Fara í efni

Aðstoð vegna greiðslu skiptakostnaðar

Markmið

Að gera einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum og hafa árangurslaust leitað annarra greiðsluvandaúrræða kleift að krefjast sjálfir skipta á búi sínu.

Aðstoð vegna greiðslu skiptakostnaðar er ókeypis úrræði.  

Fyrir hverja er aðstoð vegna skiptakostnaðar?

 • Aðstoð vegna skiptakostnaðar getur hentað fyrir þá einstaklinga sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum og hafa árangurslaust leitað annarra greiðsluvandaúrræða og hyggjast krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu.
 • Uppfylla þarf ákveðin skilyrði sem fram koma í lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.
 • Ráðgjafi hjá okkur getur aðstoðað við að meta hvort úrræðið henti.

Hvernig er sótt um aðstoð vegna skiptakostnaðar og hvernig er ferlið?

 • Sótt er um aðstoð vegna fjárhagsvanda rafrænt, notast þarf við rafræn skilríki eða íslykil.
 • Við umsókn sækir umboðsmaður skuldara upplýsingar um tekjur, eignir og skuldir og metur næstu skref í samráði við umsækjanda.
 • Umsækjandi þarf sjálfur að veita upplýsingar um útgjöld sín vegna framfærslu.

Niðurstaða umsóknar um aðstoð vegna skiptakostnaðar getur falið í sér:

 • Samþykki umsóknar og upplýsingagjöf um næstu skref.
 • Synjun umsóknar en leiðbeiningar um önnur greiðsluvandaúrræði.
 • Synjun umsóknar en upplýsingagjöf um gjaldþrot, geti umsækjandi með einhverju móti sjálfur fjármagnað skiptatrygginguna og önnur/vægari úrræði duga ekki til að leysa vanda umsækjanda.
 • Sama hver niðurstaða umsóknar er þá fær umsækjandi yfirlit yfir fjárhagsstöðu sína.

Hvað gerist áður en hægt er að samþykkja umsókn um fjárhagsaðstoð ? 

 •  Farið yfir umsókn og kallað eftir öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að fá skýra mynd af fjárhagslegri stöðu umsækjanda.
 • Umsækjandi þarf að uppfylla ákveðin lögbundin skilyrði til að umsókn hans verði samþykkt.
 • Við mat á umsóknum er farið ítarlega yfir fjárhag umsækjenda með tilliti til eigna, tekna og skulda og er þá a.m.k. litið til síðustu fjögurra ára. 
 • Skilyrði er að síðustu 4 skattframtölum hafi verið skilað. 
 • Greina þarf hvort umsækjandi muni hafa aðra fjármuni en atvinnutekjur til að greiða af skuldum , s.s. vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. 
 • Umboðsmaður skuldara staðreynir tekjur umsækjanda, samkvæmt opinberum gögnum, og veltu (samanlagðar innborganir) á bankareikningum í eigu umsækjanda.
 • Sé misræmi á tekjum samkvæmt opinberum gögnum og veltu á bankareikningum er nauðsynlegt að umsækjandi veiti skýringar á því.
 • Framfærslukostnaður er áætlaður skv. framfærsluviðmiði embættisins ásamt öðrum uppgefnum kostnaði frá umsækjanda. Nauðsynlegt er að með umsókn fylgi gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, þ. á m. uppgefnum kostnaði varðandi húsaleigu, rekstur húsnæðis og annan mánaðarlegan kostnað.
 • Sé vafi um að umsækjandi uppfylli skilyrði til að leita fjárhagsaðstoðar vegna skiptakostnaðar þá er honum sent bréf/tölvupóstur (andmælabréf) þar sem honum er veitt færi á að koma sínum skýringum að og að og leggja fram gögn innan tiltekins frests.

Hvað tekur við þegar umsókn hefur verið samþykkt?

 • Umsækjandi sækir gögn til umboðsmanns skuldara og fer með þau í héraðsdóm í því umdæmi sem lögheimili hans er.
 • Umsækjandi þarf sjálfur að greiða 19.000 kr. þingfestingargjald þegar hann leggur gögnin fram hjá héraðsdómi.
 • Umboðsmaður skuldara greiðir skiptatrygginguna, 250.000 kr., beint til héraðsdóms þegar málið er tekið fyrir.
 • Umsækjandi er boðaður í héraðsdóm þegar mál hans verður tekið fyrir. Mikilvægt er að hann mæti því annars verður litið svo á að hann sé fallin frá kröfu um gjaldþrotaskipti.
 • Dómari metur hvort umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir því að fá bú sitt tekið til gjaldþrotaskipta.
 • Nánar um gjaldþrotaskipti hér.

Umsókn synjað ?

 • Ef umsókn um aðstoð vegna skiptakostnaðar er synjað þá getur umsækjandi kært ákvörðunina til félagsmálaráðuneytis. Kæran er rafræn og er kærueyðublað sótt á vef stjórnarráðsins. 

Umsókn um aðstoð vegna skiptakostnaðar felur ekki í sér:

 • Almenna lögfræðilega ráðgjöf eða aðstoð við mál sem eru einkaréttarlegs eðlis.
 • Að veita lögfræðilega ráðgjöf varðandi til dæmis einstakar kröfur og lögmæti þeirra.
 • Aðstoð við að telja fram til skatts og/eða veita leiðbeiningar um skattamál.
 • Að umboðsmaður skuldara úrskurði um ógjaldfærni umsækjanda eða leggi fram kröfu um gjaldþrotaskipti fyrir hans hönd.
 • Að umsækjandi fái skiptatrygginguna greidda inn á eigin reikning.

 

Ef þú ert óviss um hver næstu skref ættu að vera þá getur þú haft samband í síma 512-6600, komið til okkar í Kringluna 1, opið er frá 9-15 alla virka daga. 

Þú getur einnig pantað símtal frá okkur og fengið nánari upplýsingar um þá þjónustu sem við bjóðum upp á.

 

Panta símtal

 Umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda