Fara í efni

Ráðstöfun séreignarsparnaðar

sparnaður
Ríkisstjórnin kynnti á dögunum aðgerðir til að vernda og styðja við einstaklinga og fjölskyldur vegna erfiðra aðstæðna sem við stöndum nú frammi fyrir vegna COVID – 19.
Einn liður í þeim aðgerðum er að heimila úttekt úr séreignarsjóði.
Um er að ræða aðgerð sem mun gera mörgum kleift að nota eigin sparnað til að mæta tímabundnum fjárhagserfiðleikum. 
Það er þó mikilvægt að gera sér grein fyrir hvað felst í því að nýta sér þessa heimild og taka upplýsta ákvörðun sem hentar fjárhagstöðu heimilisins.
 
Hvað er séreignarsparnaður og borgar sig að taka hann út núna ?

Greiðsla í viðbótarlífeyrissjóð felur í sér að launþegi leggur 2-4% fyrir mánaðarlega af laununum sínum og fær 2% mótframlag frá vinnuveitanda sínum sem er í raun hrein launahækkun.  

Hvernig er séreignarsparnaði  ætlað að nýtast okkur ?

Í grunninn er viðbótarlífeyrissparnaður akkúrat það sem heitið felur í sér, viðbót við almennan lífeyrissparnað. Viðbótarlífeyrissparnaði er ætlað að bæta við lífeyrisgreiðslur okkar þegar starfsævinni lýkur og getur verið mörgum ómetanleg viðbót.

 • Inneignin er almennt laus við 60 ára aldur og erfist við fráfall.
 • Inneignin er einnig laus til úttektar ef eigandi verður óvinnufær vegna veikinda eða slysa
 • Verði einstaklingur gjaldþrota geta kröfuhafar ekki gengið að inneign í séreignarsjóði.

Gunnar Baldvinsson framkvæmdarstjóri Almenna lífeyrissjóðsins skrifaði góðan gestapistil á síðuna okkar fyrir ekki svo löngu. Í pistlinum fer hann yfir kosti þess fyrir ungt fólk að nýta sér þetta sparnaðarform.

Tímabundin heimild til úttektar á séreignarsparnaði

Fyrir hvern?

 • Allir sem eiga innistæðu í séreignarsjóði geta nýtt sér heimild til úttektar.

Hvað mikið má ég taka?

 • Úttekt hvers mánaðar nemur að hámarki 800.000 kr.
 • Hámarksútgreiðsla er 12 mkr.  yfir 15 mánaða tímabil.

Er úttektin skattskyld?

 •  Já – tekjuskattur leggst á útgreiðslur. 
 • Fjárhæð úttektar kemur til viðbótar við aðrar skattskyldar tekjur og því mikivægt að kynna sér í hvaða skattþrep greiðslurnar falla. Hægt er að nota reiknivél á vefsíðu  Ríkisskattstjóra. 

Hefur úttektin áhrif á aðrar greiðslur ? 

 • Útgreiðslan skerðir ekki vaxta- eða barnabætur .
 • Hefur ekki áhrif á greiðslur frá almannatryggingum eða bætur skv. lögum um félagslega aðstoð. 
 • Hefur ekki áhrif á greiðslur húsnæðisbóta skv. lögum um húsnæðisbætur, greiðslur atvinnuleysisbóta , né heldur greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.
 • Greiðslurnar eru meðhöndlaðar sem skattskyldar tekjur og getur því sem slík haft áhrif á upphæð tekjutengdrar afborgunar af námslánum hjá Menntasjóði. 

Hvað þarf að hafa í huga áður en tekin er ákvörðun ?

 • Grunn hugsunin með viðbótarlífeyrissparnaði er að eiga sparnað til viðbótar við almennan lífeyrissjóð þegar starfsævinni lýkur. 
 • Gott er að skoða hvort hægt sé að mæta yfirvofandi erfiðleikum með öðrum aðgerðum 
 • Endurskoða útgjöld heimilisins, er hægt að draga saman neyslu ?
 • Gagnlegt getur verið að setja upp heimilisbókhald fyrir næstu mánuði.

Ef niðurstaðan er að nýta heimild til úttektar úr séreignarsjóði:

 • Nýta heimildina bara að því marki sem nauðsynlegt er, það getur t.d. dugað að taka út einn mánuð.
 •  Hér getur verið gagnlegt að setja upp heimilisbókhald fyrir næstu mánuði til að nýta úttektina sem best. 

Hvað gildir heimild til úttektar lengi?

 •  Heimildin gildir frá apríl 2020 til 1. janúar 2021.
 • Ekki er nauðsynlegt að  að sækja strax um sé ekki þörf á því, réttur þess sem sækir um t.d. í  júlí 2020 er jafn mikill. 

Hvernig sæki ég um ?

 • Sótt er um útgreiðslu hjá þeim sjóði sem launþegi hefur greitt í.
 • Flestir sjóðir vinna nú að því að opna fyrir umsóknir.
Skattfrjálsar leiðir til ráðstöfunar á séreignarsparnaði

Húsnæðissparnaður

 • Viðbótarlífeyrissparnaður er hagkvæmasta leiðin sem í boði er fyrir ungt fólk til að safna fyrir fyrstu íbúð.
 • Einstaklingur sem ekki á íbúðarhúsnæði til eigin nota getur átt rétt á að taka út inneign í séreignarsjóði sem myndast hefur frá tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2021, upp að ákveðnu hámarki ef hann festir kaup á slíku húsnæði í síðasta lagi 30. júní 2021.
 • Úttekt úr séreignarsjóði til kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði til eigin nota er skattfrjáls ráðstöfun
 • Sótt er um inn á www.leidretting.is
 • Heimildin gildir nú til 30. júní 2021

Ráðstöfun inn á fasteignaveðlán

 • Einstaklingar með veðlán geta einnig valið að ráðstafa séreignarsparnaði til greiðslu inn á höfuðstól veðlána sem tekin voru til kaupa/byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota.
 • Úttekt úr séreignarsjóði til greiðslu inn á höfuðstól fasteignaveðlána er skattfrjáls ráðstöfun.
 • Sótt er um þessa ráðstöfun á vefsíðunni www.leidretting.is
 • Heimildin gildir nú til 30. júní 2021