Fara í efni

Milljónamæringurinn í næsta húsi - Kolbeinn Marteinsson

Kolbeinn Marteinsson er einn eiganda almannatengsla- og kynningarfyrirtæksins Athygli. Hann er jafnframt einn stofnenda og eigenda Útilegukortsins og fleiri fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Kolbeinn ræðir í þessum þætti um sín fjármál en hann er í dag mikill áhugamaður um fjármál. Þessi áhugi kviknaði samt í kjölfar mjög erfiðra aðstæðna. Á árunum eftir hrun urðu fjármál Kolbeins rústir einar eftir að fyrirtæki sem hann átti fór í gjaldþrot og skuldir hans jukust mjög mikið. Á sama tíma hrundu tekjur samhliða minni umsvifum í hagkerfinu eftir hrun. Í kjölfarið þurfti hann að horfast í augu við eigin fjárhagsvanda. Í kjölfarið fór hann að skipuleggja fjármál sín og fór að vinna sig úr skuldavandanum. Hægt og rólega fór hann að sjá til sólar. Samtímis fór hann að leggja fyrir sparnað og fá raunverulegan áhuga á fjármálum og má því segja að fjárhagserfiðleikarnir hafi verið honum og fjölskyldu hans mikil gæfa. Í dag stefna Kolbeinn og kona hans að skuldleysi innan skamms og fjárhagslegu sjálfstæði.

Í síðari hluta þessa þáttar ræðir Kolbeinn um bókina ,,The Millionaire Next Door." Í þeirri bók sem kom út árið 1996 og var endurútgefin 2010 voru fjöldi milljónamæringa í Bandaríkjunum rannsakaðir með það að markmiði að skoða hvað í hegðun þeirra og færni varð til þess að þeir efnuðust. Þar kemur margt á óvart og margir hlutir þar sem við hér á Íslandi getum tileinkað okkur.