Fara í efni

Ferming

Að mörgu er að huga þegar ferming er framundan.

Þó ekki sé lengur litið á fermingu sem vígslu barna inn í samfélag fullorðinna þá er fermingin engu að síður mikilvæg tímamót í lífi fermingarbarnsins og fjölskyldu þess.

Fermingardagurinn er gleðidagur þar sem fjölskylda og vinir koma saman og fagna. Fermingin getur þó hæglega orðið að kostnaðarsömum viðburði. Þá upplifa sumir þrýsting vegna kröfunnar um að dagurinn verði sérstakur og eftirminnilegur og getur slíkur þrýstingur skapað streitu. Umstangið og kostnaðurinn sem tengist fermingunni ræðst meðal annars af hefðum, smekk og efnahag hverrar fjölskyldu.  Hjá sumum getur tilhugsunin um útgjöld sem fylgja fermingunni verið yfirþyrmandi en með góðri yfirsýn er auðveldara að forgangsraða og skipuleggja sig þannig að bæði undirbúningurinn og sjálfur fermingardagurinn verði sem ánægjulegastur.

Hér verður fjallað um ferminguna út frá annars vegar þeim útgjöldum sem tengjast fermingu og hins vegar út frá skipulagi fermingarundirbúnings.

Gjald vegna fermingar

  • Gjald vegna fermingar hjá Þjóðkirkjunni er um 20.000 kr. Um er að ræða kostnað samkvæmt gjaldskrá vegna fermingarfræðslu. Einnig er greitt hóflegt gjald fyrir leigu á fermingarkyrtli. Í sumum tilvikum er einnig krafist gjalds vegna bóka og ferðalaga sem tengjast fermingarfræðslunni.
  • Kostnaður hjá öðrum söfnuðum og félögum sem framkvæma fermingu eða sambærilegar athafnir er mismunandi, eða allt frá því að vera enginn og upp í nokkra tugi þúsunda kr.
  • Það hafa ekki allir fjárhagslega getu til að standa straum af kostnaði vegna fermingar. Þá er mögulegt að leita til Þjóðkirkjunnar, eða þeirra safnaða eða félaga sem barnið fermist hjá, og kanna möguleika á stuðningi.

