Fara í efni

Niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana

Tillaga umsjónarmanns um niðurfellingu

Ef umsjónarmaður telur skuldara ekki lengur uppfylla skilyrði laga um greiðsluaðlögun sendir hann tillögu til umboðsmanns skuldara um niðurfellingu heimildar skuldara til greiðsluaðlögunar. Slík tillaga getur t.d. komið fram vegna breyttra aðstæðna skuldara eða nýrra upplýsinga sem komið hafa fram. Einnig ef umsjónarmaður telur skuldara ekki hafa sinnt skyldum sínum eða ef umsækjandi hefur ekki skýrt fjárhag sinn á fullnægjandi hátt.

Mat umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara metur sjálfstætt tilkynningu umsjónarmanns um að fram hafi komið upplýsingar sem bendi til þess að skuldari uppfylli ekki lengur skilyrði laganna. Við meðferð málsins er skuldara sent bréf og veittur frestur til að koma andmælum, gögnum og/eða nýjum upplýsingum á framfæri til umboðsmanns skuldara. Að frestinum liðnum tekur embættið ákvörðun um það hvort heimila eigi áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir eða hvort heimild skuldara til greiðsluaðlögunar verði felld niður.

Ákveði embættið að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar er sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála og er kærufrestur tvær vikur frá móttöku ákvörðunar.

Frestun greiðslna fellur niður að liðnum tveimur vikum frá afhendingu ákvörðunar. Ef skuldari ákveður að kæra ákvörðun embættisins og kæra berst til úrskurðarnefndar innan tveggja vikna framlengist frestun greiðslna þar til úrskurður liggur fyrir.  

Ástæður þess að umsjónarmaður leggur til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana

  • að skuldari hafi ekki lagt nægilega mikið fé til hliðar á tímabili greiðslufrestunar
  • að skuldari samþykki ekki sölu fasteignar sinnar þrátt fyrir að hafa ekki nægilega greiðslugetu til að borga af áhvílandi veðkröfum
  • að skuldari hafi ekki sinnt tilskyldu samráði við umsjónarmann, t.d. ekki svarað fyrirspurnum umsjónarmanns eða ekki veitt afstöðu sína til frumvarps til greiðsluaðlögunarsamnings
  • Ef skuldari undirritar ekki samning innan tveggja vikna frá því að samningur er sendur honum til undirritunar og veitir ekki fullnægjandi skýringar á ástæðum þess, skuli umsjónarmaður óska eftir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana.