Fara í efni

Spurt og svarað um aðstoð vegna skiptakostnaðar

 

Af hverju þarf að leggja fram tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta?

 • Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, þá ábyrgist sá sem hefur krafist gjaldþrotaskipta, greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu sinnar og af gjaldþrotaskiptunum ef krafa hans er tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé þrotabúsins.
 • Ef framkomin gögn taka ekki af tvímæli um að eignir skuldarans muni nægja fyrir greiðslu skiptakostnaðar, ef krafa um gjaldþrotaskipti yrði tekin til greina, skal héraðsdómari krefja þann sem hefur gert hana um tryggingu tiltekinnar fjárhæðar fyrir kostnaðinum áður en krafan verður tekin fyrir, sbr. 2. mgr. 67. gr. laganna.
 • Sé trygging ekki greidd telst krafa um gjaldþrotaskipti afturkölluð.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta?

 • Að umsækjandi eigi í verulegum greiðsluörðugleikum
 • Að ekki verði talið sennilegt að þeir muni líða hjá innan skamms tíma.
 • Að einstaklingur geti ekki staðið skil á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta að teknu tilliti til eigna- og skuldastöðu, sem og ráðstöfunartekna og framfærslubyrði.
 • Að reynd hafi verið önnur greiðsluvandaúrræði eða umboðsmaður skuldara hafi metið það svo að önnur greiðsluvandaúrræði séu ekki til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda.
 • Fjárhagsaðstoð verður auk þess ekki veitt ef ýmis önnur atvik eru uppi sem umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á með háttsemi sinni skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 9/2014.

Getur það haft áhrif á umsókn  ef greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður?

Já, fjárhagsaðstoð verður ekki veitt ef greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður á grundvelli ákveðinna lagaákvæða, sbr. c- og d- lið 1. mgr. og d-g lið 2. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Framangreind lagaákvæði vísa m.a. til þess ef greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður vegna hárrar skuldar á vörslusköttum, vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eða stofnað til óhóflegra skuldbindinga með ámælisverðum hætti.

Þá verður fjárhagsaðstoð ekki veitt ef greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður vegna skorts á sparnaði í greiðsluskjóli.

Jafngildir samþykki umsóknar um aðstoð vegna skiptakostnaðar gjaldþroti? 

 • Nei, samþykki umsóknar um fjárhagsaðstoð fyrir skiptakostnaði felur ekki í sér að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta, heldur eingöngu að tryggingin fyrir skiptakostnaði verði greidd af umboðsmanni skuldara.
 • Skuldari þarf sjálfur að leggja fram kröfu um gjaldþrotaskipti hjá hlutaðeigandi héraðsdómsstól. Héraðsdómari tekur svo sjálfstæða afstöðu til þess hvort skilyrði laga um gjaldþrotaskipti séu uppfyllt.

 Þarf fyrst að reyna önnur úrræði?

Já, það er skilyrði fyrir því að fjárhagsaðstoð verði veitt að önnur greiðsluvandaúrræði hafi verið reynd eða umboðsmaður skuldara meti það svo að önnur greiðsluvandaúrræði séu ekki til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda.

 

Hvað er há trygging fyrir skiptakostnaði?

 • Tryggingin nemur í dag 280.000 kr.
 • Eingöngu þeir sem geta ekki staðið skil á henni, að teknu tilliti til eigna- og skuldastöðu sem og ráðstöfunartekna og framfærslubyrði, geta fengið fjárhagsaðstoð fyrir skiptatryggingunni, að uppfylltum öðrum skilyrðum.
 • Vakin skal athygli á því að umsækjandi þarf sjálfur að greiða héraðsdómsstól 20.000 kr. þingfestingargjald þegar krafist er gjaldþrotaskipta og er sá kostnaður ekki innifalinn í fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar.

Hvað tekur langan tíma að afgreiða umsókn um fjárhagsaðstoð?

Það fer eftir fyrirliggjandi málafjölda hjá embættinu, en að jafnaði tekur afgreiðslan nokkrar vikur.

Er fjárhagsaðstoð vegna skiptatryggingar greidd til umsækjanda ef umsókn er samþykkt?

Nei, umboðsmaður skuldara gefur út yfirlýsingu um veitingu fjárhagsaðstoðar sem fylgir með kröfu um gjaldþrotaskipti til héraðsdóms. Skiptastjóri fær hana greidda frá umboðsmanni skuldara.

Eru einhverjar kröfur undanskildar í gjaldþrotaskiptum?

 • Vakin skal athygli á að kröfur Menntasjóðs námsmanna eru skv. 26. gr. laga um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020 undanskildar ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um lengd fyrningarfrests. Kröfur Menntasjóðs námsmanna fyrnast því ekki á tveimur árum eftir lok gjaldþrotaskipta. Um fyrningu þeirra fer eftir lögum um fyrningu kröfuréttinda. 
 • Samkvæmt 5. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 er fyrningarfrestur 10 ár. Um slit fyrningar fer skv. sömu lögum.