Fara í efni

Fréttir

templateShare
Breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga samþykktar á Alþingi
Ánægjulegt er að segja frá því að samþykktar hafa verið breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.

Markmiðið með þeim breytingum sem nú hafa verið samþykktar er að bæta úrræðið um greiðsluaðlögun og gera málsmeðferðina skýrari og skilvirkari, umsækjendum til hagsbóta.

Breytingarnar taka gildi þann 1. apríl næstkomandi.

Helstu breytingar sem samþykktar voru eru eftirfarandi:

  • Breyting á meðferð ákveðinna krafna sem standa utan greiðsluaðlögunar þannig að úrræðið verður heildstæðara. Í þessu felst t.d. að ákveðnar kröfur geta orðið hluti af greiðsluáætlun samnings, þrátt fyrir að ekki sé hægt að kveða á um eftirgjöf á þeim (t.d. virðisaukaskattur, meðlagsskuldir, fésektir).
  • Rýmkun á skilyrðum um búsetu og lögheimili á Íslandi og breyting á þeim aðstæðum sem geta leitt til synjunar á umsókn, þannig að fleiri geti leitað greiðsluaðlögunar.
  • Breyting á meðferð veðskulda, m.a. til að bregðast við sérstökum aðstæðum eins og háu vaxtastigi. Heimilt verður að kveða á um lægri greiðslur eða gjaldfrest af veðlánum við ákveðnar aðstæður.
  • Ný málsmeðferðarákvæði vegna yfirveðsetningar á fasteignum, þar sem einstaklingar geta óskað eftir lækkun á veðsetningu þannig að hún miðist við markaðsverðmæti fasteignar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
  • Að kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum falla undir greiðsluaðlögun þannig að hægt verði að kveða á um meðferð þeirra í samningi.
  • Breytingar á málsmeðferð vegna breytinga eða ógildingar á greiðsluaðlögunarsamningi, m.a. til þess að auka líkur á því að skuldari geti staðið við samninginn og auka skilvirkni gagnvart kröfuhöfum.

Birtar verðar frekari upplýsingar og fræðsla á vefsíðu UMS í samræmi við þær breytingar sem samþykktar hafa verið þegar nær dregur gildistöku laganna.

Sjá frétt á vef stjórnarráðsins