Fara í efni

Dráttarvextir í greiðsluskjóli

Meðferð dráttarvaxta á meðan á greiðsluskjóli stendur 

Þann 8. mars 2018 staðfesti Hæstiréttur þá túlkun umboðsmanns skuldara að kröfuhafa sé óheimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfum á því tímabili sem einstaklingur hafði notið tímabundinnar frestunar greiðslna (svokallaðs greiðsluskjóls) í úrræði greiðsluaðlögunar. 

Samantekt Hæstaréttar á máli nr. 159/2017:

K krafðist þess að viðurkennt yrði að A hf. hafi verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta á tvö fasteignaveðslán vegna vanskila á því tímabili sem K hafði notið frestunar greiðslna samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt a. lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 væri lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum meðan á frestun greiðslna stæði. Þá skyldi samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki reikna dráttarvexti á kröfur þann tíma sem greiðsludráttur væri ef skuldari héldi af lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar og talið að svo hafi háttað til um hagi K það tímabil sem um ræddi. Þá kom fram að þar sem krafa um dráttarvexti yrði aðeins höfð uppi á grundvelli lögbundinni heimilda væri löggjafanum að sama skapi fært að setja slíkum heimildum þær skorður sem kæmi fram í fyrrnefndri 7. gr. og að sú tilhögun færi ekki í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Var krafa K því tekin til greina.

Hvað má leiða af niðurstöðu dómsins?  

Af niðurstöðu dómsins og ákvæði 11. gr. lge. leiðir að eingöngu er heimilt að leggja almenna vexti á kröfur á tímabili greiðsluskjóls.

Margir kröfuhafar og innheimtuaðilar fyrir þeirra hönd lögðu dráttarvexti á kröfur vegna þess tímabils sem greiðsluskjól stóð yfir þegar innheimta hófst í kjölfar þess að greiðsluskjóli lauk án samnings um greiðsluaðlögun (t.d. í kjölfar afturköllunar á umsókn, synjun umsóknar eða niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana). Vakin skal athygli á því að samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka og Borgun, þá voru almennt ekki innheimtir dráttarvextir vegna tímabilsins hjá þessum fyrirtækjum. Ekki er hægt að útiloka það þó með allri vissu og því ber að leita til hlutaðeigandi fyrirtækis sé grunur um að dráttarvextir hafi verið innheimtir.

Embættið hvetur einstaklinga til að kanna hvort þeir hafi mögulega greitt dráttarvexti vegna þessa tímabils og hvort endurkröfuréttur sé til staðar. Þá þarf jafnframt að skoða hvort leiðréttingar sé þörf á fjárhæð krafna eins og þær standa í dag.

Hvert skal beina fyrirspurnum og erindum um uppgjör? 

Fyrirspurnum og erindum um uppgjör og stöðu krafna skal beint til hlutaðeigandi kröfuhafa og mun embættið ekki hafa milligöngu vegna þess.

Arion banki og Landsbankinn hafa gefið upp sérstök netföng vegna slíkra erinda en þau eru:

greiðsluskjol@arionbanki.is

grsk@landsbankinn.is

Almennt kröfðust kröfuhafar ekki dráttarvaxta vegna tímabils greiðsluskjóls, ef mál endaði með samningi um greiðsluaðlögun. Vakin skal þó athygli á því að dráttarvextir voru almennt lagðir á kröfur vegna fasteignagjalda, húsfélagssgjalda og brunatrygginga (svokallaðar lögveðskröfur) í greiðsluskjóli, hvort sem mál skuldara endaði með samningi um greiðsluaðlögun eða lauk án slíks samnings. (Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ, voru þó almennt ekki lagðir dráttarvextir á fasteignagjöld í greiðsluskjóli).

Einstaklingar eru hvattir til að fá nánari upplýsingar hjá Reykjavíkurborg eða öðrum sveitarfélögum vegna þessa, sem og hjá öðrum lögveðskröfuhöfum. Hafi aðrir kröfuhafar en framangreindir krafist dráttarvaxta af kröfum í greiðsluskjóli, þrátt fyrir samning um greiðsluaðlögun, skal beint erindi til hlutaðeigandi kröfuhafa. 

Sjá  frétt frá Reykjavíkurborg varðandi endurgreiðslu á ofteknum dráttarvöxtum. 

Leita má frekari upplýsinga með tölvupósti á netfangið: endurgreidsla@reykjavik.is