6–12 mánuðum fyrir fermingu

  • Það fyrsta sem þarf að gera er að ákveða fermingardagsetninguna.
  • Flestir halda fermingarveislu og því þarf að áætla fjölda gesta og ákveða hvar skuli halda veisluna. Ef veislan á ekki að vera í heimahúsi þarf að panta sal með góðum fyrirvara, t.d. að hausti ef ferming er að vori.
  • Gerið lista yfir það sem þarf að kaupa og þau útgjöld sem búast má við að falli til, til dæmis vegna kaupa á fötum og skóm fyrir fermingarbarnið, og mögulega líka fyrir aðra fjölskyldumeðlimi. Kostnað vegna klippingar og/eða hárgreiðslu fermingarbarnsins og annarra fjölskyldumeðlima. Kostnað við fermingargjöf, við leigu á sal og áætlaðan kostnað vegna veitinga, skreytinga og annars sem tengist fermingardeginum. Lagt er til að kanna kostnaðinn með skipulögðum hætti, t.d. með því að skoða vefsíður, hringja í eða fara á mismunandi staði og gera verðsamanburð. Með því að skrá útgjöldin niður fæst yfirsýn yfir væntanlegan kostnað við ferminguna. Ef kostnaðurinn reynist hærri en fjárhagurinn leyfir þá þarf að fara yfir útgjaldalistann aftur og sjá hvar mögulegt er að lækka hann. 
  • Þegar listi yfir útgjöld liggur fyrir borgar sig að hafa augun opin fyrir tilboðum og nýta þau eins og hægt er. Flest útgjöld tengd fermingu falla þó til þegar nær dregur fermingardeginum.
  • Þegar áætlun um kostnað við ferminguna liggur fyrir þarf að skoða hvort fjárhagurinn standi undir kostnaðinum eða hvort gera þurfi áætlun um sparnað. Þeir sem hafa lagt fyrir sparnað til að eiga fyrir fermingunni þurfa að gæta þess að halda fjárhagsáætlun. Þeir sem hafa annaðhvort ekkert getað sparað eða eiga sparnað fyrir hluta útgjaldanna þurfa að gera áætlun sem miðar að því að eiga fyrir áætluðum útgjöldum þegar að þeim kemur. Með því að deila heildarfjárhæð kostnaðar í fjölda mánaða fram að fermingu er hægt að sjá hversu mikið þarf að leggja fyrir í hverjum mánuði til að eiga fyrir kostnaðinum. Ef áætluð sparnaðarfjárhæð er of há þá þarf aftur að fara yfir listann yfir útgjöld og reyna að lækka kostnaðinn.
  • Leggið sparnaðarfjárhæðina inn á sérstakan sparnaðarreikning þar sem ekki er of auðvelt að nálgast hana. Þá eru minni líkur á að gripið sé til sparnaðarins vegna útgjalda sem ekki tengjast fermingunni.
  • Ef ekki er útlit fyrir að hægt sé að spara nógu mikið til að eiga fyrir útgjöldunum borgar sig að leita aðstoðar áður en tekin er ákvörðun um að taka lán. Til dæmis er hægt er að kanna möguleika á aðstoð hjá hjálparstofnunum og hjá kirkjum. Þessir aðilar geta veitt tekjulitlum heimilum stuðning vegna fermingar. Lántöku fylgir alltaf kostnaður og ef ekki er greiðslugeta til að leggja til hliðar sparnað fram að fermingu þá er heldur ekki víst að til staðar verði greiðslugeta til að endurgreiða lánið. Lántökur geta í þeim tilvikum frestað vandanum frekar en að leysa hann. Ef niðurstaðan verður engu að síður sú að taka lán, þarf að skoða vel þá lánamöguleika sem eru í boði og velja þann sem felur í sér sem minnstan kostnað. Ljóst þarf að vera hve há lánsfjárhæðin þarf að vera svo ekki þurfi að stofna til fleiri lána síðar.

2-3 mánuðum fyrir fermingu

Boðskort

  • Í flestum tilfellum ætti að vera nóg að senda boðskortin út 3-6 vikum fyrir fermingardaginn en ef væntanlegir gestir koma langt að er ákveðin tillitssemi að láta þá aðila vita af fermingardeginum með lengri fyrirvara.

Ákveða veitingar

  • Ef fjölskyldan ætlar sjálf að sjá um veitingarnar er kominn tími til að gera innkauplista og skipuleggja hvenær þurfi að vera búið að versla inn. Matvörur með góðu geymsluþoli er hægt að kaupa með fyrirvara, eins og til dæmis flesta drykkjarföng, bökunarvörur og frystivörur. Ef ætlunin er að kaupa tilbúnar veitingar, að hluta til eða að öllu leyti, er tímabært að panta þær. Ef virkja á stórfjölskylduna, eða vinahópinn, í fermingarundirbúningnum þá er komið að því að útdeila verkefnum svo öllum sé ljóst hvers er ætlast af þeim. Ef þörf er á aðstoð í eldhúsi eða í sal á meðan á veislunni stendur er líka tímabært að ganga frá því, t.d. með því að semja við góðan vin/fjölskyldumeðlim, sem er ekki á meðal boðsgesta, um að aðstoða í veislunni. Þá er hægt að bjóða fram sömu aðstoð á móti ef viðkomandi þarf síðar á því að halda.

Panta klippingu/greiðslu. 

  • Það borgar sig að panta klippingu, og greiðslu ef við á, með góðum fyrirvara, bæði fyrir fermingarbarnið sjálft og aðra fjölskyldumeðlimi.

