Fara í efni

Um framfærsluviðmiðin

 Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara

 

Viðmiðin, utan að hluta til viðmiða fyrir samgöngukostnað, eru reiknuð með gögnum frá Hagstofu Íslands. Hagstofan hefur hefur frá árinu 2000 staðið fyrir útgjaldarannsókn. Rannsóknin fer þannig fram að árinu er skipt niður í 26 tveggja vikna tímabil og fyrir hvert tímabil er valið úrtak 47 heimila af handahófi, samtals 1.222 heimili á ári. Þau heimili sem samþykkja þátttöku í könnuninni halda nákvæmt heimilisbókhald í tvær vikur og svara svo spurningalistum varðandi tækjaeign á heimilinu og stærri útgjöld á þriggja mánaða tímabili. Viðmiðin taka því mið af raunútgjöldum íslenskra heimila. Gagnagrunnurinn sem viðmiðin byggja á núna innheldur svör 4.713 heimila.

Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara eru sjö talsins og er nánar hægt að lesa um hvert og eitt hér fyrir neðan.

1. Matur og hreinlætisvörur

Neysluvörur sem falla undir þennan flokk eru: allur matur, drykkir aðrir en áfengir drykkir, óvaranlegar heimilisvörur, til dæmis hreingerningavörur og hreinlætis- og snyrtivörur. Viðmiðið er reiknað sem miðgildi útgjalda fyrir hverja fjölskyldugerð. Það þýðir að 50% heimila notar viðmiðunarupphæðina eða lægri upphæð til innkaupa á vörum sem falla undir þennan flokk.

Matur

 • Brauð og kornvörur: Hrísgrjón, brauð, pasta, hveiti, haframjöl, annað mjöl, sætabrauð, kökur, flatkökur, tvíbökur, hrökkbrauð, kex, morgunverðarkorn, barnamatur úr kornblöndu, rasp, snakk úr korni, poppkorn, poppmaís.
 • Kjöt: Nautakjöt nýtt, kálfakjöt nýtt, svínakjöt nýtt, dilkakjöt nýtt, fuglakjöt nýtt, annað nýtt kjöt, unnið kjöt, reykt og saltað, innmatur, pylsur, bjúgu, álegg og annað unnið kjöt.
 • Fiskur: Nýr fiskur, saltfiskur, reyktur fiskur, harðfiskur, rækjur og annar skelfiskur, marineruð síld, fiskhakk, niður-soðnar fiskafurðir, graflax, kavíar, fiskréttir.
 • Mjólk, ostar og egg: Nýmjólk, léttmjólk, fjörmjólk, undanrenna, þurrmjólk, súrmjólk, skyr, jógúrt, þykkmjólk, abt-mjólk o.þ.h., rjómi, sýrður rjómi, kókómjólk, ostar og egg.
 • Olíur og feitmeti: Smjör, smjörvi o.þ.h., smjörlíki, olíur.
 • Ávextir: Nýjir ávextir, þurrkaðir ávextir, frosnir ávextir, niður-soðnir ávextir, hnetur. 
 • Grænmeti, kartöflur o.fl.: Nýtt grænmeti, þurrkað grænmeti, frosið grænmeti, niðursoðið grænmeti, kartöflur nýjar, franskar kartöflur frosnar, kartöflumús í pökkum, kartöflusnakk.
 • Sykur, súkkulaði, sælgæti o.fl.: Strásykur, púðursykur, molasykur, flórsykur, sætuefni, sultur, marmelaði, hunang, síróp, suðusúkkulaði, súkkulaði, sælgæti, ís.
 • Aðrar matvörur: Tómatsósa, sinnep, majones, sósur, ídýfur, salt, krydd, súpur, tilbúin salöt.
  Drykkjarvörur:
  • Kaffi, te og kakó: Kaffi, te, kakómalt, kakó.
  • Gosdrykkir, safar og vatn: Gosdrykkir, kolsýrt vatn, vatn, ávaxtasafar, grænmetis-safar.

Óvaranlegar heimilisvörur

 • Hreingerningarvörur og aðrar óvaranlegar heimilisvörur: Þvottaefni, mýkingarefni, uppþvottalögur, sótthreinsandi bleikiefni, ræstiefni ýmiskonar, gluggahreinsiefni, fægilögur, bón, skóáburður, pokar, plastfilmur, kerti, servéttur, eldhúsrúllur, pappírsílát, uppþvottaburstar, gúmmíhanskar, kústar, lím og límband.

