Afmáning fasteignaveðkrafna

Það er hlutverk sýslumanna að afmá veðréttindi af fasteign við lok tímabils greiðsluaðlögunar. Skuldari þarf sjálfur að sækja um afmáningu á síðustu þremur mánuðum greiðsluaðlögunar og uppfylli hann skilyrði afmáningar eru veðréttindi færð niður að markaðsvirði eignar.

Hlutverk sýslumanna felst m.a. í því að kanna hvort skuldari fullnægi skilyrðum afmáningar, samkvæmt 12. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna nr. 50/2009, að halda veðhafafund, að afmá af fasteign veðréttindi umfram matsverð og gera yfirlýsingu um ráðstöfunina sem þinglýst er á eignina.

Sýslumenn sinna framangreindu hlutverki bæði gagnvart einstaklingum sem hafa farið í gegnum tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna skv. lögum nr. 50/2009 (hjá héraðsdómi) og gagnvart einstaklingum sem hafa farið í gegnum greiðsluaðlögun einstaklinga skv. lögum nr. 101/2010 (hjá umboðsmanni skuldara). 

Mat á greiðslugetu skuldara

Til þess að sýslumenn geti afgreitt beiðni um afmáningu þarf að liggja fyrir mat á greiðslugetu skuldara. Matið þarf að sýna fram á að:

 1. Skuldari verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum skilum með allar áhvílandi veðskuldir og önnur greiðsluerfiðleikaúrræði duga ekki til
 2. Skuldari geti staðið í fullum skilum með þær veðskuldir sem áfram hvíla á fasteigninni eftir afmáningu veðréttinda

 Vinnsla greiðslumats og fylgigögn

Skuldari getur óskað eftir því að embætti umboðsmanns skuldara geri greiðslumat sem lagt er til grundvallar vinnslu umsóknar um afmáningu veðréttinda hjá sýslumanni.

Skuldari þarf að fylla út tvær umsóknir:

Skuldarar geta annað hvort sótt um hjá viðkomandi sýslumannsembætti sem mun þá áframsenda samþykki og umboð vegna vinnslu greiðslumats til umboðsmanns skuldara eða sótt um hjá umboðsmanni skuldara sem mun senda eyðublað ásamt fylgigögnum til viðkomandi sýslumanns.

Skuldari þarf sjálfur að afla eftirfarandi gagna:

 • Verðmat tveggja löggiltra fasteignasala
 • Yfirlýsing um greiðsluaðlögun umsækjanda (á eingöngu við um þá sem fengu úrræði hjá héraðsdómi).

Umboðsmaður skuldara mun afla allra annarra nauðsynlegra gagna á grundvelli samþykkis og umboðs sem skuldari hefur ritað undir. Þegar vinnslu greiðslumats er lokið verður skuldara kynnt niðurstaða greiðslumatsins. Skuldari staðfestir greiðslumatið með undirritun sinni eftir að hafa verið gefinn kostur á að gera við það athugasemdir.

Umboðsmaður skuldara sendir eftirfarandi gögn til sýslumanns sem tekur málið til meðferðar.

 • Greiðsluaðlögunarsamning/yfirlýsingu um greiðsluaðlögun umsækjanda.
 • Verðmat tveggja löggiltra fasteignasala (umsækjandi aflar sjálfur verðmats).
 • Kvittanir fyrir greiðslum til veðhafa í samræmi við greiðsluaðlögun.
 • Greiðslumat
 • Uppreiknaða stöðu veðskulda, þ.m.t. lögveðsskulda og nákvæma tilgreiningu þeirra.
 • Eintak síðustu þriggja skattframtala umsækjanda.
 • Gögn sem sýna hverjar tekjur umsækjanda eru sbr. staðgreiðsluyfirlit/launaseðla.

Tímaskilyrði

Umsókn þarf að berast þegar minna en þrír mánuðir eru til loka tíma greiðsluaðlögunar en áður en sá tími er á enda. Berist umsókn ekki innan þessara tímamarka verður hún ekki tekin til greina.