Fara í efni

Greiðsluskjól

Skyldur og réttindi í greiðsluskjóli

Áður en umsókn um greiðsluaðlögun er samþykkt þarf umsækjandi að staðfesta yfirlýsingu þess efnis að hann hafi kynnt sér áhrif frestunar greiðslna skv. lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Samkvæmt 11. gr. laganna eru lagðar skyldur á bæði kröfuhafa og umsækjendur á meðan frestun greiðslna stendur yfir. Vakin skal athygli á því að ef umsækjendur uppfylla ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna varir getur það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun komist ekki á og heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld niður.

Embættið tilkynnir með bréfi þeim kröfuhöfum sem vitað er um, ábyrgðarmönnum og samskuldurum skuldara, að umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt og greiðsluskjól sé hafið frá og með þeim degi sem ákvörðun um samþykki er tekin.

Greiðsluskjól tekur til allra krafna á hendur skuldara, einnig þeirra sem standa utan greiðsluaðlögunar.

Greiðsluskjól varir þar til samningur um greiðsluaðlögun tekur gildi eða greiðsluaðlögunarmáli lýkur með öðrum hætti, greiðsluskjól skal að jafnaði ekki vera lengra en fjórir mánuðir. Hér að neðan má finna allar upplýsingar um skyldur skuldara og kröfuhafa á meðan frestun greiðslna varir.

Brjóti skuldari gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli þannig að leiði til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana er heimilt að synja skuldara á þeim forsendum sæki hann síðar aftur um greiðsluaðlögun. Þó geta sérstakar aðstæður réttlætt samþykki.

Skyldur umsækjanda meðan á frestun greiðslna varir

Það sem skuldari þarf að gera í greiðsluskjóli:

 • Leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem skuldari þarf til framfærslu fyrir sig og fjölskyldu sína, sbr. útreiknaða greiðslugetu sem tilgreind er í ákvörðun um samþykkt umsóknar. Ef af einhverjum ástæðum forsendur útreiknings breytast, t.d. tekjur eða útgjöld, skal aðlaga greiðslugetu að breyttum forsendum og láta umsjónarmann vita um breytingarnar.
 • Skuldari þarf að stofna eða velja ákveðinn bankareikning í þessum tilgangi. Ef þörf er á, stofna nýjan bankareikning í samráði við bankastofnun ef bankareikningi með yfirdráttarheimild er lokað í kjölfar greiðsluskjóls.
 • Ef það á við, þarf að tilkynna launagreiðanda um nýja reikninginn.
 • Ef þörf er á, sækja um fyrirframgreitt kreditkort þar sem öllum kreditkortum er lokað í kjölfar greiðsluskjóls. Segja upp samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru og þjónustu sem er nauðsynleg til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds.
 • Láta umsjónarmann strax vita ef einhverjar breytingar verða á högum skuldara, t.d. varðandi tekjur, útgjöld, lögheimili, fjölskyldustærð eða lögskilnað.
 • Skuldari er eindregið hvattur til að hafa strax samband við viðskiptabanka/kreditkortafyrirtæki og gera ráðstafanir varðandi launareikning og kreditkort.

Það sem skuldari má ekki gera í greiðsluskjóli:

 • Skuldari má ekki láta af hendi, selja eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta kröfuhöfum sem greiðsla. Í þessu felst m.a. að skuldari má ekki endurgreiða lán frá ættingjum eða vinum eða aðstoða aðra fjárhagslega.
 • Ef skuldari fær tilboð í eignir á meðan greiðsluskjól varir skal hann hafa samband við embættið og fá leiðbeiningar um næstu skref. Skuldari má ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbindingin sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Það sem skuldari má greiða í greiðsluskjóli:

 • Það sem tengist daglegum rekstri heimilisins. Nota skal framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað telst eðlilegur kostnaður miðað við fjölskyldustærð. 

 • Það sem tengist rekstri húsnæðis, s.s. kröfur vegna fasteignagjalda, hússjóðs, trygginga, hita, rafmagns og kostnað vegna símanotkunar. Ekki skal greiða eldri vanskil, heldur eingöngu kröfur sem falla á gjalddaga í greiðsluskjóli.

 • Öll opinber gjöld og meðlag. Ekki skal greiða eldri vanskil, heldur eingöngu kröfur sem falla á gjalddaga í greiðsluskjóli.

 • Kröfur sem falla til í greiðsluskjóli vegna framfærslu og nauðsynlegra útgjalda, t.d. tannlæknakostnaður, leikskólagjöld, krafa vegna viðgerðar á bifreið o. þ. h. Ekki skal greiða kröfur sem eru gjaldfallnar þegar greiðsluskjól hefst.

