Fara í efni

Fréttir

templateShare
Hugarfar og atvinnuleit
Hrefna Guðmundsdóttir 
Ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun. 
Vinnu- og félagssálfræðingur. 
Meðhöfundur…
Hrefna Guðmundsdóttir
Ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun.
Vinnu- og félagssálfræðingur.
Meðhöfundur af bókinni ,,Why are Icelanders so Happy?" (2018).

Það er auðvelt að upplifa kvíða, einangrun og jafnvel sorg þegar fólk missir vinnuna sína. Ekki er maður eingöngu að missa viðurværið sitt, heldur samstarfsfélaga og einnig þarf að kveðja spennandi verkefni. Því er oft haldið að okkur að í öllum aðstæðum séu tækifæri. Stundum þarf aðstoð til að geta séð hlutina með þeim augum. En svo kemur að því að bretta þarf upp ermar og halda áfram, leita nýrra leiða. Við erum ekki tré, við getum flutt okkur um set vegna starfs, við getum aðlagað okkur að nýjum aðstæðum og lært nýja hluti. Gleymum því ekki að stundum erum við sjálf mesta hindrunin í eigin lífi.

Margir trúa því að eiginleikar okkar og styrkleikar séu meðfæddir. Ef svo er, væri tómt mál að tala um að auka trú okkar á eigin getu eða styrkja þrautseigju. En nú höfum við flest lært að lesa, við höfum tekist á við allskonar áskoranir sem hafa breytt því hvernig við hugsum. Við þekkjum þetta kannski þannig að ef við erum að hugsa um að kaupa okkur bíl og erum að hugsa um að kaupa bíl af ákveðinni gerð, þá skyndilega förum við að taka eftir slíkum bílum í umferðinni, jafnvel út um allt.

Skoðum líka kvíða aðeins betur, kvíði er að sjá fyrir sér að hlutirnir séu ekki að ganga upp eins og til er ætlast og þá kemur upp spenna í maga og höfði. Kvíði er þá væntanlega afurð ímyndunarafls, að geta ímyndað sér aðstæður í framtíðinni. Kvíði er þá sem sagt afurð af styrkleikanum ímyndunarafl. Hægt er í kvíðaástandi að sjá fyrir sér einhverja sviðsmynd þar sem allt fer forgörðum, en er hægt að ímynda sér líka hvað gott gæti gerst?  Í raunveruleikanum vitum við að oft rætast ekki verstu spárnar heldur gerist eitthvað sem enginn sá fyrir. „Margur kvíðir þeim degi sem aldrei kemur“ varð afa oft á orði við svona aðstæður. Gleymum því ekki að stundum gerist það allra besta sem getur gerst og megi það verða sem oftast. Gott er á erfiðum stundum að næra von og það sem gefur okkur kraft. Þá er ágætt að minna sig á að við höfum lært margt nýtt, gleymum því ekki að þótt við séum oft ljómandi ágæt, þá getum við örugglega flest bætt okkur. Getum gert betur í dag en í gær. Við getum leitað til annarra, gert hlutina með öðrum hætti, fengið lánaða dómgreind frá fólki sem við treystum og létt á okkur. Lífið er grindahlaup, við höfum nú þegar sigrast á nokkrum grindum, hví ekki þessa stóru sem er nú framundan? Allt hefst þetta með einu skrefi. Eitt skref í einu, Róm var ekki byggð á einum degi. Settu nú upp áætlun fyrir vikuna og næstu vikur og skiptu þessari áætlun í viðráðanleg hólf. Þetta geta verið eins og t.d. fyrsti kafli eins og ,,í dag ætla ég að hringja í vin og leita ráða“.

Carol Dweck er bandarísk fræðikona sem flokkar hugarfar okkar í tvennt; a) við getum séð verkefnin með vaxandi hugarfari eða b) stöðnuðu hugarfari. Staðnað hugarfar lýsir sér þannig að  við gerum okkur grein fyrir því hver við erum og teljum okkur ekki geta breyst, né haft áhrif á aðstæður. Vaxandi hugarfar er að gera sér grein fyrir að veröldin er síbreytileg og það erum við sjálf einnig. Hér að neðan eru ágæt dæmi um hvernig hugarfar getur hjálpað okkur að hugsa skapandi og lausnamiðað. Eins og einhverjum glettnum varð á orði ,,þá er ekkert víst að þetta klikki“.

Við þekkjum þessar raddir í höfðinu, skoðum hér dæmi að neðan um þessar tvær tegundir hugarfars. Gefum stöðnuðu hugarfari frí öðru hvoru og hlustum meira á þessa vaxandi: