Fara í efni

Spurt og svarað

 Fyrning krafna 

Almennur fyrningarfrestur

  • Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár. Meginregla þessi gildir um kröfuréttindi nema annað komi sérstaklega fram í lögum og tekur hún til langflestra krafna. Vakin skal athygli á því að kröfur samkvæmt skuldabréfi eða kröfur sem byggjast á peningalánum fyrnast almennt á tíu árum. Sá fyrningarfrestur gildir þó ekki um vexti og verðbætur. Upphaf fyrningarfrests miðast almennt við þann dag þegar kröfuhafi átti fyrst rétt á því að skuldari efndi skuld sína en það er yfirleitt á gjalddaga.

Slit fyrningar

  • Kröfuhafi getur rofið fyrningarfrest með því að leggja inn fjárnáms- eða nauðungarsölubeiðni hjá sýslumanni, beiðni um gjaldþrotaskipti, kröfulýsingu í þrotabú eða með málsókn. Hefst þá nýr fyrningarfrestur. Þá getur skuldari rofið fyrningu kröfu með viðurkenningu á henni en það getur gerst með greiðslu inn á kröfuna eða með gerð samkomulags um greiðslur af kröfunni. Greiðslur með skuldajöfnuði og launaafdrætti rjúfa hins vegar ekki fyrningu kröfu. (Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Tollstjóra: http://www.tollur.is/) Fyrning verður heldur ekki rofin með því einu að senda skuldara greiðsluáskorun eða með innheimtutilkynningu frá innheimtufyrirtækjum. 

Fyrning eftir gjaldþrot

  • Kröfur sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast á tveimur árum frá lokum skiptanna. Þá gildir sú sérregla í tengslum við gjaldþrotaskipti að kröfuhafi getur aðeins slitið fyrningunni með viðurkenningardómi. Til að fá slíkan dóm þarf kröfuhafi að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu og að líklegt megi telja að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Ef skuldari eignast eitthvað á þessu tveggja ára tímabili getur kröfuhafi gert fjárnám í viðkomandi eign á tveggja ára tímabilinu og fyrnist þá skuldin ekki að því leyti sem eignin dugar fyrir greiðslu hennar. ATH. Skuldari getur hins vegar slitið sjálfur fyrningu krafna eftir gjaldþrot samkvæmt almennum reglum, sjá nánar í umfjöllun um stöðu skuldara eftir gjaldþrot .
  • Vakin skal athygli á því að 2 ára fyrningarfrestur og sérreglur um slit fyrningar, gilda ekki um kröfur Menntasjóðs námsmanna en um þær kröfur gilda ákvæði laga um fyrningu kröfuréttinda.

Hvað er lánshæfismat ?

Í lögum um neytendalán nr. 33/2013  er lánshæfismat skilgreint sem mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki get efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Lánshæfismat felur ekki í sér greiðslumat nema slíkt sé áskilið sérstaklega.

Hvað er greiðslumat?

Í lögum um neytendalán nr. 33/2013 er greiðslumat skilgreint sem útreikningur á greiðslugetu lántaka miðað við eignir, skuldir, gjöld og tekjur, sem m.a. byggjast á opinberum neysluviðmiðum.

 Hvað er vanskilaskrá ? 

Fyrirtækið Creditinfo hefur starfsleyfi frá Persónuvernd, til að safna og skrá upplýsingar er varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra. Creditinfo heldur utan um svokallaða vanskilaskrá, sem er með upplýsingar um vanskil einstaklinga, ásamt upplýsingum um innheimtuaðgerðir. Þeir aðilar sem eru með áskriftarsamning við Creditinfo, geta óskað eftir skráningu á vanskilaskrá en þá þurfa vanskil að hafa staðið yfir í a.m.k. 40 daga og fjárhæðin að nema 50.000 kr. að lágmarki hjá einstaklingum. Hægt er þó að skrá árangurslaus fjárnám og gjaldþrotaúrskurði án tillits til fjárhæða. Tilgangur vanskilaskrár er m.a. að veita lánveitendum færi á að kanna stöðu einstaklinga áður en lánaumsókn eða reikningsviðskipti eru samþykkt. Hægt er að fá nánari upplýsingar á vefsíðu Creditinfo.

Hvenær er færsla afskráð af vanskilaskrá ? 

Færsla er afskráð þegar staðfesting um uppgjör kröfunnar berst Creditinfo. Þá afskrást færslur eftir fjögur ár frá heimildardagsetningu en það er sú dagsetning sem stefna er árituð eða árangurslaust fjárnám er framkvæmt. Þegar bú einstaklings hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, þá er færsla um gjaldþrotið afskráð eftir tvö ár frá dagsetningu skiptaloka ( skv. heimasíðu Creditinfo ).

Get ég sótt um undanþágu frá greiðslu afborgunar hjá Menntasjóði námsmanna ?

Já, undanþága frá afborgun kemur til álita þegar lánshæft nám, atvinnuleysi, örorka, veikindi, þungun, ummönnun barna (fæðingarorlof), umönnun maka (umönnunarbætur) eða aðrar sambærilegar aðstæður valda verulegum fjárhagserfiðleikum.

Almennt er miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega 2019 eru yfir 4.470.000 kr. og árstekjur hjóna/sambúðarfólks  eru yfir 8.940.000 kr. Nánari upplýsingar má fá hjá Menntasjóði námsmanna.