Samningaviðræður við lok greiðsluaðlögunar

Kröfuhafar eru að jafnaði skuldbundnir, samkvæmt samningi, að gjaldfella ekki eftirstöðvar ef samkomulag næst um greiðslu þeirra áður en greiðsluaðlöguninni lýkur. Það er á ábyrgð skuldara að hafa samband við sína kröfuhafa og ná samkomulagi um raunhæfa greiðsluáætlun vegna allra eftirstöðva krafna.

Ef fjárhæð eftirstöðva er óveruleg kann að vera hægt að greiða hana upp í eingreiðslu. Í öðrum tilfellum þarf að semja um mánaðarlegar afborganir. Mikilvægt er að skuldari reyni að ná samkomulagi um að mánaðarlegar afborganir af eftirstöðvum séu í samræmi við greiðslugetu eftir að tekið hefur verið tillit til framfærslukostnaðar. 

Vakin er athygli á að afborganir námslána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna hefjast þegar tímabili greiðsluaðlögunar lýkur nema samið hafi verið um frystingu til lengri tíma, eigi sjóðurinn kröfu á hendur skuldara.

Ef upp koma vandkvæði í samningaviðræðum við kröfuhafa, er hægt að óska eftir aðstoð embættisins við milligöngu um endurskipulagningu eftirstöðva. Skuldari þarf þá að sækja um ráðgjöf á heimasíðu embættisins.


Ef samningur um greiðsluaðlögun er í vanskilum, er bent á möguleikann að óska eftir breytingu á samningi hjá embættinu. Skilyrði þess að samningi verði breytt er að á greiðsluaðlögunartímabilinu hafi komið upp ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veiktu getu til að standa við samninginn, t.d. veikindi, atvinnuleysi o.fl.