttar vegna skattskulda. Undir þessa reglu falla skuldir t.d. vegna útsvars, tekjuskatts og eignarskatts en ekki skuldir vegna virðisaukaskatts og tryggingagjalds.

Heimilt er að semja um lækkun launaafdráttar, skv. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 124/2001 um launaafdrátt ef sýnt þykir að tekjur launþega muni ekki duga fyrir lágmarksframfærslu hans, maka og barna sem hann hefur á framfæri sínu. Ef samþykkt er að lækka launaafdrátt skal launþegi undirrita samkomulag þar sem hann viðurkennir kröfuna og nýjan upphafstíma fyrningarfrests.

Dæmi: 250.000 kr. heildarmánaðarlaun einstaklings. Þegar greidd hefur verið staðgreiðsla, lífeyrissjóðsiðgjald (4%) og félagsgjald (0,7%) eru útborguð laun 197.167 krónur á mánuði. Heimilt er að halda eftir 75% af heildarlaunum eða 187.500 krónum vegna eldri skattskulda. 

Dæmi: 500.000 kr. heildarmánaðarlaun einstaklings. Þegar greidd hefur verið staðgreiðsla, lífeyrissjóðsiðgjald (4%) og félagsgjald (0,7%) eru útborguð laun 338.932 krónur á mánuði. Heimilt er að halda eftir 75% af heildarlaunum eða 375.000 krónum til greiðslu eldri skattskulda. Þessi upphæð er hærri upphæð en útborguð laun.

Er hægt að ráðstafa barna- og vaxtabótum mínum upp í önnur gjöld?

Barnabótum verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

Vaxtabótum má hins vegar skuldajafna.

Hvenær falla mæðra- og feðralaun niður?

  • Þegar sambúð með öðrum aðila en foreldri barns hefur varað í eitt ár.
  • Ef tekin er upp sambúð með foreldri barnanna eða fyrrverandi sambýlisaðila.
  • Ef sambúðarfólk eignast barn saman þó að sambúðin hafi ekki varað eitt ár.
  • Ef viðtakandi greiðslnanna gengur í hjúskap.
  • Ef viðtakandi greiðslnanna flytur úr landi.

Get ég samið um meðlagsskuld eða lækkun á mánaðarlegum meðlagsgreiðslum?

Já, hægt er að sækja um ívilnun við innheimtu meðlagsskuldar, skv. ákvæðum reglugerðar nr. 491/1996, sbr. lög nr. 54/1971, til stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Umsóknina er hægt að nálgast hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga í Lágmúla 9 í Reykjavík (http://www.medlag.is/).

Ég er ábyrgðarmaður á skuld sem komin er í vanskil.  Hvað er best fyrir mig að gera?

Ef skuld sem þú ert í ábyrgð fyrir er komin í vanskil er best fyrir þig að hafa strax samband við greiðanda og kröfuhafa til þess að semja um skuldina, ef um gilda ábyrgð er að ræða. Sjá nánar umfjöllun um ábyrgðarskuldbindingar . Ef þú greiðir skuldina og getur sýnt fram á að greiðandinn geti ekki endurgreitt þér hana þá getur þú sótt um lækkun á tekjuskattsstofni vegna greiddra ábyrgðarskuldbindinga, skv. 65. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996. Einnig má sækja um lækkun eða niðurfellingu álagðs útsvars, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

Hvað er vanskilaskrá?

Fyrirtækið Creditinfo hefur starfsleyfi frá Persónuvernd, til að safna og skrá upplýsingar er varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra. Creditinfo heldur utan um svokallaða vanskilaskrá, sem er með upplýsingar um vanskil einstaklinga, ásamt upplýsingum um innheimtuaðgerðir. Þeir aðilar sem eru með áskriftarsamning við Creditinfo, geta óskað eftir skráningu á vanskilaskrá en þá þurfa vanskil að hafa staðið yfir í a.m.k. 40 daga og fjárhæðin að nema 50.000 kr. að lágmarki hjá einstaklingum. Hægt er þó að skrá árangurslaus fjárnám og gjaldþrotaúrskurði án tillits til fjárhæða. Tilgangur vanskilaskrár er m.a. að veita lánveitendum færi á að kanna stöðu einstaklinga áður en lánaumsókn eða reikningsviðskipti eru samþykkt. Hægt er að fá nánari upplýsingar á heimasíðu Creditinfo.

Hvenær eru mál afskráð af vanskilaskrá?

Færsla er afskráð þegar staðfesting um uppgjör kröfunnar berst Creditinfo. Þá afskrást færslur eftir fjögur ár frá heimildardagsetningu en það er sú dagsetning sem stefna er árituð eða árangurslaust fjárnám er framkvæmt. Þegar bú einstaklings hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, þá er færsla um gjaldþrotið afskráð eftir tvö ár frá dagsetningu skiptaloka ( skv. heimasíðu Creditinfo ).

Hvað er lánshæfismat?

Í lögum um neytendalán nr. 33/2013 er lánshæfismat skilgreint sem mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki get efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Lánshæfismat felur ekki í sér greiðslumat nema slíkt sé áskilið sérstaklega.

Hvað er greiðslumat?

Í lögum um neytendalán nr. 33/2013 er greiðslumat skilgreint sem útreikningur á greiðslugetu lántaka miðað við eignir, skuldir, gjöld og tekjur, sem m.a. byggjast á opinberum neysluviðmiðum.

Get ég sótt um undanþágu frá greiðslu afborgunar hjá LÍN?

Já, undanþága frá afborgun kemur til álita þegar lánshæft nám, atvinnuleysi, örorka, veikindi, þungun, ummönnun barna (fæðingarorlof), umönnun maka (umönnunarbætur) eða aðrar sambærilegar aðstæður valda verulegum fjárhagserfiðleikum. Almennt er miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega árið 2016 eru yfir 3.790.000 kr. og árstekjur hjóna/sambúðarfólks árið 2016 eru yfir 7.580.000 kr. (sjá nánar á heimsíðu LÍN )