Gjaldþrotaskipti

Gjaldþrot er yfirleitt skilgreint sem sameiginleg fullnustugerð allra kröfuhafa. Í grundvallaratriðum felur gjaldþrot í sér að andvirði eigna skuldara er ráðstafað til greiðslu skulda.

Beiðni um gjaldþrotaskipti

Skilyrði gjaldþrotaskipta er að skuldari geti ekki staðið í fullum skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og að ekki verði talið sennilegt að greiðsluerfiðleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.

Skuldari getur sjálfur krafist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta en hann þarf þá í beiðni sinni að sýna fram á ógreiðslufærni. Krafa um gjaldþrotaskipti skal vera skrifleg og henni skal beint til þess héraðsdómstóls þar sem skuldari hefur lögheimili sitt eða dvalarstað. Í kröfugerðinni skal m.a. koma fram krafa um gjaldþrotaskipti á búi skuldara; fullt nafn, kennitala og lögheimili skuldara; sundurliðaðar upplýsingar um eignir og skuldir og gögn skulu fylgja sem sýna að skuldari geti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína.

Kostnaður við gjaldþrotaskipti

Héraðsdómari getur krafið þann sem krefst gjaldþrotaskipta um 250.000 kr. í tryggingu fyrir skiptakostnaði, ef ekki er ljóst að eignir skuldarans muni nægja fyrir greiðslu skiptakostnaðar. Krefjist skuldari sjálfur gjaldþrotaskipta getur hann sótt um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar hjá umboðsmanni skuldara, sjá hér.

Gjaldþrotaskipti fara oftast fram að beiðni kröfuhafa. Algengast er að kröfuhafi  krefjist gjaldþrotaskipta eftir að árangurslaust fjárnám hefur farið fram hjá skuldara. Árangurslaust fjárnám felur þá í sér sönnun um ógreiðslufærni skuldara. Þegar kröfuhafi óskar gjaldþrotaskipta á búi skuldara þarf hann sjálfur að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði ef þess er krafist.

Héraðsdómari boðar til þinghalds um kröfuna með hæfilegum fyrirvara. Ef krafa um gjaldþrot er komin frá skuldara verður hann að mæta í þinghaldið en annars telst krafan um gjaldþrotaskipti afturkölluð.  Héraðsdómari kveður í framhaldinu upp úrskurð um gjaldþrotaskipti.

Framkvæmd gjaldþrotaskipta

Þegar skuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota verður til sérstakur lögaðili, þ.e. þrotabú, sem tekur við fjárhagslegum réttindum og skyldum skuldara. Allar eignir og skuldir umsækjanda tilheyra þannig þrotabúinu á meðan gjaldþrotaskiptum stendur.

Í kjölfar gjaldþrotaúrskurðar skipar héraðsdómari skiptastjóra en hann fer með forræði þrotabúsins. Skiptastjóri gerir svokallaða innköllun þar sem hann skorar á kröfuhafa skuldara að lýsa kröfum í þrotabúið. Skiptastjóri kannar einnig hvort eignum hafi verið komið undan í aðdraganda gjaldþrots og gerir ráðstafanir til endurheimtu verðmæta ef svo er. Þá tekur skiptastjóri ákvarðanir um hvernig eignum og réttindum þess verði ráðstafað, þ. á m. hvernig og hverjum þær verði seldar og gegn hverju verði. Í lokin er andvirði eignanna, ef einhverjar voru, varið til greiðslu á skuldum búsins. Skiptastjóri starfar í raun í umboði kröfuhafa og honum ber að gæta hagsmuna þeirra í störfum sínum við uppgjör þrotabúsins.

Vinnulaun sem skuldari vinnur sér inn meðan á gjaldþrotaskiptum stendur renna til hans sjálfs en ekki þrotabúsins. Sama gildir um arfgreiðslur, dánargjafir, dánarbeðsgjafir og lífsgjafir ef arfleifandi hefur ákveðið þá undanþágu á lögmætan hátt. Það sem skuldari aflar sér með tilgreindum tekjum fellur einnig til skuldara. 

Önnur fjárhagsleg réttindi sem hefðu almennt fallið til skuldara falla til þrotabúsins á meðan skiptum stendur.

Eignir sem skuldari heldur eftir. Skuldari fær þrátt fyrir gjaldþrotaskiptin að halda eftir þeim eignum sem ekki verður gert fjárnám í. Meginreglan er sú að gera má fjárnám í öllum eignum sem hafa fjárhagslegt gildi. Eftirfarandi eignir eru þó undanþegar:

  1. Fyrirframgreiðsla framfærslueyris, ef féð er sérgreint í vörslum skuldara og sá tími er ókominn, sem greiðslan er fyrir. 
  2. Eingreiðsla bóta fyrir varanlega örorku eða fyrir missi hans á framfæranda, ef féð er sérgreint í vörslum hans og sá tími er ókominn, sem bótafénu er ætlað að bæta tjón hans fyrir. 
  3. Peningaeign sem er nauðsynleg til að standa straum af kostnaði um skamman tíma af framfærslu skuldara og þeirra, sem hann er framfærsluskyldur við. 
  4. Lausafjármunir sem eru nauðsynlegir skuldara til að halda látlaust heimili með þeim hætti sem almennt gerist.
  5. Munir með verulegt minjagildi nema undanþága sé talin ósanngjörn gagnvart gerðarbeiðanda. 
  6. Nauðsynlegir munir vegna örorku eða heilsubrests. 
  7. Námsgögn. 
  8. Muni sem notast til atvinnu. Verðmæti getur þó í mesta lagi verið 50.000 kr. að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.

