Fara í efni

Fréttir

templateShare
Ný framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara

Þegar neysluviðmið þáverandi velferðarráðuneytisins voru birt í fyrsta skipti árið 2011, lá til grundvallar skýrsla sérfræðingahóps um neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi. Í skýrslunni voru kynnt þrjú ný íslensk neysluviðmið, þ.e. dæmigert viðmið, skammtímaviðmið og grunnviðmið. Viðmiðin byggjast í meginatriðum á svonefndri útgjaldaaðferð,  þ.e. stuðst er við upplýsingar úr gagnagrunni Hagstofu Íslands, sem hefur framkvæmt rannsóknir á útgjöldum heimilanna.

Þar sem eitt af hlutverkum umboðsmanns skuldara samkvæmt lögum nr. 100/2010, er að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega, var tekin sú ákvörðun af hálfu embættisins í apríl 2012, að byggja á skammtímaviðmiðum skýrslunnar, með ákveðnum undantekningum. Skammtímaviðmiðin byggjast á dæmigerðum viðmiðum, en dregið er úr ákveðnum útgjöldum, þar sem þau er hugsuð sem viðmið sem hægt er að nota í skamman tíma.

Þann 5. apríl á þessu ári uppfærði félagsmálaráðuneytið neysluviðmiðin og er það sjöunda uppfærslan eftir að þau voru birt í fyrsta skipti árið 2011. Neysluviðmiðin að þessu sinni byggjast á grunni rannsóknar Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna á tímabilinu 2013-2016 og leiðir uppfærslan í ljós lækkun á flest öllum útgjaldaflokkum neysluviðmiðanna. Það var Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem annaðist uppfærsluna fyrir ráðuneytið. Hagfræðistofnun byggði á vinnunni sem lá til grundvallar upprunalegu viðmiðunum en meðferð gagna var með öðrum hætti en áður. Nánari upplýsingar um aðferðarfræði Hagfræðistofnunar má finna á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.

Í kjölfar þessarar uppfærslu ráðuneytisins, taldi embættið rétt að endurskoða þá ákvörðun að byggja framfærsluviðmið embættisins í meginatriðum á skammtímaviðmiðum ráðuneytisins. Þar sem skammtímaviðmiðin eru lægri en dæmigerð viðmið var það mat embættisins að uppfærslan myndi leiða til of mikillar lækkunar á framfærsluviðmiðum embættisins. Í framangreindri skýrslu ráðuneytisins um viðmiðin, var vísað til þess að það væri einstaklingsbundið hversu lengi heimili gæti komist af með þær fjárhæðir sem skammtímaviðmið gerðu ráð fyrir, en almennt mætti gera ráð fyrir allt að níu mánaða tímabili. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara eru notuð sem grundvöllur í öllum úrræðum embættisins, við mat á greiðslugetu umsækjanda, þ. á m. í greiðsluaðlögun einstaklinga en samkvæmt lögum getur tímabil greiðsluaðlögunar verið í allt að þrjú ár. Með tilliti til framangreindrar lækkunar telur embættið ekki forsvaranlegt að miða lengur við skammtímaviðmiðin heldur telur réttast að taka upp dæmigerð viðmið ráðuneytisins með ákveðnum undantekningum. Framfærsluviðmið embættisins verða því áfram lægri en dæmigerð viðmið ráðuneytisins eða sem nemur að meðaltali, eftir öllum fjölskyldustærðum, um 83,1% af heildarfjárhæð þeirra síðarnefndu (sé miðað við neðangreinda útgjaldaflokka). Framfærsluviðmið embættisins hækka því frá eldri viðmiðum, sem nemur um 13,9 % að meðaltali, eftir öllum fjölskyldustærðum.

Þeir útgjaldaflokkar sem verða þeir sömu og í dæmigerðum viðmiðum ráðuneytisins eru eftirfarandi:

  • Matur, drykkjarvörur og aðrar dagvörur til heimilishalds
  • Föt og skór
  • Heimilisbúnaður
  • Lyf, lækningavörur og heilbrigðisþjónusta
  • Sími og fjarskipti
  • Önnur þjónusta fyrir heimili
  • Raftæki og viðhald raftækja
  • Veitingar
  • Annar ferðakostnaður

Embættið hyggst miða við að meðaltali 75%  hlutfall af dæmigerðum viðmiðum ráðuneytisins í útgjaldaflokknum ,,Tómstundir og afþreying“, þar sem embættið telur að hægt sé að draga úr útgjöldum í þeim flokki, meðan greiðsluerfiðleikar eru til staðar.

Þá hyggst embættið byggja áfram á sínum eigin viðmiðum í útgjaldaflokknum ,,Ökutæki og almenningssamgöngur“ en ekki er hægt að byggja á dæmigerðum viðmiðum í þeim flokki þar sem í þeim er gert ráð fyrir fjármagnskostnaði bifreiða.

Embættið mun áfram byggja á raunkostnaði umsækjanda vegna m.a. húsnæðis, skóla og dagvistunar barna og trygginga (annarra en bílatrygginga).