 •  Vakin skal athygli á því að frestun greiðslna tekur ekki til krafna sem verða til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er samþykkt.

Hvað má skuldari ekki greiða í greiðsluskjóli:

 • Afborganir lána, t.d. fasteignalána, bílalána eða námslána sem skuldari hefur tekist á hendur áður en greiðsluskjól hófst. Ekkert er því greitt af slíkum lánum í greiðsluskjóli. Þetta á við hvort sem lán eru í skilum eða vanskilum.

 • Afborganir bílasamnings sem gerður var áður en greiðsluskjól hófst. Ekkert er því greitt af slíkum bílasamningi í greiðsluskjóli.

 • Yfirdráttarskuld sem var tilkomin áður en greiðsluskjól hófst.

 • Kreditkortareikningur sem féll á gjalddaga áður en greiðsluskjól hófst.

 • Meðlagsgreiðslur sem féllu á gjalddaga áður en greiðsluskjól hófst.

 • Afborganir námsláns sem féllu á gjalddaga áður en greiðsluskjól hófst.

 • Skattaskuldir sem voru gjaldfallnar áður en greiðsluskjól hófst.

 • Aðrar kröfur sem voru gjaldfallnar áður en greiðsluskjól hófst.

Embættið hvetur skuldara til að hafa ávallt samband við umsjónarmann ef hann er í vafa um hvað beri að greiða í greiðsluskjóli.

Skyldur kröfuhafa meðan á frestun greiðslna varir

Það sem kröfuhafi má ekki gera:

 • Krefjast eða taka við greiðslum á kröfum sínum.

 • Gjaldfella skuld samkvæmt samningsbundnum heimildum.

 • Gera fjárnám, kyrrsetningu eða löggeymslu í eigum skuldarans eða fá þær seldar nauðungarsölu.

 • Fá bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta.

 • Krefja ábyrgðarmenn um greiðslu skulda eða ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu kröfu.

 • Ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu krafna sem tryggðar eru með lánsveði.

 • Neita að afhenda, gegn staðgreiðslu eða viðunandi tryggingum, vöru eða þjónustu sem skuldari þarf á að halda vegna framfærslu, vegna fyrri vanefnda. Hér er átt við þjónustu vegna hita, rafmagns, net- og símaþjónustu, veitingu trygginga vegna bifreiða eða heimilis o.s.frv.  Skuldara ber að greiða áfallandi reikninga vegna þessarar þjónustu

Það sem viðskiptabankinn/kröfuhafinn mun gera:

 • Loka öllum reikningum sem eru með yfirdráttarheimild.

 • Stofna, að beiðni skuldara, debetkort með takmörkuðum notkunareiginleikum.

 • Loka öllum kreditkortum nema fyrirframgreiddum plúskortum.

 • Hætta öllum innheimtuaðgerðum.

 • Hætta að senda greiðsluseðla (þess má geta að greiðsluseðlar geta í einhverjum tilfellum birst í netbanka).

 • Fella niður allar beingreiðslur/ sjálfvirkar skuldfærslur.

 • Gjaldfella fjölgreiðslur á kreditkortum.

 • Loka greiðsluþjónustu.

Meðferð krafna í greiðsluskjóli 

Hækka kröfur í greiðsluskjóli ? 

 • Meðan á frestun greiðslna stendur falla ekki dráttarvextir á kröfur.
 • Almennir vextir skv. samningsskilmálum falla kröfur í greiðsluskjóli.
 • Óheimilt er að leggja á kröfur í greiðsluskjóli hverskonar vanskilagjöld eða innheimtukostnað, gildir þetta óháð niðurstöðu greiðsluaðlögunarumleitana.
 • Sá tími sem greiðsluskjól varir er undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti allra krafna sem greiðsluskjól tekur til. Kröfur sem skuldara er óheimilt að greiða af í greiðsluskjóli hvort heldur er kröfur sem standa innan eða utan úrræðis fyrnast ekki á meðan greiðsluskjól varir.
 • Taki kröfuhafi við greiðslu sem honum er óheimilt að taka við meðan greiðsluskjól varir er honum skylt að endurgreiða hana nema um fésekt sé að ræða.
 • Ábyrgðarmanni skuldara og samskuldara er heimilt að greiða af kröfum á meðan greiðsluskjól varir og ber kröfuhöfum að taka við slíkum greiðslum.
 • Ef greiðsluaðlögunarmáli lýkur án samnings, þá verða ógreiddar afborganir veðláns meðan frestun greiðslna stóð yfir, innheimtar.
 • Kröfur geta hækkað meðan frestun greiðslna varir.
 • Hægt er að fá nánari upplýsingar hjá umboðsmanni skuldara eða umsjónarmanni, hafi umsókn verið samþykkt.