Samningur kominn á

Þegar undirritaður hefur verið samningur um greiðsluaðlögun fellur úr gildi svokallað greiðsluskjól. Kröfuhöfum er þá heimilt að innheimta kröfur sínar í samræmi við skilmála greiðsluaðlögunarsamningsins.

Í samningnum koma fram upplýsingar um  skuldara, tekjur þeirra, framfærslukostnað, greiðslugetu, eignir og skuldir. Lengd greiðsluaðlögunarsamningsins er tilgreind í fjölda mánaða. Ef selja þarf eignir, svo sem fasteign eða bifreið, er það tekið sérstaklega fram og hvernig söluverðmæti skuli ráðstafað. 

Ef samningur um greiðsluaðlögun gerir ráð fyrir greiðslum á því tímabili sem samningurinn nær til mun koma fram í samningnum hvaða banki mun miðla greiðslum. Það þýðir að skuldari greiðir mánaðarlega til greiðslumiðlunarbanka sem mun svo sjá til þess að miðla þeim greiðslum til kröfuhafa í samræmi við samninginn. Greiðslumiðlunarbanki mun einnig miðla þeim vaxtabótum sem skuldari fær á tímabili greiðsluaðlögunar. Með samningnum fylgir greiðsluáætlun sem sýnir upphæðir mánaðarlegra greiðslna. Í samningnum er tilgreint hvort afborgunarfjárhæðir eru bundnar launavísitölu, en þær geta þá hækkað í samræmi við hækkun vísitölunnar.

Í samningnum er tilgreint hvaða eftirgjöf kröfuhafar skulu veita og hvenær hún verður framkvæmd, hafi verið samið með þeim hætti.Ef skuldara verður kunnugt um skuld sem stofnaðist áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt, en samningurinn tekur ekki til, verður sú skuld felld undir samninginn. Hafa skal samband við embætti umboðsmanns skuldara vegna breytinga á samningnum. Ef ábyrgðarskuldbinding fyrir þriðja aðila verður virk á greiðsluaðlögunartímabilinu skal einnig hafa samband við embætti umboðsmanns skuldara vegna breytinga á samningnum.

Á greiðsluaðlögunartímabilinu getur ýmislegt komið upp sem breytir aðstæðum og leiðir til þess að endurskoða þarf forsendur greiðsluaðlögunar. Bæði getur skuldari óskað þess að gerðar verði breytingar sem og kröfuhafar. Upplýsingar um breytingar á samningi má finna hér.

Vanræki skuldari að efna skyldur sínar samkvæmt samningi, geta kröfuhafar gert kröfu um riftun eða ógildingu samnings fyrir dómi í einkamáli. Það er því mikilvægt að skuldari kanni rétt sinn til þess að óska eftir breytingu á samningi, reynist erfitt að standa í skilum með hann.

Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til að leita nauðasamnings, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann fellur frá og dánarbú hans er tekið til skipta án þess að erfingjar taki á sig ábyrgð á skuldbindingum hans.

Við lok samnings um greiðsluaðlögun þurfa þeir sem héldu fasteign að athuga hvort þeir eigi rétt á afmáningu fasteignaveðkrafna umfram markaðsvirði eigna.  Einnig geta skuldarar þurft að semja við kröfuhafa um þær skuldir sem ekki falla niður við lok greiðsluaðlögunarsamnings