Fara í efni

Fróðleikur um gjaldþrotaskipti

GjaldþrotGjaldþrot einstaklinga

Að fara í gegnum gjaldþrot hefur áhrif á líf þess sem það gerir, það er því mikilvægt að kynna sér vel hvað felst í því að verða gjaldþrota. 

Oft er hægt að leysa skuldavanda án gjaldþrots. Umboðsmaður skuldara getur veitt upplýsingar og ráðleggingar um þau úrræði sem gætu leyst fjárhagsvanda sem einstaklingar standa frammi fyrir.

 

Hvað er gjaldþrot ? 

Gjaldþrot felur í sér að andvirði eigna þrotamanns er ráðstafað til að greiða skuldir. Ef engar eignir eru til staðar, getur gjaldþrotaskiptum lokið án þess að nokkuð fáist greitt upp í skuldir. Skuldari getur sjálfur krafist skipta á búi sínu eða kröfuhafar.

Beiðni um gjaldþrotaskipti

 • Skuldari getur krafist að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.
 • Krafa um gjaldþrotaskipti skal vera skrifleg og henni skal beint til þess héraðsdómstóls þar sem skuldari hefur lögheimili sitt eða dvalarstað, ef hann er annar en lögheimili.
 • Í kröfugerðinni skal m.a. koma fram:
 1. Að skuldari krefjist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta og að krafan styðjist við 64. gr. laga nr. 21/1991
 2. Fullt nafn skuldara og kennitala hans
 3. Lögheimili skuldara og dvalarstaður, ef hann er annar en lögheimili
 4. Stundar skuldari atvinnurekstur? Ef svarið er já þarf að koma fram:
  1. Stutt lýsing á því um hvernig rekstur er að ræða 
  2. Hvar reksturinn fer fram
  3. Hvort um er að ræða firma sem ber sérstakt heiti og kennitölu
 5. Skýr lýsing á málsatvikum og rökum skuldara, þ.e. hvernig fjárhagur skuldara hafi komist í það horf að hann telur rétt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu
 6. Sundurliðaðar upplýsingar um eignir og skuldir skuldara. Taka þarf fram hve mikill hluti skulda er gjaldfallinn/í vanskilum
 7. Mánaðarlegar tekjur og útgjöld og hve mikið sé eftir í hverjum mánuði til að greiða af skuldum

Kröfu um gjaldþrotaskipti þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á að skuldari geti ekki staðið í skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur falla á gjalddaga. Gögn sem ber að leggja fram eru t.d. síðasta skattframtal ásamt staðgreiðsluyfirliti eða launaseðlum fyrir þá mánuði sem hafa ekki verið taldir fram á framtali, greiðsluseðlar og endurrit úr gerðabók sýslumanns þar sem fram kemur að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá skuldara (ef við á).

Krafan ásamt fylgigögnum skal vera í tvíriti.

Kostnaður við gjaldþrotaskipti

 • Héraðsdómari getur krafið þann sem krefst gjaldþrotaskipta um 280.000 kr. í tryggingu fyrir skiptakostnaði, ef ekki er ljóst að eignir skuldarans muni nægja fyrir greiðslu skiptakostnaðar.
 • Þegar krafa er lögð fram um gjaldþrotaskipti þarf jafnframt að greiða 20.000 kr. gjald í ríkissjóð.
 • Krefjist skuldari sjálfur gjaldþrotaskipta getur hann sótt um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar hjá umboðsmanni skuldara, sjá hér. Uppfylla þarf ákveðin lagaleg skilyrði til að fá umsókn samþykkta.
 • Þegar kröfuhafi óskar gjaldþrotaskipta á búi skuldara þarf hann sjálfur að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði ef þess er krafist. Vakin skal athygli á umfjöllun um gjaldþrotaskipti á vefsíðu Skattsins.

Málsmeðferð fyrir héraðsdómi

Þegar skuldari óskar sjálfur eftir skiptum á búi sínu, mun dómari fara yfir kröfu hans og fylgigögn. Dómari getur krafist þess að skuldari leggi fram frekari gögn ef fyrirliggjandi upplýsingar skýra ekki málið nægilega. Ef dómari telur skilyrði til gjaldþrotaskipta vera uppfyllt, er skuldari boðaður til þinghalds þar sem dómari kveður upp úrskurð um gjaldþrotaskiptin. Skuldari verður að mæta í það þinghald sjálfur eða lögmaður hans samkvæmt umboði. Vakin skal athygli á því að aðrir, eins og fjölskyldumeðlimir, geta ekki mætt fyrir hönd skuldara. Ef skuldari eða lögmaður fyrir hans hönd mæta ekki í þinghald, telst krafan afturkölluð.