Hreinlætis og snyrtivörur

Hreinlætisvörur, snyrtivörur og snyrtiáhöld: Tannkrem, sápur, sjampó, hárnæring, hárgel, hárlakk, ilmvötn, rakspírar, svitalyktareyðir, andlitsfarði, raksápa og rakfroða, andlitskrem, húðmjólk, naglalökk, baðvörur, tannburstar, rakáhöld, naglaklippur, hárburstar, rafmagnstannburstar, hárblásarar, krullujárn, sléttujárn, rafmagnsrakvélar og önnur rafmagnssnyrtitæki ætluð til persónulegra nota. Kostnaður við bleyjur bætist við vegna hvers barns á heimilinu undir þriggja ára aldri. 

2. Föt og skór

Neysluvörur sem falla undir þennan flokk eru: fatnaður og skór, fylgihlutir, fataefni og leiga, hreinsun og viðgerðir á fatnaði auk skóviðgerða. Viðmiðið er reiknað sem 33% hlutfallsmark fyrir fullorðna. Það þýðir að 33% heimila notar viðmiðunarupphæðina eða lægri upphæð til innkaupa á vörum sem falla undir þennan flokk fyrir fullorðna. Fyrir börn er viðmiðið reiknað sem miðgildi, þ.e. 50% heimila notar viðmiðunarupphæðina eða lægri upphæð til innkaupa á vörum sem falla undir þennan flokk fyrir börn.

Föt

Hversdagsföt, spariföt, íþrótta og útivistarföt, sundföt, hanskar, vettlingar, húfur, treflar, ýmsir fylgihlutir fatnaðar, garn og tvinni, fataefni, fatahreinsun, fataleiga, fataviðgerðir.

Skór

Skór og skóviðgerðir.

3.  Lækniskostnaður og lyf

 • Neysluvörur sem falla undir þennan flokk eru annars vegar lyf og lækningavörur og hins vegar kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu. Undir  lyf og lækningavörur flokkast allar vörur sem ætlað er að bæta heilsu, líkamlegt ástand og hæfni, þ.m.t. vítamín og bætiefni. Undir heilbrigðisþjónustu flokkast lækniskostnaður hverrar tegundar sem er, sjúkraþjálfun og endurhæfing, sjúkrahúsvist, heilsuhæli og sjúkrabílar. Viðmiðið er reiknað sem miðgildi útgjalda fyrir hverja fjölskyldugerð. Það þýðir að 50% heimila notar viðmiðunarupphæðina eða lægri upphæð til innkaupa á vörum sem falla undir þennan flokk.

Lyf og lækningavörur

 • Lyf, vítamín, sjúkrakassar, plástur o.þ.h.,  linsur, linsuvökvi, gleraugu, heyrnartæki, stoðtæki og fylgihlutir þeirra

Heilsugæsla

 • Heimilislæknar, sérfræðingar, tannviðgerðir, tannréttingar, rannsóknir og myndatökur, sjúkraþjálfun og endurhæfing. Sjúkrahús, heilsuhæli og sjúkrabílar.

4. Tómstundir

Neysluvörur sem falla undir þennan flokk eru: tónlistar og myndefni, tómstundavörur, blóm og garðyrkja, gæludýr, íþróttir og tómstundaiðkun, menningarmál t.d. kvikmyndahús, leikhús og áskriftir að sjónvarpsstöðvum, bækur, pappír og ritföng.  Við gerð viðmiðsins var litið til þess hvort útgjaldaliðurinn væri vegna barna, hvort útgjaldaliðurinn væri nauðsynlegur til að fólk gæti verið samfélagslega virkt og tekið þátt í félagslegum athöfnum og hvort útgjöldin væru almenn og hófleg, þ.e. hvort líklegt væri að meira en helmingur fólks notaði vöruna eða þjónustuna. Enn fremur var horft til staðkvæmdar milli einstakra útgjaldaliða til að koma til móts við mismunandi áhugamál fólks. Umboðsmaður skuldara setur þak á þennan flokk. Þannig getur upphæðin aldrei orðið hærri en sem nemur viðmiði fyrir fjölskyldur með þrjú börn.

Tónlistar og myndefni

 • Hljómplötur, geisladiskar, myndbönd, mynddiskar, filmur og spólur.

Tómstundavörur, leikföng o.fl.

