Fara í efni

Fréttir

templateShare
Rangfærslur um umboðsmann skuldara

Í Staksteinum Morgunblaðsins 13. janúar sl. var fjallað um embætti umboðsmanns skuldara og tel ég nauðsynlegt að leiðrétta ýmis atriði er komu þar fram.

Í fyrsta lagi má telja það eðlilega þróun að færri leiti til embættisins en áður. Má benda á að á síðasta ári bárust embættinu 1125 umsóknir þar af 65% frá umsækjendum yngri en 40 ára. Til samanburðar má nefna að á árinu 2011 bárust 3166 umsóknir. Embættið var stofnað árið 2010 en var byggt á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem sett var á laggirnar árið 1996. Margir leituðu aðstoðar í kjölfar bankahrunsins en eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur sá hópur sem leitar sér aðstoðar vegna greiðsluerfiðleika breyst töluvert. Færri fasteignaeigendur, yngra fólk og oft vegna skyndilána.

Stofnunin ekki fjármögnuð af skattgreiðendum

Í öðru lagi skal leiðrétt sú fullyrðing að skattgreiðendur greiði kostnað af rekstri embættisins. Þetta er beinlínis rangt þar sem gjaldskyldir aðilar (fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög) standa straum af kostnaði en ekki skattgreiðendur. Hefur þetta fyrirkomulag verið frá stofnun embættisins. Starfseminni hefur verið hagrætt eftir rekstri og mikil áhersla verið lögð á að fara vel með það fé sem hefur verið veitt til rekstrarins. Hefur fækkun starfsmanna verið stór liður í því og eru starfandi í dag 17 starfsmenn í 15,8 stöðugildum. Þegar embættið var sem stærst árið 2012 voru 100 starfsmenn og kynjahlutfallið 77% konur og 23% karlar.

Að lokum skal benda á þá staðreynd að mikilvægt er að í velferðarsamfélagi sé til ókeypis aðstoð fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Sú aðstoð hefur verið til á Íslandi í 24 ár og tel ég mikilvægt að slík aðstoð sé til staðar.