Fara í efni

Fréttir

templateShare
Vandi vegna skyndilána eykst, nauðsynlegt að grípa til aðgerða

 

Fréttatilkynning

25. mars 2019

 

Umsækjendur sem óskuðu aðstoðar Umboðsmanns skuldara (UMS) vegna fjárhagsvanda  fjölgaði um 6,5% á árinu 2018 miðað við árið á undan. Alls bárust 1.397 umsóknir til embættisins 2018 á móti 1.311 umsóknum árið 2017. Mest fjölgaði umsækjendum sem voru á aldrinum 18-29 ára eða úr 23% árið 2017 í 27,3% árið 2018.

Auðvelt aðgengi

Umboðsmaður skuldara hefur áður vakið athygli á vaxandi fjölda ungs fólks í vanda vegna töku skyndilána en UMS skilgreinir skyndilán sem lán sem tekin eru á vefsíðum eða með smáforritum í gegnum farsíma. Lánin eiga það sameiginlegt að einfalt er að sækja um þau og þau eru afgreidd afar skjótt. Bæði getur verið um að ræða lán sem tekið er samhliða kaupum á vöru eða þjónustu en einnig lán þar sem ákveðin fjárhæð er lögð inn á reikning lántaka. Á árinu 2018 var hlutfall skyndilána 22% af heildar fjárskuldbindingu þessara einstaklinga og er það verulegt áhyggjuefni að enn skuli fjölga í hópi umsækjenda á aldrinum 18-29 ára.

Neysluhvetjandi auglýsingar

Einstaklingar sem leita sér aðstoðar eiga það sameiginlegt að hafa tekið fjölda skyndilána á stuttum tíma og komið sér í töluverðar skuldir. Markaðssetning skyndilána er öflug og áberandi og er beint í miklum mæli að yngri kynslóðinni með áherslu á auðvelt aðgengi. Að mati UMS er mikilvægt að kannað verði hvort hægt sé að setja skorður við því hvernig þessi þjónusta er markaðssett. Benda má á að í Noregi hafa t.d. verið settar strangar reglur um hvernig auglýsa má þjónustu sem þessa.

Miðlægur skuldagrunnur

Ljóst er að einstaklingar geta auðveldlega tekið mörg lán á stuttum tíma hjá ólíkum þjónustuaðilum og þannig skuldsett sig langt umfram greiðslugetu. Með því að skrá skuldastöðu einstaklinga væri hægt að koma í veg fyrir að sami einstaklingur taki mörg lán hjá ólíkum aðilum með ofangreindum afleiðingum. Með aðgangi að slíkri miðlægri skrá gætu þeir sem veita skyndilán betur metið lánshæfi umsækjenda eins og kveðið er á um í lögum um neytendalán. Slík skráning myndi auk þessi veita yfirsýn yfir umfang útlána af þessu tagi sem ekki er fyrir hendi í dag.

Fræðsla um fjármál

Dæmin sýna að þeir sem taka skyndilán eru í meiri áhættu að lenda í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Tryggja þarf að einstaklingar hafi forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir í fjármálum. Með samvinnu mennta- og velferðarkerfis, fjármálafyrirtækja og fleiri aðila þarf að tryggja samræmda fjármálafræðslu barna og ungmenna og það þarf að byrja snemma. Sameiginlegt markmið okkar ætti að vera að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji sitt fjárhagslega sjálfstæða líf með neysluskuldir á bakinu.

Síðustu misseri hefur Umboðsmaður skuldara lagt aukna áherslu á fræðslumál og útgáfu fræðsluefnis og einn liður í því er ný vefsíða embættisins sem opnuð verður í dag 25. mars. Á  vefsíðunni er auk upplýsinga um þjónustu embættisins að finna ýmsan fróðleik um fjármál einstaklinga.

Myndatexti:

Fjöldi umsókna um aðstoð vegna fjárhagsvanda  hefur aukist jafnt og þétt á liðnum árum og mest í yngsta aldursflokknum.

 

 

Myndatexti:

Þróun á heildarfjölda umsókna um aðstoð UMS vegna fasteignalána annars vegar og vegna skyndilána hins vegar.

skyndilán

 

Nánari upplýsingar veitir:

Sara Jasonardóttir, Verkefnastjóri fræðslu og kynningarmála.

sara@ums.is