Framkvæmd gjaldþrotaskipta

Þegar búið er að úrskurða

 • Þegar skuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota verður til sérstakur lögaðili, þ.e. þrotabú, sem tekur við fjárhagslegum réttindum og skyldum skuldara. Við úrskurðinn falla allar kröfur á hendur þrotabúi í gjalddaga.
 • Allar eignir og skuldir umsækjanda tilheyra þannig þrotabúinu á meðan gjaldþrotaskiptum stendur.
 • Í kjölfar gjaldþrotaúrskurðar skipar héraðsdómari skiptastjóra sem fer með forræði búsins og tekur skiptameðferð alla jafna nokkra mánuði. Ef skiptameðferð dregst á langinn, skal hafa samband við skiptastjóra.

Aðgerðir skiptastjóra:

 • Skiptastjóri gerir svokallaða innköllun þar sem hann skorar á kröfuhafa skuldara að lýsa kröfum í þrotabúið.
 • Skiptastjóri kannar hvort riftanlegar ráðstafanir hafi átt sér stað í aðdraganda gjaldþrots, t.d. undanskot eigna.
 • Þá tekur skiptastjóri ákvarðanir um hvernig eignum og réttindum þess verði ráðstafað, þ. á m. hvernig og hverjum þær verði seldar og gegn hverju verði. Í lokin er andvirði eignanna, ef einhverjar voru, varið til greiðslu á skuldum búsins.

Skiptastjóri starfar í raun í umboði kröfuhafa og honum ber að gæta hagsmuna þeirra í störfum sínum við uppgjör þrotabúsins.

Hvað verður um tekjur skuldara á meðan á skiptameðferð stendur?

 • Vinnulaun sem skuldari vinnur sér inn meðan á gjaldþrotaskiptum stendur renna til hans sjálfs en ekki þrotabúsins. Sama gildir um arfgreiðslur, dánargjafir, dánarbeðsgjafir og lífsgjafir ef arfleifandi hefur ákveðið þá undanþágu á lögmætan hátt.
 • Það sem skuldari aflar sér með tilgreindum tekjum fellur einnig til skuldara. Önnur fjárhagsleg réttindi sem hefðu almennt fallið til skuldara falla til þrotabúsins á meðan skiptum stendur.

Hvernig fer með eignir skuldara á meðan á gjaldþrotaskiptum stendur?

 • Meginreglan er sú að þrotabúið tekur við öllum fjárhagslegum réttindum (eignum) sem skuldari átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðar. Skiptastjóri skal tafarlaust eftir skipun sína gera ráðstafanir til að svipta skuldara umráðum eigna.
 • Skuldari fær þrátt fyrir gjaldþrotaskiptin að halda eftir þeim eignum sem ekki verður gert fjárnám í.

Eftirfarandi eignir eru undanþegnar:

 1. Fyrirframgreiðsla framfærslueyris, ef féð er sérgreint í vörslum skuldara og sá tími er ókominn, sem greiðslan er fyrir. 
 2. Eingreiðsla bóta fyrir varanlega örorku eða fyrir missi hans á framfæranda, ef féð er sérgreint í vörslum hans og sá tími er ókominn, sem bótafénu er ætlað að bæta tjón hans fyrir. 
 3. Peningaeign sem er nauðsynleg til að standa straum af kostnaði um skamman tíma af framfærslu skuldara og þeirra, sem hann er framfærsluskyldur við. 
 4. Lausafjármunir sem eru nauðsynlegir skuldara til að halda látlaust heimili með þeim hætti sem almennt gerist.
 5. Munir með verulegt minjagildi nema undanþága sé talin ósanngjörn gagnvart gerðarbeiðanda. 
 6. Nauðsynlegir lausafjármunir vegna örorku eða heilsubrests.
 7. Námsgögn. 
 8. Muni sem notast til atvinnu. Verðmæti getur þó í mesta lagi verið 50.000 kr. að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.

Skiptastjóra er heimilt að leyfa skuldara að leigja fasteign af þrotabúinu í allt að tólf mánuði.

Samskipti skuldara við skiptastjóra

 • Skuldara ber undir skiptunum að mæta á fundi sem skiptastjóri boðar hann á og veita upplýsingar og gögn sem skiptastjóri krefst vegna skiptanna. Skuldara ber að afhenda skiptastjóra eignir sem tilheyra þrotabúinu og nauðsynleg gögn, t.d. bókhaldsgögn.
 • Þá ber skuldara að vera tiltækur á meðan gjaldþrotaskiptum stendur ef nærvera hans er nauðsynleg vegna athugunar á fjárráðum þrotabúsins eða ráðstöfunum skuldara fyrir gjaldþrotaskiptin.

Hvernig fer með bankareikninga á meðan á skiptum stendur ? 

