Greiðsluaðlögun einstaklinga

Umsækjendur þurfa að fylla út umsókn um greiðsluaðlögun. Athugið að umsækjandi getur hvenær sem er afturkallað umsókn sína. Umsækjandi þarf að hafa skilað skattframtölum síðastliðinna fjögurra ára.

Þegar umsókn ásamt gögnum hefur borist rafrænt til umboðsmanns skuldara er hún yfirfarin af starfsmönnum embættisins. Ef í ljós kemur að gögn vantar er haft samband við umsækjanda og hann beðinn um að skila gögnum og/eða þeim upplýsingum sem vantar.

Á grundvelli samþykkis er umboðsmanni skuldara veitt heimild til að afla upplýsinga varðandi tekjur, gjöld, eignir og skuldir. Embættið kallar eftir upplýsingum með rafrænum hætti frá öllum þeim aðilum sem embættið hefur vefþjónustu við. Um er að ræða Tryggingastofnun, Ríkisskattstjóra, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankann og  Íbúðalánasjóð. Þá eru skrifleg erindi send til Tollstjóra sem og eftir atvikum til annarra aðila sem ráða má af umsókn og skattframtölum að geta veitt framangreindar upplýsingar. Í þessu felst m.a. að umboðsmaður skuldara getur kallað eftir upplýsingum um veltu á bankareikningum skuldara. Embættið aflar jafnframt upplýsinga frá Creditinfo.

Þegar umboðsmaður skuldara metur umsókn fullbúna ber honum að taka ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar eða hvort synja beri umsókninni. Umsókn telst vera fullbúin þegar öll gögn og upplýsingar liggja fyrir. Umboðsmaður skuldara hefur tvær vikur frá því að umsókn telst fullbúin til þess að taka ákvörðun um afgreiðslu umsóknar.

Hver getur sótt um?

 • Einstaklingur sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar getur leitað greiðsluaðlögunar. 
 • Hjón og fólk í sambúð er heimilt að sækja um greiðsluaðlögun í sameiningu.

Er nauðsynlegt að eiga lögheimili á Íslandi?

 • Til að hægt sé að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun er það skilyrði að umsækjandi eigi lögheimili og sé búsettur á Íslandi. 
 • Heimilt er veita undanþágu frá þessu skilyrði ef umsækjandi er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt.
 • Telji umsækjandi sig vera tímabundið búsettan erlendis þarf að framvísa gögnum sem sýna fram á að dvöl hans erlendis hafi fyrirfram verið markaður ákveðinn tími. Slík gögn geta t.d. verið staðfesting á skólavist og upplýsingar um námslok, ráðningarsamningur, húsaleigusamningur eða vottorð vegna læknismeðferðar. Þetta er þó ekki tæmandi listi af gögnum sem hægt er að leggja fram sem staðfestingu á tímabundinni búsetu erlendis. 

Nauðsynleg fylgigögn

Vinnsla við umsókn um greiðsluaðlögun hefst ekki fyrr en eftirtalin gögn hafa borist embættinu:

 • Sé umsækjandi sjálfstætt starfandi er nauðsynlegt að upplýsingar um tekjur séu að finna í staðgreiðsluskrá skattstjóra.
 • Upplýsingar um tekjur í formi námslána ef umsækjandi er í námi.
 • Ef einstaklingar á aldrinum 18-20 ára býr á heimili umsækjanda er nauðsynlegt að skila inn staðfestingu á skólavist ef viðkomandi er í námi og á framfæri umsækjanda.

Skuldir utan greiðsluaðlögunar

Greiðsluaðlögun einstaklinga tekur til allra krafna á hendur viðkomandi að undanskildum eftirtöldum kröfum:

 • Krafna sem orðið hafa til eftir að umsókn hefur verið samþykkt af hálfu embættisins og frestun greiðslna hefur tekið gildi.
 • Krafna sem greiðast með öðrum hætti en peningagreiðslu, s.s. vinnuframlagi.
 • Krafna sem njóta forgangs við gjaldþrotaskipti ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta þegar frestun greiðslna hófst. Hér getur t.d. verið um að ræða kröfur vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda.
 • Krafna sem yrði fullnægt með skuldajöfnuði ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta.
 • Krafna að óverulegri fjárhæð sem eru undanþegnar áhrifum greiðsluaðlögunar með því að þær greiðist að fullu.
 • Sektir, vangoldinn virðisaukaskattur, vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda og kröfur um skaðabætur vegna tjóns sem valdið hefur verið með refsiverðu athæfi.
 • Námslán frá Lánasjóði íslenskra námsanna.
 • Skuldir vegna meðlags.

Þar sem framangreindar kröfur falla utan greiðsluaðlögunar þá er ekki hægt að semja um þær í samningi um greiðsluaðlögun. Kröfurnar ber að greiða að fullu. Mikilvægt er því að samið sé um mánaðarlegar greiðslur af þessum kröfum við viðkomandi kröfuhafa og getur umsjónarmaður haft milligöngu um slíka samninga við kröfuhafa.

Í samningi um greiðsluaðlögun er hægt að fara fram á að afborganir og vextir af kröfum Lánasjóðs íslenskra námsmanna falli niður í tiltekinn tíma. 

Hvað gerist ef umsókn er samþykkt/synjað?