Fara í efni

Greiðsluaðlögun

Markmið 

Að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að umsækjandi geti staðið í skilum með skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Greiðsluaðlögun er ókeypis úrræði. 

 

Hvað er greiðsluaðlögun ?

 • Úrræði fyrir einstaklinga í verulegum greiðslu- og skuldavanda.
 • Úrræðið felur í sér frjálsa samninga milli einstaklinga og kröfuhafa með milligöngu umboðsmanns skuldara.
 • Mikilvægt er að umsækjandi taki virkan þátt á meðan umsókn  er til vinnslu.

Þær skuldir sem samningur greiðsluaðlögun tekur ekki til 

 • Skuldir vegna meðlags.
 • Skuldir vegna námslána ( mögulegt er að semja um greiðslufrest samhliða samningi um greiðsluaðlögun).
 • Skuldir vegna sekta, virðisaukaskatts o.s.frv.
 • Skuldir sem falla til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt.

Fyrir hverja er greiðsluaðlögun ?

 • Greiðsluaðlögun getur hentað fyrir þá einstaklinga sem geta sýnt fram á að þeir verði um fyrirsjáanlega framtíð ófærir um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.
 • Uppfylla þarf ákveðin skilyrði sem fram koma í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga.
 • Ráðgjafi hjá okkur getur aðstoðað við að meta hvort greiðsluaðlögun henti.

Hvernig er sótt um ?

 • Sótt er um  aðstoð vegna fjárhagsvanda rafrænt , notast þarf við rafræn skilríki eða íslykil.
 • Við umsókn sækir umboðsmaður skuldara upplýsingar um tekjur, eignir og skuldir og metur næstu skref í samráð við umsækjanda.
 • Hjón og fólk í sambúð er heimilt að sækja um í sameiningu. 

 Hvað gerist áður en hægt er að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun ? 

 •  Farið er yfir umsókn og kallað eftir öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að fá skýra mynd af fjárhagslegri stöðu umsækjanda.
 • Umsækjandi þarf að uppfylla ákveðin lögbundin skilyrði til að umsókn hans verði samþykkt.
 • Við mat á umsóknum er farið ítarlega yfir fjárhag umsækjenda með tilliti til eigna, tekna og skulda og er þá a.m.k. litið til síðustu fjögurra ár. 
 • Skilyrði er að síðustu 4 skattframtölum hafi verið skilað. 
 • Greina þarf hvort umsækjandi muni hafa aðra fjármuni en atvinnutekjur til að greiða af skuldum , s.s. vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. 
 • Umboðsmaður skuldara staðreynir tekjur umsækjanda, samkvæmt opinberum gögnum, og veltu (samanlagðar innborganir) á bankareikningum í eigu umsækjanda.
 • Sé misræmi á tekjum samkvæmt opinberum gögnum og veltu á bankareikningum er nauðsynlegt að umsækjandi veiti skýringar á því.
 • Framfærslukostnaður er áætlaður skv. framfærsluviðmiði embættisins ásamt öðrum uppgefnum kostnaði frá umsækjanda. Nauðsynlegt er að með umsókn fylgi gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, þ. á m. uppgefnum kostnaði varðandi húsaleigu, rekstur húsnæðis og annan mánaðarlegan kostnað.
 • Sé vafi um að umsækjandi uppfylli skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar þá er honum sent bréf/tölvupóstur (andmælabréf) þar sem honum er veitt færi á að koma sínum skýringum að og að og leggja fram gögn innan tiltekins frests.

Hvað gerist þegar umsókn er samþykkt ? 

 • Þegar liggur fyrir að unnt er að samþykkja umsókn er haft samband við umsækjanda símleiðis ef unnt er, þar sem farið er yfir greiðsluaðlögunarferlið, greiðsluskjól og þær skyldur sem hvíla á umsækjanda meðan á því stendur, mögulega niðurstöðu í greiðsluaðlögunarsamningi o.fl. Eigi umsækjandi eignir er farið yfir þau skilyrði sem verða að vera uppfyllt svo umsækjandi geti haldið viðkomandi eign eftir í greiðsluaðlögun. Sé fyrirsjáanlegt að selja þurfi eign í greiðsluaðlögunarferlinu er umsækjandi upplýstur um það.
 • Umsækjanda er í kjölfarið sendur tölvupóstur með mikilvægum upplýsingum um greiðsluaðlögunarferlið og næstu skref í málinu.  Vilji umsækjandi halda áfram er tekin ákvörðun um samþykki umsóknar og hún send í tölvupósti ásamt upplýsingum um greiðsluskjól.
 • Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun skipar hann umsjónarmann með málinu. Umsjónarmaður getur verið lögfræðingur sem starfar hjá umboðsmanni eða lögmaður sem umboðsmaður ræður til verksins.

Greiðsluaðlögun felur ekki í sér

 • Almenna lögfræðilega ráðgjöf eða aðstoð við mál sem eru einkaréttarlegs eðlis.
 • Eftirgjöf skulda í öllum tilvikum.
 • Aðstoð við að telja fram til skatts og/eða veita leiðbeiningar um skattamál.
 • Að embættið taki  við fjármunum frá umsækjendum og miðli til kröfuhafa.
 • Ráðgjöf vegna bótamála.

Mynd af ferli greiðsluaðlögunar 

Ferli greiðsluaðlögunar

 

Ef þú ert óviss um hver næstu skref ættu að vera þá getur þú haft samband í síma 512-6600, komið til okkar í Kringluna 1, opið er frá 9-15 alla virka daga.

Þú getur einnig pantað símtal frá okkur og fengið nánari upplýsingar um þá þjónustu sem við bjóðum upp á.

Panta símtal 

Sækja um aðstoð vegna fjárhagsvanda