Fara í efni

Breyting á samningi

Sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður

Ef upp koma sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður á tímabili greiðsluaðlögunarsamnings sem veikja verulega getu skuldara til að uppfylla skyldur sínar skv. samningi.

Með ófyrirsjáanlegum aðstæðum er t.d. átt við tekjulækkun hjá skuldara í kjölfar veikinda eða atvinnuleysis eða að skuldari þurfi að mæta ófyrirséðum nauðsynlegum kostnaði.

Með sérstökum aðstæðum er t.d. átt við tilvik þar sem svo miklar hækkanir hafa orðið á almennum framfærslukostnaði að ekki telst ásættanlegt að skuldari sé skuldbundinn að greiða umsamda afborgunarfjárhæð samkvæmt samningi en er ekki ætlað að taka til tilvika þar sem hefðbundnar sveiflur eru á hækkun framfærslukostnaðar, eingöngu tilvika þar sem ljóst er að um mikinn forsendubrest er að ræða.

Hverju er hægt að breyta ?

Gjaldfrestur á allt að þremur gjalddögum

 • Skuldari getur óskað eftir því við UMS að veittur sé gjaldfrestur á allt að þremur gjalddögum samkvæmt samningi, án þess að breytingin sé borin undir kröfuhafa.

Annarskonar breytingar á skilmálum

 • Ef þörf er á annarskonar breytingu en frestun á allt að þremur gjalddögum getur skuldari óskað eftir því við UMS, áður en tímabil greiðsluaðlögunar er á enda, að UMS hafi milligöngu um breytingu á samningi gagnvart kröfuhöfum.
 • Skilyrði er að upp hafi komið sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veiki getu hans til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi eða sem leiða til þess að breyta þurfi að öðru leyti skilmálum samnings.
 • Breytingar á skilmálum geta t.d. falið í sér lengingu á samningstímabil eða samninga um eftirgjöf krafna ef upphaflegar forsendur stóðust ekki t.d. ef vonir hafa staðið til að hagur skuldara myndi vænkast en það hefur ekki gengið eftir.

Ef skuldara er á tímabili greiðsluaðlögunarsamnings gert kunnugt um kröfu sem stofnaðist áður en greiðsluaðlögun var samþykkt:

 • Slík krafa verður felld undir samning um greiðsluaðlögun ef UMS telur það hafa óveruleg áhrif gagnvart öðrum kröfuhöfum.

Ef fjárhagsstaða skuldara batnar á tímabili samnings?

 • Ef fjárhagsstaða batnar þannig að skuldari hefur tök á að greiða að fullu þær kröfur sem samningur tekur til er honum heimilt að óska eftir að samningi verði breytt á þann veg.

Hvenær geta kröfuhafar farið fram á breytingu á samningi ?

 • Kröfuhafi, sem greiðsluaðlögunarsamningur tekur til, getur krafist þess að gerð verði breyting á samningi um greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu.
 • Hafi fjárhagsstaðan batnað vegna þess að skuldari hefur fengið í hendur háa fjárhæð getur kröfuhafi krafist þess að samningnum verði breytt á þann veg að skuldara sé skylt að skipta fénu að hluta eða að fullu milli kröfuhafa.
 • Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um kröfuna innan mánaðar frá því að hún berst.
 • Ákvörðun umboðsmanns skuldara geta skuldari og kröfuhafar kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst þeim.

Skylda skuldara til að upplýsa: 

 • Ef upp koma aðstæður sem veita kröfuhöfum rétt til að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun skv. ofangreindu skal skuldari innan eins mánaðar og á tryggan hátt upplýsa kröfuhafa um þær aðstæður.

Getur samningur fallið úr gildi ?

 • Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef vanskil hafa verið á samningi í sex mánuði og ekki liggur fyrir að skuldari hafi óskað eftir breytingu á samningi
 • Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fellur frá á tímabili greiðsluaðlögunar. Ef samningur er ógiltur af þeim sökum er óheimilt að leggja dráttarvexti eða annan innheimtukostnað á kröfur sem samningur tekur til vegna þess tímabils sem greiðsluaðlögun stóð yfir hafi skuldari staðið við greiðslur samkvæmt samningnum.
 • Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta.

Hvernig er hægt að óska eftir breytingu? 

 • Senda tölvupóst á netfangið ums@ums.is 
 • Hafa samband í síma og fá ráðgjöf um næstu skref