Skiptastjóra er heimilt að leyfa skuldara að leigja fasteign af þrotabúinu í allt að tólf mánuði.

Skuldara ber undir skiptunum að mæta á fundi sem skiptastjóri boðar hann á og veita upplýsingar og gögn sem skiptastjóri krefst vegna skiptanna. Skuldara ber að afhenda skiptastjóra eignir sem tilheyra þrotabúinu og nauðsynleg gögn, t.d. bókhaldsgögn. Þá ber skuldara að vera tiltækur á meðan gjaldþrotaskiptum stendur ef nærvera hans er nauðsynleg vegna athugunar á fjárráðum þrotabúsins eða ráðstöfunum skuldara fyrir gjaldþrotaskiptin.

Skiptastjóri biður undir skiptunum um að öllum reikningum og kortum skuldara sé lokað. Skuldari getur síðan að öllu jöfnu stofnað að nýju innlánsreikninga án heimildar eða fengið fyrirframgreitt kreditkort, yfirleitt þó að fengnu samþykki skiptastjóra meðan bú hans er til skiptameðferðar.

Gjaldþrotaskiptum getur lokið með úthlutun fjármuna til kröfuhafa ef eignir eru í búinu. Þá getur gjaldþrotaskiptum lokið án úthlutunar ef engar eignir var að finna í þrotabúinu.  

Staða skuldara eftir gjaldþrot

Skuldari ber áfram ábyrgð á greiðslu þeirra skulda sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti.

Skuldirnar sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast á tveimur árum frá lokum skiptanna.  Fyrningunni verður aðeins slitið með viðurkenningardómi. Til að fá slíkan dóm þarf kröfuhafi að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu og að líklegt megi telja að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Ef fyrning er ekki rofin með dómi falla allar skuldir, sem ekki fengust greiddar við gjaldþrotaskiptin, niður að liðnum tveimur árum frá skiptalokum.

Kröfuhafar geta gert eignakannanir hjá skuldara í tvö ár eftir gjaldþrotaskiptin og ef skuldari eignast hluti eða réttindi sem hafa fjárhagslegt gildi geta þeir gert fjárnám í hlutunum. Ef skuldari eignast á þessu tveggja ára tímabili eign og lánardrottinn gerir fjárnám í henni þá fyrnist ekki sá hluti kröfu hans sem greiðist af andvirði þess sem fjárnám var gert í. Sá hluti kröfunnar sem greiðist ekki af andvirði eignarinnar myndi á hinn bóginn fyrnast við lok þessa tveggja ára tímabils. 

Innheimtumenn ríkissjóðs, þ.e. Tollstjóri og sýslumenn, hafa heimildir til launaafdráttar hjá vinnuveitanda allt að 75% ef um skuldir á þing- og sveitasjóðsgjöldum eru að ræða.

Þing- og sveitasjóðsgjöld eru m.a. tekjuskattur, útsvar, framkvæmdasjóður aldraðra, sérstakur tekjuskattur, fjármagnstekjuskattur, slysatrygging við heimilisstörf, barnabætur og vaxtabætur. Hjá einstaklingum í rekstri falla hér undir búnaðargjald og iðnaðarmálagjald. Innheimtumenn ríkissjóðs hafa einnig heimild til makainnheimtu en það er sérstök ábyrgðarregla sem gildir um greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda. Reglan felur í sér að hjón, einstaklingar í staðfestri samvist eða samskattað fólk í óvígðri sambúð bera sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þeirra þing- og sveitarsjóðsgjalda.

Innheimtustofnun sveitarfélaganna hafa heimildir til launaafdráttar hjá vinnuveitanda allt að 50% af launum ef um meðlagsskuldir er að ræða.

Ath. - Greiðslur með launaafdrætti rjúfa ekki fyrningu kröfu.

Skuldari má búast við því að vera skráður á vanskilaskrá hjá Creditinfo og að bankar merki viðkomandi á innri viðskiptavinalistum hjá sér. Lánshæfi skuldara minnkar því verulega sem og vilji annarra til að stofna til viðskiptasambands við hann. Kröfuhafar geta gert eignakannanir til að sjá hvort hægt sé að gera fjárnám í eigum til að láta ganga upp í skuldir. Það gera þeir hjá aðalskuldara og ábyrgðarmönnum.