Fara í efni

Fréttir

templateShare
Leitin að peningunum heldur áfram

Umboðsmaður skuldara hleypti hlaðvarpsþáttunum Leitinni að peningunum af stokkunum haustið 2020. Þættirnir, sem framleiddir eru með stuðningi frá félagsmálaráðuneytinu, hafa það að markmiði að auka fjármálavitund hjá ungu fólki. Leitinni að peningunum hefur verið vel tekið en þættirnir hafa fengið mikla hlustun og hafa iðulega verið í topp 20 á lista Spotify yfir öll hlaðvörp sem hlustað er á hér á landi.

Upphaflega stóð til að framleiða um 30 þætti. Í ljósi þess hversu viðtökur hafa verið góðar og að stöðugt bætast við nýjir hlustendur hefur verið ákveðið að framleiða 22 þætti til viðbótar. Umsjónarmaður þáttanna verður sem fyrr Gunnar Dofri Ólafsson og framleiðandi Kolbeinn Marteinsson hjá Athygli.

Samkvæmt mælingum Spotify er langmest hlustun hjá aldurshópnum 28-34 ára, eða 32% af allri hlustun, en þar á eftir kemur aldurshópurinn 18-27 ára með 30% hlustun. Ungt fólk hefur því tekið þáttunum vel. Umboðsmaður hefur fengið mikil og jákvæð viðbrögð við þáttunum og fjölmargar gagnlegar ábendingar um viðmælendur og um efnistök.