Umsókn samþykkt

Fyrsta verk umsjónarmanns er að auglýsa eftir kröfum á hendur viðkomandi skuldara í Lögbirtingablaði og er það ferli sem tekur fjórar vikur. Hlutverk umsjónarmanns að öðru leyti er að gera drög að samningi í samráði við viðkomandi skuldara og gera þannig tillögu að lausn á fjárhagsvanda þannig að jafnvægi komist á milli skulda og greiðslugetu. 

Samningur er því næst sendur til allra kröfuhafa í málinu og hafa þeir þrjár vikur til þess að láta uppi afstöðu sína til þeirrar tillögu sem sett er fram í samningnum. Samþykki þeir samninginn telst samningur kominn á og er hann þá tilbúinn til undirritunar af hálfu skuldara, umsjónarmanns og starfsmanna embættis umboðsmanns skuldara. 

Þegar samningur hefur tekið gildi fellur úr gildi svokallað greiðsluskjól. Kröfuhöfum er þá eingöngu heimilt að innheimta kröfur sínar í samræmi við skilmála greiðsluaðlögunarsamnings. Þær skyldur sem hvíldu á skuldara á meðan að frestun greiðslna varði falla einnig niður.

Hlutverk umsjónarmanna

Meginhlutverk umsjónarmanna er að aðstoða skuldara við að reyna að ná samningi um greiðsluaðlögun.

Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun skipar hann umsjónarmann með málinu. Umsjónarmaður getur verið lögfræðingur sem starfar hjá umboðsmanni eða lögmaður sem umboðsmaður ræður til verksins.

Umsjónarmaður birtir síðan svokallaða innköllun í Lögbirtingablaði þar sem skorað er á þá, sem telja sig eiga kröfur á hendur skuldaranum, að lýsa kröfum fyrir umsjónarmanni innan fjögurra vikna frá því að innköllunin birtist fyrra sinni.

Umsjónarmaður útbýr tilboð til kröfuhafa um samning til  greiðsluaðlögunar í samráði við skuldara. Umsjónarmaður leggur frumvarpið fyrir alla þekkta kröfuhafa og reynir að fá þá til að samþykkja það.

Ef ekki tekst að ná fram slíkum samningi getur skuldari óskað eftir því við umsjónarmann að hann fái að leita nauðasamnings og tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna ef hann á fasteign. Mæli umsjónarmaður með nauðasamningi og eftir atvikum tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, aðstoðar hann skuldara í framhaldinu við að ná fram slíkum samningum. 

Fasteignir/heimili

Til að skuldari geti haldið fasteign í greiðsluaðlögun þarf hann að geta greitt mánaðarlega af þeim veðskuldum sem rúmast innan matsverðs eignarinnar. Mánaðarlegar afborganir mega þó ekki nema lægri fjárhæð en sem nemur húsaleigu fyrir eignina á almennum markaði.

Frá þessari reglu verður ekki vikið nema við sérstakar tímabundnar aðstæður en þá geta greiðslur lægst orðið 60% af hæfilegri húsaleigu og þá einungis tímabundið.

Geti skuldari ekki greitt af fasteigninni, til framtíðar litið, er líklegt að umsjónarmaður ákveði að fasteignin skuli seld í greiðsluaðlögunarferlinu. Skuldari velur almennt þá fasteignasölu sem hann vill að annist söluna. Fasteignir skal selja með þeim hætti að sem hæst verð fáist fyrir þær.

Ef skuldari býr í leiguhúsnæði heldur hann almennt áfram að greiða húsaleigu í samræmi við gildandi húsaleigusamning sinn á meðan greiðsluaðlögun stendur. Í greiðsluaðlögunarsamningi er þá gert ráð fyrir húsaleigugreiðslum við mat á því hvað skuldari geti greitt af skuldum sínum.  

Aðrar eignir

Umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarmáli getur ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem hann telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Það ræðst þannig af mati á aðstæðum skuldara í hverju tilfelli fyrir sig hvort umsækjandi geti haldið eignum í greiðsluaðlögun.

Niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana

Ef umsjónarmaður telur skuldara ekki lengur uppfylla skilyrði laga um greiðsluaðlögun sendir hann tillögu til umboðsmanns skuldara um niðurfellingu heimildar skuldara til greiðsluaðlögunar. Slík tillaga getur t.d. komið fram vegna breyttra aðstæðna skuldara eða nýrra upplýsinga sem komið hafa fram. Einnig ef umsjónarmaður telur skuldara ekki hafa sinnt skyldum sínum eða ef umsækjandi hefur ekki skýrt fjárhag sinn á fullnægjandi hátt.

Umboðsmaður skuldara metur sjálfstætt tilkynningu umsjónarmanns um að fram hafi komið upplýsingar sem bendi til þess að skuldari uppfylli ekki lengur skilyrði laganna. Við meðferð málsins er skuldara sent bréf og veittur frestur til að koma andmælum, gögnum og/eða nýjum upplýsingum á framfæri til umboðsmanns skuldara. Að frestinum liðnum tekur embættið ákvörðun um það hvort heimila eigi áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir eða hvort heimild skuldara til greiðsluaðlögunar verði felld niður.

Flestar tillögur umsjónarmanna um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana byggja á;

  • að skuldari hafi ekki lagt nægilega mikið fé til hliðar á tímabili greiðslufrestunar
  • að skuldari samþykki ekki sölu fasteignar sinnar þrátt fyrir að hafa ekki nægilega greiðslugetu til að borga af áhvílandi veðkröfum
  • að skuldari hafi ekki sinnt tilskyldu samráði við umsjónarmann, t.d. ekki svarað fyrirspurnum umsjónarmanns eða ekki veitt afstöðu sína til frumvarps til greiðsluaðlögunarsamnings

Ákveði embættið að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar er sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála og er kærufrestur tvær vikur frá móttöku ákvörðunar.

