Ráðgjöf

Við vinnslu umsóknar er m.a. aflað upplýsinga frá kröfuhöfum um stöðu lána, vanskila og ábyrgðarskuldbindinga umsækjenda. Með rafrænni umsókn fylgir rafrænt samþykki fyrir gagnaöflun og hugsanlega milligöngu vegna ráðgjafar.   

Hver getur sótt um?

 Allir einstaklingar, sem telja sig eiga í skulda- eða greiðsluerfiðleikum geta sótt um ráðgjöf.

Hvað þarf að fylgja umsókn?

  • Upplýsingar um reiknað endurgjald ef umsækjandi er sjálfstætt starfandi

Á grundvelli rafræns samþykkis, er umboðsmanni skuldara veitt heimild til að afla upplýsinga varðandi tekjur, gjöld, eignir og skuldir.

Hvað er greiðsluerfiðleikamat?

Í greiðsluerfiðleikamatinu er miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Umsækjendur verða hins vegar sjálfir að fylla út í umsókn upplýsingar um sérstaka framfærsluliði,  t.d. vegna húsaleigu, hita, rafmagns, hússjóðs, fasteigna- og fráveitugjalda, tryggingaiðgjalda annarra en bifreiðatrygginga (sem eru innifaldar í samgöngukostnaði), dagvistar- og skólagjalda. Einnig þarf í umsókn að veita upplýsingar um aðrar tekjur en þær sem koma fram á staðgreiðsluskrá RSK, t.d. húsaleigutekjur eða verktakagreiðslur og annað sem máli skiptir til að fá sem besta mynd af núverandi fjárhagsstöðu. 

Þegar greiðslugeta liggur fyrir er leitað lausna til að aðlaga greiðslubyrði að greiðslugetu. Lausnirnar geta verið mismunandi og geta t.d. falist í tímabundinni lækkun framfærslukostnaðar, skuldbreytingu vanskila og endurskipulagningu lána hjá Íbúðalánasjóði og öðrum lánastofnunum. Lánastofnanir setja ýmis skilyrði fyrir frestun greiðslna, skuldbreytingu o.þ.h. og verður umsækjandi að uppfylla þau til að nýta þessi úrræði. Ráðgjafi hefur í ákveðnum tilfellum milligöngu um samninga við kröfuhafa.

Einnig er nýting skattkorta skoðuð og bent á að sækja um þau úrræði sem standa skattgreiðendum til boða. Ýmis úrræði hjá Tryggingastofnun ríkisins eru könnuð ásamt félagslegum úrræðum, t.d. húsnæðisbætur. Ef framangreind úrræði duga ekki er umsækjendum, eftir atvikum, bent á að kynna sér greiðsluaðlögun einstaklinga en þó með þeim fyrirvara að þeir falli undir skilyrði greiðsluaðlögunar. Þá getur jafnframt komið til skoðunar fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.