Fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar

Til að umsókn teljist gild og sé tekin til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara þarf að samþykkja rafrænt gagnaöflun umboðsmanns skuldara. Þá þarf umsækjandi að hafa skilað skattframtölum síðastliðinna fjögurra ára til skattstjóra.

Þeir sem hafa hug á að sækja um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta eru hvattir til að kynna sér hvað felst í því að lýsa sig gjaldþrota. Athugið að umsækjandi þarf að greiða viðkomandi héraðsdómsstól 15.000 kr. þingfestingagjald þegar krafist er gjaldþrotaskipta og er sá kostnaður ekki innifalinn í fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar. 

Ef umsækjandi uppfyllir skilyrði laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, fær umsækjandi skriflega yfirlýsingu um veitingu fjárhagsaðstoðar sem skal fylgja kröfu viðkomandi um gjaldþrotaskipti til héraðsdóms. 

Umsókn um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar jafngildir ekki kröfu um að bú umsækjanda sé tekið til gjaldþrotaskipta og ber umsækjandi ábyrgð á að leggja fram slíka kröfu til þess héraðsdómsstóls þar sem skuldari hefur lögheimili eða dvalarstað. Ef það eru eignir í búi skuldara munu þær ganga upp í skiptakostnað eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti og þá til frádráttar fjárhæð fjárhagsaðstoðarinnar. Fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar fer þannig fram að umboðsmaður skuldara greiði skiptastjóra, en umsækjandi mun ekki fá fjárhæðina í hendur. 

Synji umboðsmaður skuldara umsókn um fjárhagsaðstoð má kæra þá ákvörðun til félags- og jafnréttismálaráðherra. Kæran er rafræn og er kærublaðið sótt á eyðublaðavef Stjórnarráðs Íslands. Sjá nánari upplýsingar hér.

Fjárhagsaðstoðin er fjármögnuð með gjaldi samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

Umboðsmaður skuldara hefur látið útbúa bækling um gjaldþrotaskipti og fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar

Skilyrði fjárhagsaðstoðar

Skilyrði þess að fá fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar eru að umsækjandi:

 • Eigi í verulegum greiðsluörðugleikum og ekki verði talið sennilegt að þeir muni líða hjá innan skamms tíma.
 • Geti ekki staðið skil á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta að teknu tilliti til eigna- og skuldastöðu, sem og ráðstöfunartekna hans og framfærslubyrði.
 • Hafi reynt önnur greiðsluvandaúrræði eða umboðsmaður skuldara hafi metið það svo að önnur greiðsluvandaúrræði séu ekki til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda

Fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar er ekki veitt ef:

 • Aðstæður við stofnun skulda, eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að umsækjandi hafi hegðað sér óheiðarlega til þess að geta leitað sér fjárhagsaðstoðar
 • Umsækjandi hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar sem skipta máli
 • Umsækjandi hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótarskyldu, svo sem látið hjá líða að standa skil á greiðslu virðisaukaskatts til ríkissjóðs
 • Umsækjandi hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem eru riftanlegar
 • Umsækjandi hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar eftir því sem honum var framast unnt
 • Greiðsluaðlögunarumleitanir umsækjanda hafa verið felldar niður skv. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, þar sem umsækjandi:
  • hafi hegðað sér óheiðarlega til að geta leiðað sér fjárhagsaðstoðar
  • veitti rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu,
  • hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu
  • efndi til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar
  • hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt
  • stofnaði til óhóflegra skuldbindinga
  • stóð ekki við skyldur sínar í greiðsluaðlögunarumleitunum með því að leggja ekki til hliðar af launum og öðrum tekjum, segja ekki upp samningum um útgjöld sem ekki eru nauðsynleg umsækjanda og heimili hans, láta af hendi eða veðsetja eignir sem gætu gagnast lánardrottnum sem greiðsla eða með því að stofna til nýrra skulda á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.