Frestun greiðslna fellur niður að liðnum tveimur vikum frá afhendingu ákvörðunar. Ef skuldari ákveður að kæra ákvörðun embættisins og kæra berst til úrskurðarnefndar innan tveggja vikna framlengist frestun greiðslna þar til úrskurður liggur fyrir.  

Samningur

Samningur um greiðsluaðlögun telst kominn á þegar allir kröfuhafar hafa samþykkt skilmála hans. Í samningi er tilgreint hversu langt greiðsluaðlögunartímabil skuli vera, en það er að jafnaði eitt til þrjú ár. Ef samið er um eftirgjöf krafna, er hún að jafnaði framkvæmd að loknu greiðsluaðlögunartímabili.

Samningurinn getur falið í sér eftirfarandi:

  • algera eftirgjöf einstakra krafna
  • hlutfallslega lækkun einstakra krafna 
  • gjaldfrest á einstökum kröfum 
  • skilmálabreytingar
  • greiðslu einstakra krafna með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist með ákveðnu millibili á ákveðnu tímabili
  • breytt greiðsluform krafna
  • allt framangreint í senn

Þegar um mánaðarlegar greiðslur samkvæmt samningi er að ræða sér greiðslumiðlunarbanki um að útbúa greiðsluseðil (kröfu í heimabanka) sem skuldari sjálfur greiðir eða er skuldfærður af reikningi hjá viðkomandi. Greiðslumiðlunarbanki sér síðan um að miðla greiðslum til annarra kröfuhafa í samræmi við skilmála samningsins. Greiðslumiðlunarbanki er yfirleitt sá banki sem á flestar eða hæstar kröfur á hendur skuldara og tekur hann að sér að miðla greiðslum samkvæmt samningi til kröfuhafa.

Í greiðsluaðlögunarsamningi er eingöngu samið um þær skuldir sem stofnuðust áður en skuldari fékk samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun. Þær kröfur sem stofnast eftir það tímabil teljast utan greiðsluaðlögunar og ber skuldari ábyrgð á að þær séu greiddar. Ef skuldara hefur eftir að greiðsluaðlögunartímabil hófst verið gert kunnugt um skuld sem stofnaðist áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt verður skuldin felld undir greiðsluaðlögunina.

Þegar samningur um greiðsluaðlögun er kominn á fellur úr gildi svokallað greiðsluskjól. Kröfuhöfum er þá eingöngu heimilt að innheimta kröfur sínar í samræmi við skilmála greiðsluaðlögunarsamnings. Þær skyldur sem hvíldu á skuldara á meðan að frestun greiðslna varði falla einnig niður.

Ef upp koma ófyrirsjáanlegar aðstæður á tímabili greiðsluaðlögunar t.d. slys, viðvarandi atvinnuleysi o.s.frv., sem veikja getu skuldara til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningi getur skuldari reynt að ná fram breytingum á skilmálum samnings við kröfuhafa.

Lánardrottnar geta farið fram á að gerðar verði breytingar á greiðsluaðlögunarsamningi skuldara batni fjárhagsstaða hans umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu. Með orðinu umtalsvert er átt við að lánardrottnum er ekki heimilt að óska eftir breytingum ef fjárhagsstaða skuldara hefur batnað vegna eigin vinnu eða bættra launakjara hans, nema ef um verulega aukningu tekna sé að ræða. Ef skuldari fær hins vegar háa eingreiðslu á greiðsluaðlögunartímabilinu getur lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða að fullu milli lánardrottna án þess að samningnum um greiðsluaðlögun sé breytt að öðru leyti. Lánadrottnar geta farið fram á að samningi verði rift eða hann ógildur ef skuldari vanrækir skyldur sínar samkvæmt samningi.

Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til að leita nauðasamnings, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann fellur frá og dánarbú hans er tekið til skipta án þess að erfingjar taki á sig ábyrgð á skuldbindingum hans. 

Nauðasamningur/ tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna

Ef ekki hefur tekist að koma á samningi um greiðsluaðlögun getur skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og/eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði á grundvelli samnefndra laga nr. 50/2009. Umsjónarmaður skal þá innan tveggja vikna taka rökstudda afstöðu til þess hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á.

Þegar afráðið er að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar skal umsjónarmaður innan tveggja vikna gera frumvarp til samningsins sem er sent til allra þekktra kröfuhafa skuldarans ásamt greinargerð umsjónarmanns. Skuldari þarf svo að leggja fyrir héraðsdóm frumvarpið ásamt kröfu um staðfestingu þess, innan viku frá því að umsjónarmaður sendi kröfuhöfum frumvarpið. Héraðsdómari kveður upp úrskurð um hvort nauðasamningur skuli staðfestur.

Þegar afráðið er að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, hvort sem það er gert samhliða því að leita nauðasamnings eða án þess, skal umsjónarmaður gera frumvarp til slíkrar greiðsluaðlögunar og boða veðhafa til fundar í samræmi við lög nr. 50/2009. Um framhald máls fer eftir þeim lögum.

Mæli umsjónarmaður gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skal hann tilkynna skuldara það, sem getur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun var tekin. Staðfesti nefndin ákvörðun umsjónarmanns lýkur greiðsluaðlögunarumleitunum þá þegar. Hrindi úrskurðarnefndin ákvörðun umsjónarmanns, skal hann halda áfram með málið.