Fara í efni

Spurt og svarað

Hvað er innköllun í Lögbirtingarblaði?

  • Þegar umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt, skal umsjónarmaður málsins birta innköllun í Lögbirtingablaði, þ.e. auglýsingu þar sem skorað er á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur skuldara, að lýsa kröfunum fyrir umsjónarmanni innan fjögurra vikna.
  • Embættið vill benda á að innköllunin getur leitt til þess að skráð verður í viðskiptamannaskrár lánastofnana að skuldari hafi farið í greiðsluaðlögun.
  • Texti innköllunar er eftirfarandi:

Innköllun vegna samnings um greiðsluaðlögun. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara þann …var samþykkt umsókn …um að leita samnings um greiðsluaðlögun. Undirritaður var skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlöguninni þann …Hér með er skorað á alla þá sem telja sig eiga kröfur á hendur ofangreindum skuldara, að lýsa þeim fyrir undirrituðum umsjónarmanni innan fjögurra vikna frá fyrri birtingu þessarar innköllunar, sbr. 1. mgr. 10. gr. lge. Þeir lánardrottnar sem njóta veðréttar eða ábyrgðar annars aðila fyrir kröfum á hendur skuldara, án þess að veðið eða ábyrgðin taki til ákveðinnar skuldar, skulu tiltaka í kröfulýsingu hvaða skuld eigi þar undir, sbr. 2. mgr. 10. gr. lge. Þá skulu kröfuhafar tilgreina reikningsnúmer í kröfulýsingu vegna greiðslumiðlunar.

Kröfulýsingar skulu sendar til Umboðsmanns skuldara, b.t. …lögfræðings, Kringlunni 1, 103 Reykjavík.

Óski kröfuhafi eftir að lýsa kröfum með rafrænum hætti skal kröfulýsing send á netfangið ums@ums.is.

Fundir verða haldnir með lánardrottnum, ef tilefni gefst til þess undir rekstri málsins, sbr. 6. mgr. 16. gr. lge.

Er ábyrgðarmaður minn upplýstur um að ég sé í greiðsluaðlögun?

Umsjónarmaður greiðsluaðlögunarmálsins sendir bréf til ábyrgðarmanns þíns um að greiðsluaðlögunarumleitanir þínar séu hafnar og fær hann jafnframt afrit af auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaði, svokallaðri innköllun þar sem auglýst er eftir kröfum á hendur þér.

Er samið um ábyrgðarskuldbindingar þriðja aðila í greiðsluaðlögun?

Í greiðsluaðlögun er ekki samið um ábyrgðarskuldbindingar þriðja aðila, hvort sem ábyrgðarmaður gekkst persónulega í ábyrgð fyrir kröfu eða veðsetti eign sína. Í þessu felst að kröfuhafi getur innheimt kröfu sína gagnvart ábyrgðarmanni, þegar greiðsluaðlögunarsamningur hefur tekið gildi þó svo að hann kveði á um að krafan sé gefin eftir gagnvart aðalskuldara.

Hvernig er farið með ábyrgðarskuldbindingar mínar í greiðsluaðlögun?

Ef ábyrgðarskuldbinding þín er ekki orðin virk, þ.e. aðalskuldari er með kröfuna í skilum, er ekki gert ráð fyrir henni í greiðsluaðlöguninni. Verði skuldbindingin virk á tímabili greiðsluaðlögunar þarf að breyta samningnum þínum og taka kröfuna inn í greiðsluaðlögunina. Þér ber þó ekki að greiða meira af kröfunni en sem nemur því hlutfalli sem þér ber að greiða af öðrum samningskröfum samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun.

Ef ég hef enga greiðslugetu, get ég fengið samning um greiðsluaðlögun?

Já, það er ekki skilyrði fyrir því að komast í greiðsluaðlögun að þú getir greitt af kröfum. Ef þú ert fasteignaeigandi, þá getur þú búist við því að þurfa að selja fasteign þína í ljósi þess að þú hefur ekki efni á að greiða af henni. Umsjónarmaður reynir að semja um eftirgjöf krafna út frá hver framtíðargreiðslugeta skuldara er talin vera.

Þarf ég að selja eignir mínar í greiðsluaðlögun?

Það er skuldari sem tekur lokaákvörðun um sölu eigna, en ef skuldari neitar að selja eign getur umsjónarmaður óskað eftir því að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður. Umsjónarmaður getur lagt til að fasteign skuli seld ef ljóst er að skuldari getur ekki staðið undir afborgunum af veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar. Hið sama á við ef umsjónarmaður telur fasteignina vera óhæfilega með tilliti til aðstæðna skuldara, stærðar hennar og afborgana af veðkröfum. Þá þarf að jafnaði að selja aðrar eignir sem skuldari getur verið án, t.d. lóð, sumarbústað, o.fl. 