 • Strax í kjölfar þess að úrskurður er kveðinn upp um gjaldþrotaskipti, mun skiptastjóri óska eftir að öllum reikningum og greiðslukortum skuldara sé lokað.
 • Skuldari getur síðan að öllu jöfnu stofnað að nýju innlánsreikninga án heimildar eða fengið fyrirframgreitt kreditkort, yfirleitt þó að fengnu samþykki skiptastjóra meðan bú hans er til skiptameðferðar.

Ýmsar ráðstafanir skiptastjóra

 • Skiptastjóri getur óskað eftir því að skuldari sé tekinn af launagreiðendaskrá og að virðisaukaskattsnúmeri hans sé lokað.
 • Þrotabúið getur sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum hætti eða sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur sé ákveðinn í samningnum eða hann sé óuppsegjanlegur, nema samningnum hafi verið þinglýst eða hann skráður opinberlega með hliðstæðum hætti.
 • Skiptastjóri yfirtekur hlut skuldara í félagi og leitast við að koma honum í verð.

Hvernig lýkur gjaldþrotaskiptum? 

 • Gjaldþrotaskiptum getur lokið með úthlutun fjármuna til kröfuhafa ef eignir eru í búinu. Þá getur gjaldþrotaskiptum lokið án úthlutunar ef engar eignir var að finna í þrotabúinu.  

Staða skuldara eftir að skiptum lýkur 

 • Skuldir sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast (falla niður) þegar 2 ár eru liðin frá lokum skiptanna, nema fyrningu sé slitið.  
 • Vakin skal athygli á að kröfur Menntasjóðs námsmanna eru skv. 26. gr. laga um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020  undanskildar ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um lengd fyrningarfrests, sérreglur þeirra um slit fyrningar gilda ekki um námslán.
 • Skuldari ber í tvö ár áfram ábyrgð á greiðslu þeirra skulda sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Skuldari getur sjálfur slitið fyrningu með greiðslu.
 • Vakin skal athygli á því að Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra getur tekið ákvörðun um að vararefsingu fésektar verði beitt á 2 ára fyrningartíma, séu innheimtuaðgerðir þýðingarlausar eða fullreyndar.
Slit á fyrningu ? 
 • Kröfuhafi getur aðeins slitið fyrningu með því að fá dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum. Með fyrningarslitum hefst nýr fyrningarfrestur skv. reglum laga.
 • Til að fá slíkan dóm þarf kröfuhafi að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu og að líklegt megi telja að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. 
 • Ef fyrning er ekki rofin með dómi falla allar skuldir, sem ekki fengust greiddar við gjaldþrotaskiptin, niður að liðnum tveimur árum frá skiptalokum. Þetta á þó ekki við ef skuldari hefur sjálfur slitið fyrningu með greiðslu eða viðurkenningu skuldar, sbr. neðangreinda umfjöllun.
 • Vakin skal athygli á að kröfur Menntasjóðs námsmanna eru skv. 26. gr. laga um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020 undanskildar ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um lengd fyrningarfrests, sérreglur þeirra um slit fyrningar gilda ekki um námslán.

Embættið vill benda á að ef kröfuhafi höfðar slíkt viðurkenningarmál til slita á fyrningu kröfu, þarf skuldari að taka til varna í málinu, svo það verði ekki dæmt sjálfkrafa eftir dómkröfum kröfuhafans.

Athygli skal vakin á dómi Hæstaréttar í máli nr. 119/2016. Í dóminum er fjallað um lagabreytinguna árið 2010, þegar fyrningarfrestur krafna við gjaldþrot var styttur í tvö ár. Vísað er til þess að lagabreytingin hafi falið í sér takmörkun á einhliða rétti kröfuhafa til þess að rjúfa fyrningu án tillits til vilja skuldara.
Í dóminum segir svo:
,,Með henni var hins vegar engin breyting gerð á því með hvaða hætti skuldari getur rofið fyrningu kröfu á hendur sér....".
Að mati Hæstaréttar, rauf þrotamaður fyrningu kröfunnar, með fyrirvaralausri afborgun af námsláni eftir skiptalok og við tók nýr fyrningarfrestur. Samkvæmt þessum dómi getur skuldari sjálfur slitið fyrningu kröfu eftir gjaldþrot, með því að viðurkenna skuldina eða greiða inn á hana. Kröfuhafar geta gert eignakannanir hjá skuldara í tvö ár eftir gjaldþrotaskiptin og ef skuldari eignast hluti eða réttindi sem hafa fjárhagslegt gildi geta þeir gert fjárnám í hlutunum. Ef skuldari eignast á þessu tveggja ára tímabili eign og lánardrottinn gerir fjárnám í henni þá fyrnist ekki sá hluti kröfu hans sem greiðist af andvirði þess sem fjárnám var gert í. Sá hluti kröfunnar sem greiðist ekki af andvirði eignarinnar myndi á hinn bóginn fyrnast við lok þessa tveggja ára tímabils. 
 