 • Leikföng og spil, leikjavörur og tæki sem tengd eru við sjónvarp, myndaalbúm, jólaskraut, afmælisvörur, blöðrur, föndur, íþrótta- og sportvörur, útivistarvörur, blóm og pottaplöntur, mold, áburður, blómapottar, jólatré, gæludýr, gæludýrafóður, gæludýravörur, gæludýrasnyrting, -þjálfun, -merking og -fóðrun.

Íþróttir og fjölmiðlun

 • Aðgangseyrir að íþróttaleikjum, sundlaugum og golfvöllum, íþróttanámskeið, tónlistarnámskeið, tungumálanámskeið, tómstundanámskeið s.s. dansnámskeið, sundnámskeið, heilsurækt, veiðileyfi, kvikmyndasýningar, leikhús, tónleikar, vídeóleigur, afnotagjöld útvarps og sjónvarps, hestamennska, filmuframköllun.

Blöð, bækur og ritföng

 • Bækur, námsbækur, bókaklúbbar, dagblöð og tímarit (innlend og erlend), stílabækur, möppur, ritföng

5. Samskipti

Neysluvörur sem falla undir þennan flokk eru: póstur, sími og internetáskrift. Viðmiðið er reiknað sem miðgildi útgjalda fyrir hverja fjölskyldugerð. Það þýðir að 50% heimila notar viðmiðunarupphæðina eða lægri upphæð til innkaupa á vörum sem falla undir þennan flokk.

Póstur og sími

Póstburðagjald, símtæki, símaþjónusta, internettengingar og internetáskrift.

6. Önnur þjónusta

Neysluvörur sem falla undir þennan flokk eru: þjónustugjöld fjármálastofnanna, heimilisþjónusta, hársnyrting og önnur persónuleg snyrting og ýmis opinber þjónusta. Viðmiðið er reiknað sem miðgildi útgjalda fyrir hverja fjölskyldugerð. Það þýðir að 50% heimila notar viðmiðunarupphæðina eða lægri upphæð til innkaupa á vörum sem falla undir þennan flokk.

Fjármálaþjónusta ó.t.a.

 • Færslugjöld debetkorta og ávísana, ávísanahefti, lántökukostnaður, tilkynningagjöld, vanskilagjöld, gjöld vegna greiðslukorta, stimpilgjöld, þinglýsingar.

Önnur þjónusta ó.t.a.

 • Skattframtalsaðstoð, ljósritunarkostnaður, prestþjónustugjöld, fasteignasala, vegabréf.

Heimilisþjónusta o.fl.

Heimilishjálp,  barnapíur, garðþjónusta og öll önnur þjónusta sem keypt er á heimilisgrunni.

Hársnyrting, snyrting o.fl.

Klipping, snyrting og nudd.

7. Samgöngur

Neysluvörur sem falla undir þennan flokk eru: rekstur bifreiðar, þ.m.t. tryggingar en ekki fjármagnskostnaður og strætókort fyrir hvern fjölskyldumeðlim umfram tvo. Við útreikninga á rekstrarkostnaði bifreiða er stuðst við útgjaldarannsókn Hagstofu Íslands, útreikninga Félags íslenskra bifreiðaeigenda, upplýsingar bifreiðaumboða um eyðslu og útblástur ýmissa bifreiðategunda og upplýsingar tryggingafélaga um tryggingagjöld. Mánaðarverð strætókorta tekur mið af að keypt sé 3 mánaða kort. Þar sem strætisvagnasamgöngur eru ekki til staðar er gert ráð fyrir að aukinn kostnaður vegna reksturs bifreiðar jafngildi kostnaði strætókortanna.

Rekstur ökutækja

Varahlutir, viðgerðir, hjólbarðar, hreinsiefni, bensín, bifreiðaskoðun, tryggingar.

Almenningssamgöngur

Strætisvagnafargjöld. 

Önnur föst útgjöld

Fyrir önnur útgjöld notar umboðsmaður skuldara ekki viðmið, heldur tekur mið af raunútgjöldum hverrar fjölskyldu. Þetta á t.d. við um eftirfarandi útgjöld:

 •  Húsaleiga
 • Rafmagn, hiti og hússjóður
 • Fasteigna-, vatns- og fráveitugjöld
 • Tryggingar, aðrar en bílatryggingar
 • Skóli og dagvistun
 • Önnur útgjöld