Bóka ljósmyndara.

  • Ef fermingarbarnið fer í myndatöku hjá ljósmyndara þá þarf að bóka slíkt með góðum fyrirvara. Gerið samanburð, bæði á þeirri þjónustu sem í boði er og á verði. Það getur verið sniðugt að hafa myndatökuna nokkuð fyrir fermingardaginn sjálfan og nota myndirnar til skrauts í veislunni. Einnig gæti komið til greina að semja við vin/fjölskyldumeðlim um að taka myndir í veislunni svo fermingarbarnið og foreldrarnir geti frekar notið þess að spjalla við veislugesti. Það er um að gera að deila verkefnum.

Skreytingar.

  • Kaupa servéttur, gestabók, sálmabók, kerti og annað skraut og ef merkja á t.d. sálmabók, kerti og/eða servéttur þá þarf að vera fyrirvari á því. Eins þarf að huga að mögulegri afþreyingu í veislunni, ef um það ræðir, t.d.  myndasýningu, ræðu eða jafnvel tónlistaratriði ef t.d. fermingarbarnið eða hæfileikaríkur vinur/fjölskyldumeðlimur er tilbúinn að syngja eða spila á hljóðfæri í veislunni.

1-2 vikum fyrir fermingu

Það getur verið góð hugmynd að gera dagsskipulag fyrir hvern dag síðustu 1 til 2 vikurnar fyrir ferminguna, þ.e. gera eins konar stundaskrá. Þannig fæst yfirsýn yfir verkefnin sem framundan eru. Það er um að gera að virkja sem flesta í kringum sig til að taka þátt í undirbúningnum og þiggja þá aðstoð sem býðst og auðvitað ætti líka að virkja fermingarbarnið sjálft til að taka þátt. Fermingarundirbúningurinn getur verið mjög skemmtilegt fjölskylduverkefni.

Eftir fermingu

  • Ekki gleyma að halda utan um hver gaf fermingarbarninu hvaða gjafir og sjá til þess að fermingarbarnið þakki fyrir með símtali eða persónulegu skilaboði. 
  • Peningagjafir, sem alltaf eru vinsælar fermingargjafir, gefa foreldrum gott tilefni til að ræða fjármál við barnið sitt. Þar sem börn eru ekki fjárráða þá er það á ábyrgð foreldra að barnið læri að umgangast peninga og temji sér að fara vel með þá peninga sem það eignast.
  • Varðandi varðveislu fermingarpeninga, þá bjóða viðskiptabankarnir upp á mismunandi sparnarleiðir, ýmist verðtryggðar eða óverðtryggðar, með misháum vöxtum, sumar bundnar í ákveðinn tíma og aðrar án binditíma. Sparnaðarreikningar sem eru bundnir í ákveðinn tíma, t.d. í 3 ár eða þar til barnið verður 18 ára, eru yfirleitt með betri vaxtakjörum en þeir sem eru óbundnir og þeir eru líka yfirleitt verðtryggðir. Foreldrar geta aðstoðað fermingarbarnið við að ákveða hvert markmiðið með sparnaðinum eigi að vera. Setji barnið sér langtímamarkmið, t.d. að fjármagna bílpróf, að kaupa sér bíl eða eiga sparnað sem nýtist við íbúðarkaup síðar meir, þá gæti hentað að velja bundna sparnaðarleið. Ef barnið stundar íþróttir eða á sér áhugamál sem útheimtir mikinn kostnað, þá gæti hentað að geyma sparnaðinn á reikningi með skemmri binditíma. Mögulega væri hægt að skipta sparnaðarfjárhæðinni upp og geyma hluta hennar á bundnum reikningi en hafa einnig hluta aðgengilegan til ráðstöfunar. Ráðlagt er að kynna sér þá sparnaðarmöguleika sem eru í boði hjá bönkunum og velja þá leið sem hentar markmiðunum.