Launaafdráttur í kjölfar gjaldþrots

Innheimtumenn ríkissjóðs, þ.e. Tollstjóri og sýslumenn, hafa heimildir, á 2 ára fyrningartíma, til launaafdráttar hjá vinnuveitanda allt að 75% ef um skuldir á þing- og sveitarsjóðsgjöldum eru að ræða. Þing- og sveitasjóðsgjöld eru m.a. tekjuskattur, útsvar, framkvæmdasjóður aldraðra, sérstakur tekjuskattur, fjármagnstekjuskattur, slysatrygging við heimilisstörf, ofgreiddar barnabætur og ofgreiddar vaxtabætur.

Innheimtumenn ríkissjóðs hafa einnig heimild til makainnheimtu en það er sérstök ábyrgðarregla sem gildir um greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda. Reglan felur í sér að hjón eða samskattað sambúðarfólk bera sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda. Ábyrgðin gildir um skuldir sem myndast á þeim árum sem samsköttun varir.

Sýslumaðurinn á Norðurlandri vestra hefur heimild, á 2 ára fyrningartíma, til launaafdráttar hjá vinnuveitanda allt að 50% af launum ef um meðlagsskuldir er að ræða.

Greiðslur með skuldajöfnuði og launaafdrætti rjúfa ekki fyrningu kröfu.

Vakin skal athygli á því að ef gert er greiðslusamkomulag hjá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra til lækkunar á launaafdrætti þá getur slíkt samkomulag og greiðslur í samræmi við það slitið fyrningu á 2 ára fyrningartíma, nema gerður sé skriflegur fyrirvari um að ekki sé verið að viðurkenna skuld og óskað eftir sérstakri ráðstöfun greiðslna (ef hægt er), inn á áfallandi greiðslur eftir gjaldþrotið. Gott er að fá staðfest skriflega að greiðslur slíti ekki fyrningu.

Hafi greiðslusamkomulag verið gert við Sýslumanninn á Norðurlandi vestra áður en leitað var gjaldþrotaskipta, er hægt að óska eftir að greiðslur í samræmi við það fari ekki inn á eldri skuld eftir gjaldþrotið, heldur inn á áfallandi meðlagsgreiðslur, svo fyrningu sé ekki slitið.

Hægt er að fá nánari upplýsingar hjá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra og hjá innheimtumönnum ríkissjóðs.

Áhrif gjaldþrots
 • Úrskurður um gjaldþrotaskipti er skráður á vanskilaskrá Creditinfo og hefur áhrif á lánshæfismat sem fyrirtækið gefur út, í tiltekinn tíma.
 • Viðskiptabanki skuldara getur skráð gjaldþrotið í viðskiptasögu viðkomandi sem hefur neikvæð áhrif á lánshæfismat hans hjá bankanum. Óski skuldari eftir fyrirgreiðslu að nýju eftir gjaldþrot, er framkvæmt einstaklingsbundið mat þar sem ýmsir þættir koma til skoðunar, s.s. greiðslugeta skv. greiðslumati, tryggingar, umfang gjaldþrotaskiptanna, sá tími sem liðinn er frá gjaldþrotaskiptum o.fl.
 • Kröfuhafar geta gert eignakannanir til að sjá hvort hægt sé að gera fjárnám í eignum til að láta ganga upp í skuldir.
 • Þrátt fyrir að kröfuhafar geti ekki slitið fyrningu nema með viðurkenningardómi, þá getur þeir haldið áfram innheimtu á tveggja ára fyrningartíma. Kröfuhafar/innheimtuaðilar meta hvort þeir innheimta kröfur sínar erlendis á hendur skuldurum eftir gjaldþrot og á meðan fyrningartími stendur yfir. 
 • Ábyrgðarskuldbindingar verða virkar í kjölfar gjaldþrots. Kröfuhafar geta því hafið innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum og gera það alla jafna áður en tveggja ára fyrningarfresturinn er liðinn. Ljóst er þó samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 507/2016 að tveggja ára fyrningarreglan getur átt við gagnvart ábyrgðarmanni. Samkvæmt niðurstöðunni var ekki hægt að hefja innheimtu á hendur ábyrgðarmanni þegar krafan var fallin niður fyrir fyrningu gagnvart aðalskuldara. Í þessu sambandi þarf að skoða hvenær ábyrgðin var veitt, m.t.t. hvort reglur laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, gilda.
 • Vakin skal athygli á því að ef skuldari vill ekki að innheimta hefjist á hendur ábyrgðarmanni námsláns hjá Menntasjóði námsmanna getur hann samið við Menntasjóð námsmanna um að draga gjaldfellingu lánsins til baka og hafið greiðslur með hefðbundnum hætti. Um leið og skuldari greiðir af námsláni slítur hann fyrningu.