Hvernig er tímabil greiðsluaðlögunar ákvarðað?

Tímabil greiðsluaðlögunar samkvæmt samningi er að jafnaði eitt til þrjú ár. Við ákvörðun á lengd tímabilsins hverju sinni ber umsjónarmanni að hafa ýmis sjónarmið í huga. Atriði sem m.a. skipta máli í því sambandi eru fjárhæð skulda, fjölskyldugerð, hvort skuldari hafi börn á framfæri, aldur og heilsa skuldara og hvort fasteign skuli seld.

Hvað kemur fram í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun?

Í frumvarpi skal tiltaka viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, m.a. upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld. Þá skal fylgja listi yfir allar kröfur sem vitað er um og tillaga umsjónarmanns um hvernig farið verði með kröfurnar. Þá ber að tiltaka allar verðmætar eignir sem skal selja eða halda eftir og verðmæti þeirra. Umsjónarmaður mun óska eftir að skuldari lesi frumvarpið og staðfesti að allar upplýsingar sem þar eru tilgreindar séu réttar.

Hvað gerist ef kröfuhafar andmæla frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun?

Ef kröfuhafar lýsa yfir andmælum við frumvarpið mun umsjónarmaður skoða andmælin. Umsjónarmaður metur hvort komið hafi fram upplýsingar sem geta leitt til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður, t.d. vegna háttsemi skuldara. Ef svo er ekki, mun umsjónarmaður reyna að fá kröfuhafa til að endurskoða afstöðu sína og meta hvort gerðar verði breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við kröfuhafa. Ef frjálsar samningaviðræður takast ekki, getur skuldari lýst því yfir að hann vilji leita nauðasamnings vegna samningskrafna og/eða tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Umsjónarmaður tekur þá rökstudda afstöðu til þess hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á.

Hvað gerist ef ég get ekki staðið við samninginn minn?

Ef upp koma ófyrirsjáanlegar aðstæður hjá þér sem leiða til þess að þú getur ekki staðið við greiðslur samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun, getur þú krafist þess að gerðar verði breytingar á samningi þínum. Slíkar ófyrirsjáanlegar aðstæður geta verið slys, viðvarandi atvinnuleysi, óvænt útgjöld o.fl. Kröfu skuldara skal ekki taka til greina ef tilefni breyttra forsendna verður rakið til óábyrgrar hegðunar hans. Allar upplýsingar um ferlið má finna hérBreyting á samningi

Ef þú vanrækir verulega að greiða afborganir samkvæmt samningi getur kröfuhafi krafist riftunar eða ógildingar á samningi um greiðsluaðlögun í einkamáli fyrir dómi. Það er því mjög mikilvægt að þú leitir ráða hjá starfsmönnum embættis umboðsmanns skuldara, teljir þú þig ekki geta staðið við greiðslur þar sem möguleiki kann að vera fyrir hendi að þú getir fengið samningnum þínum breytt. 

Hvað á ég að gera ef fjárhagsstaðan mín batnar umtalsvert á tímabili greiðsluaðlögunar?

Á þér hvílir skylda samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, til þess að upplýsa kröfuhafa innan eins mánaðar og á tryggan hátt, að fjárhagsstaðan þín hafi batnað umtalsvert. Kröfuhafi hefur rétt til þess að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun vegna þessa. Ef þú hefur fengið í hendur háa fjárhæð getur kröfuhafi krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða fullu milli kröfuhafa. 

Það er verið að innheimta hjá ábyrgðarmanni vegna þess að ég fór í greiðsluaðlögun, hvað er hægt að gera?

Þar sem ekki er samið um ábyrgðarskuldbindingar þriðja aðila í greiðsluaðlögun, þarf ábyrgðarmaður að semja við kröfuhafa um greiðslu ábyrgðarskuldbindingarinnar.

Þá hvetur embættið ábyrgðarmenn til að kynna sér umfjöllun um gildar og ógildar ábyrgðarskuldbindingar hérÁbyrgðarskuldbindingar.

Ef ábyrgðarmaður lendir í greiðsluerfiðleikum vegna innheimtu gjaldfallinnar ábyrgðarskuldbindingar, getur hann leitað til embættisins og kynnt sér þá þjónustu sem er í boði.