Fara í efni

Fréttir

templateShare
Vel sóttur morgunfundur um ungt fólk og lánamarkaðinn

Ráðstefna umboðsmanns skuldara og SFF um ungt fólk og lánamarkaðinn sem haldin var í gær 25. mars var vel sótt en á annað hundrað manns sátu fundinn. 

Á fundinum voru meðal annar kynntar helstu tillögur starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja.

 Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara fór yfir stöðuna eins og hún blasir við hjá þeim sem leita til embættisins vegna greiðsluerfiðleika sem stafa af nýjum lánamöguleikum. Fjölgun hefur orðið á  umsóknum um aðstoð vegna fjárhagserfiðleika og umsækjendur á aldrinum 18-29 ára eru nú ríflega 27 % allra umsækjenda. Þá er 79% af þessum hóp með skyndilán.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, flutti ávarp þar sem hann fjallaði um að ungt fólk væri viðkvæmur hópur sem halda þarf vel utanum. Ásmundur nefndi að nærtækast væri að líta til þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til hjá nágrannaþjónum okkar t.d. í Noregi hvað varðar takmarkanir á markaðssetningu. 

Ásmundur sagði mikilvægt að tryggja börnum og ungmennum samræmda fræðslu um fjármál og gera þeim þannig kleift að taka upplýstar ákvarðanir í eigin fjármálum. „Sameiginlegt markmið ætti að vera að ungt fólk hefji ekki sitt fjárhagslega sjálfstæði með skuldir í farteskinu.

Hákon Stefánsson, lögmaður og formaður starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja, fór yfir efni skýrslunnar og gerði grein fyrir þeim tillögum sem í henni er að finna.

Bernhard Bernhardsson, sviðsstjóri vöruþróunar, verðlagningar og stafrænnar framtíðar hjá Arion banka, og Valgerður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Framtíðarinnar, fjölluðu um hvernig aðgengi viðskiptavina að fjármagni hefur breyst með þeirri þróun sem hefur átt sér stað í fjártækni. 

 Að loknum erindum tóku sæti í pallborði auk þeirra sem fluttu erindi, Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna og Matthildur Sveinsdóttir lögfræðingur hjá Neytendastofu.  

Á fundinum sköpuðust góðar umræðum meðal annars um hvernig hægt er að bæta nútíma lánaumhverfi og auka fræðslu um fjármál og lántökur.