Fara í efni

Fréttir

templateShare
Fjögur tímalaus ráð í fjármálum
Gunnar Baldvinsson
Gunnar Baldvinsson

Fjögur tímalaus ráð í fjármálum

Fjármál eru eins og hvert annað verkefni. Þeim þarf að sinna og líkur á góðum árangri aukast með góðum undirbúningi og markvissum vinnu­brögðum. Þeim sem gefa sér tíma er umbunað með betri fjárráðum. Hér eru fjögur ráð sem eiga við á öllum tímabilum ævinnar og eru undirstaðan að traustum fjárhag.

1.     Ekki eyða um efni fram

Lykilatriði í fjármálum er að sníða sér stakk eftir vexti  og gæta að því að útgjöld séu í samræmi við tekjur, annars getur farið illa. Til að passa upp á þetta er ráðlegt fyrir hvern og einn að gera útgjalda- og greiðsluáætlun í byrjun hvers árs og fylgja henni. Með því verður einstaklingur eða hjón meðvitaðri um fjármálin og fjárhagslega getu til að eyða og fjárfesta.

2.     Borgaðu sjálfum þér fyrst

Einfaldasta og árangursríkasta leiðin til að eignast sparnað og eignir er að leggja fyrir í hverjum mánuði. Fyrir einstaklinga er mjög gott að tileinka sér þá hugsun að ,,borga sjálfum sér fyrst” í byrjun hvers mánaðar. Í því felst að einstaklingar leggi fyrir í upphafi hvers mán­aðar áður en þeir greiða fyrir reikninga og önnur útgjöld. Með því að leggja fyrir fasta fjárhæð með reglulegu milli­bili er tryggt að það verður til nýr sparnaður á hverju tímabili. Fjárhæðin sem lögð er fyrir þarf ekki að vera há, mestu skiptir að tileinka sér að leggja alltaf fyrir. Smám saman mun  byggjast upp sjóður sem skiptir máli og eftir því sem tíminn líður bætast við vextir og vaxtavextir.

3.     Safnaðu frekar en að taka lán

Hófleg lántaka er eðlilegur hluti af fjármálum einstaklinga og getur bætt lífsgæði. Lán kosta og draga úr ráðstöfunartekjum og því er ráðlegt að taka eins lítið af lánum og hægt er. Það er að öðru jöfnu alltaf ódýrara að eignast hluti með því að spara fyrir þeim heldur en að taka lán. Ef fólk getur beðið með kaupin fær það innlánsvexti á sparnaðinn sinn á sparnaðartíma. Ef fólk getur ekki beðið greiðir það útlánsvexti á lánið. Oft munar miklu í krónum.

Þegar hlutur er keyptur með lántöku er hægt að taka hann í notkun strax. Þegar safnað eru fyrir kaupum þarf hins vegar að bíða sem nemur sparnaðartímanum. Sumir hafa ekki tíma til að bíða og verða því að taka lán. Þetta er auðvitað matsatriði fyrir hvern og einn og vissulega geta komið upp aðstæður þar sem ekki er hægt að bíða. Námsmaður í krefjandi námi getur e.t.v. ekki beðið eftir tölvu í 2 ár. Það sem skiptir mestu máli er að fólk átti sig á því að það er ódýrara að safna fyrir hlutum heldur en að taka lán. Það á að vera meginreglan þó svo að í undantekningartilvikum geti borgað sig að taka lán.

Sumar eignir eru þó svo fjárfrekar að fáir eða engir hafa tíma til að safna fyrir þeim. Dæmi um það er fasteign sem tekur oftast mörg ár eða áratugi að safna fyrir. Enginn getur verið án íbúðar og að því gefnu að einstaklingur eða hjón eigi fyrir útborgun getur verið hagkvæmt að kaupa fasteign með lántöku.

4.     Gerðu ráð fyrir áföllum

Allir verða fyrir einhverjum áföllum í lífinu. Það er mun auðveldara að mæta þeim ef einstaklingar kortleggja áhættur fyrirfram og gera ráðstafanir til að verjast fjárhagslegum áföllum. Dæmi um þetta er hættan á að missa tekjur vegna óvinnufærni eða hættan á að tjón verði á húsnæði vegna innbrots, vatns eða foktjóns. Gott ráð er að eiga vara­sjóð til að mæta óvæntum útgjöldum eða tímabundnum tekjumissi. Einnig að fara reglulega yfir tryggingamál heimilisins og passa upp á að eignir séu tryggðar fyrir tjónum og heimilið fyrir afkomumissi vegna veikinda, slysa eða fráfalls.

Fjármál fjalla um að afla, ráðstafa og varðveita peninga eða önnur verðmæti. Sömu sjónarmið gilda á öllum aldri, að fara vel með og eyða ekki um efni fram. Fjármál eru í eðli sínu ekki flókin en þau geta verið tímafrek. Einstaklingar sem gefa sér tíma til að skipuleggja fjármálin og fylgja fyrrnefndum fjórum ráðum munu hafa meiri ráðstöfunartekjur á ævinni heldur en hinir sem gleyma að gefa sér tíma.

 

Gunnar Baldvinsson er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og fyrrum formaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Gunnar hefur í gegnum tíðina skrifað fjölda greina um fjármál og gefið út bækur um fjármál.