Fara í efni

Breyting á samningi

Ófyrirsjáanlegar aðstæður

Ef upp koma ófyrirsjáanlegar aðstæður á tímabili greiðsluaðlögunarsamnings sem veikja verulega getu skuldara til að uppfylla skyldur sínar skv. samningi t.d. slys, viðvarandi atvinnuleysi o.s.frv. getur hann óskað eftir breytingu á samningi. 

Hverju er hægt að breyta ?

 • Breytingar á samningi um greiðsluaðlögun geta t.d. falist í greiðslufresti afborgana, lækkun afborgana eða sölu eigna.Verði skuldari fyrir ófyrirséðum útlögðum kostnaði á greiðsluaðlögunartímabili gæti breyting á samningi falist í greiðslufresti.
 • Lengd greiðslufrests er miðuð við fjárhæð óvæntra útgjalda og mánaðarlegra afborgana. Nemi óvænt útgjöld t.d. 300.000 kr. og mánaðarlegar afborganir samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi eru 100.000 kr. gæti skuldari lagt til að kröfuhafar veiti greiðslufrest í þrjá mánuði. Ef skuldari lendir í greiðsluerfiðleikum vegna tekjulækkunar eða hækkunar á framfærslukostnaði gæti hann lagt til að mánaðarlegar greiðslur lækki sem nemur breyttri greiðslugetu.
 • Eigi skuldari fasteign getur niðurstaðan orðið sú að nauðsynlegt sé að kveða á um sölu eignarinnar í breyttum samningi. Þetta getur t.d. átt við ef í ljós kemur að greiðslugeta skuldara dugir ekki lengur fyrir raunafborgunum af veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar

Hvernig er óskað eftir breytingu ?

 • Áður en skuldari krefst breytinga á samningi um greiðsluaðlögun skal hann hafa leitað eftir samkomulagi þar um við alla kröfuhafa. Náist slíkt samkomulag skal það lagt fyrir umboðsmann skuldara og taka breytingarnar ekki gildi fyrr en umboðsmaður skuldara hefur samþykkt þær.
 • Telji umboðsmaður breytingarnar ósanngjarnar eða óhæfilegar skal hann hafna þeim en slíkt væri eingöngu gert í undantekningartilvikum.
 • Umboðsmaður skuldara getur aðstoðað skuldara við að ná fram samkomulagi við kröfuhafa um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi sé þess óskað. Sú aðstoð getur m.a. falist í leiðbeiningum um í hverju breytingar geti falist og milligöngu um samskipti við kröfuhafa.
 • Óski skuldari eftir því að embættið annist milligöngu um samskipti við kröfuhafa skal hann fylla út og koma til umboðsmanns skuldara þar til gert eyðublað.
 • Náist samkomulag þarf skuldari að krefjast þess með skriflegu erindi að embættið staðfesti breytingarnar. Samkomulag um breytingar á greiðsluaðlögunarsamningi tekur gildi við staðfestingu umboðsmanns skuldara. 
 • Ef ekki næst samkomulag við kröfuhafa getur skuldari þó lagt til við umboðsmann skuldara að skilmálum samnings um greiðsluaðlögun verði breytt samkvæmt kröfu skuldara. Skuldari verður að hafa fullreynt að ná fram samkomulagi við kröfuhafa sína um breytingu á samningi áður en slík krafa er lögð fram.
 • Skilyrði þess að umboðsmaður skuldara geti staðfest tillögur skuldara að breytingu á samningi er að ófyrirsjáanlegar aðstæður á greiðsluaðlögunartímabili hafi veikt getu skuldara til að standa við samninginn. Kröfu skuldara skal ekki taka til greina ef tilefni breyttra forsendna verður rakið til óábyrgrar hegðunar hans. 
 • Kröfu um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun skal skuldari beina til umboðsmanns skuldara. Eyðublað vegna slíkrar kröfu er að finna hér

Hvenær geta kröfuhafar farið fram á breytingu á samningi ? 

 • Kröfuhafar geta krafist breytinga á greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu. Samningum verður ekki breytt vegna tekjuhækkunar skuldara nema hækkunin sé umtalsverð. Þá er þess að geta að þegar skuldari fær háa eingreiðslu á greiðsluaðlögunartímabilinu, t.d. arf eða annað þess háttar, getur lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða að fullu milli kröfuhafa.
 • Komi upp aðstæður sem veita kröfuhöfum rétt til að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun, ógildingu hans eða riftun skal skuldari upplýsa kröfuhafa á tryggan hátt og innan eins mánaðar um þær aðstæður.